HÆSTIRÉTTUR hefur framlengt gæsluvarðhald yfir pilti sem sakaður er um að hafa ítrekað höggvið annan pilt í höfuðið með sveðju. Varðhaldið stendur til 13. janúar. Lífsýni sem tekið var af sveðjunni hefur verið sent í DNA-greiningu og er beðið eftir niðurstöðu hennar.
Árásin var framin í Garðabæ í byrjun október sl. og hefur pilturinn setið í gæsluvarðhaldi síðan. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að blóð sem fannst á skóm piltsins kemur heim og saman við blóð úr fórnarlambinu. Þó að enn hafi ekki verið staðfest með DNA-rannsókn að hann hafi beitt sveðjunni segir Hæstiréttur að fyrir því sé rökstuddur grunur, m.a. á grundvelli framburðar vitna að árásinni.