Bílstjórar Strætós munu væntanlega aka upp á Akranes frá áramótum.
Bílstjórar Strætós munu væntanlega aka upp á Akranes frá áramótum. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is BÆJARSTJÓRN Akraness stefnir að því að hafnar verði reglulegar strætisvagnaferðir milli Akraness og Reykjavíkur í janúar 2006.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

BÆJARSTJÓRN Akraness stefnir að því að hafnar verði reglulegar strætisvagnaferðir milli Akraness og Reykjavíkur í janúar 2006. Gert er ráð fyrir að farnar verði allt að 81 ferðir á viku og er kostnaður Akraneskaupstaðar vegna þessa áætlaður um 22 milljónir á árinu 2006.

Að sögn Guðmundar Páls Jónssonar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, á þessi hugmynd sér töluverðan aðdraganda, en á fundi milli Akraneskaupstaðar og Strætós bs. í liðinni viku var gengið frá öllum efnisatriðum samningsins og verður hann formlegur undirritaður á næstu dögum. Samningurinn tekur gildi um áramótin að undangengnu samþykki stjórnar beggja samningsaðila.

"Við viljum koma ferðamálum í þann farveg að hægt verði að fara á strætisvagnafargjaldi á milli Akraness og Reykjavíkur," segir Guðmundur og áætlar að um 10% bæjarbúa sæki ýmist nám eða atvinnu til höfuðborgarsvæðisins. "Þannig að það er alveg ljóst að þörfin er fyrir hendi."

Aðspurður segir hann stefnt að því að farnar verði allt að 81 ferðir á viku, en eins og staðan er í dag eru þrjár til fjórar ferðir sérleyfisbíla milli Reykjavíkur og Akraness.

Um eitt atvinnusvæði að ræða

"Ástæðan fyrir því að við höfum ekki farið í þetta fyrr er að á þessu svæði hefur verið í gildi sérleyfi, en við höfum lengi haft áhuga á að skoða þennan möguleika. Núna eru að skapast aðstæður til þess að við getum komið að þessum málum og við gerum það í fullri samvinnu við samgönguyfirvöld. Þannig að þetta er í raun samvinnuverkefni milli Akraneskaupstaðar, samgönguyfirvalda og Strætós."

Spurður hvaða hljómgrunn hugmyndin hafi fengið hjá bæjarbúum segir Guðmundur ljóst að bæjarbúar hafi sýnt því mikinn áhuga að þjónustan verði með þessum hætti. Bendir hann á að með tilkomu Hvalfjarðarganganna séu Reykjavík og Akranes orðin eitt atvinnusvæði. "Á slíku atvinnusvæði eru tryggar samgöngur með ódýrum og markvissum hætti algjört lykilatriði. Auðvitað munu margir áfram keyra á milli í bílum sínum, en von okkar er að gera tilraun til að minnsta kosti eins árs og sjá hvort þetta nýtist ekki mörgum vel," segir Guðmundur og bendir á að ef allt gangi upp þá sé spurning hvernig stóriðjusvæðið á Grundartanga gæti nýtt sér þessa þjónustu í framtíðinni.

Leiðrétting 13. desember - Fimm ferðir virka daga

Sæmundur Sigmundsson sérleyfishafi, sem m.a. hefur annast ferðir milli Reykjavíkur og Akraness, segir ekki rétt að í dag sé boðið upp á þrjár til fjórar ferðir á dag milli Reykjavíkur og Akraness. Farnar séu fimm ferðir á dag virka daga.