Unnur Birna Vilhjálmsdóttir veitir eiginhandaráritanir í Kína í gær. Sjálfsagt verða áritanirnar orðnar allmargar að ári.
Unnur Birna Vilhjálmsdóttir veitir eiginhandaráritanir í Kína í gær. Sjálfsagt verða áritanirnar orðnar allmargar að ári. — AP
UNNUR Birna Vilhjálmsdóttir, sem á laugardaginn var kjörin ungfrú heimur, segist ekki vita hvað taki nú við því hún hafi ekki haft tíma til að ræða það við aðstandendur keppninnar.

UNNUR Birna Vilhjálmsdóttir, sem á laugardaginn var kjörin ungfrú heimur, segist ekki vita hvað taki nú við því hún hafi ekki haft tíma til að ræða það við aðstandendur keppninnar. Hún átti að halda heim á leið í gærmorgun en þær áætlanir breyttust snarlega þegar hún vann keppnina. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagðist hún þó vita að hún fengi að koma heim fyrir jólin og að hún gæti ekki beðið eftir því að komast heim.

Unnur Birna segir óljóst hvaða áhrif sigurinn muni hafa á nám hennar í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún segist munu starfa á vegum keppninnar og m.a. ferðast til allra heimsálfanna og dvelja þar í um einn mánuð í senn en koma heim á milli.

"Ég veit í raun og veru ekki hvernig þetta mun hafa áhrif á námið mitt," segir hún. "Ég giska á að ég þurfi að skera niður í námi eða fresta því á einhvern hátt. En aðstandendur keppninnar vilja að ég haldi áfram í náminu og þeir munu greiða allt mitt nám í framtíðinni. Ég mun halda áfram í skólanum og ég ætla að reyna að taka prófin í janúar eins og ég var búin að ákveða að gera," segir Unnur Birna. | 24