Fimm prestar tóku þátt í guðsþjónustunni í gær. Vigfús Þór Árnason sóknarprestur, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, sr. Bjarni Þór Bjarnason, sr. Lena Rós Matthíasdóttir og sr. Elínborg Gísladóttir. Jóhannes Jónsson, Finnur Ingólfsson og Hjalti Karlsson standa hjá hægra megin á myndinni.
Fimm prestar tóku þátt í guðsþjónustunni í gær. Vigfús Þór Árnason sóknarprestur, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, sr. Bjarni Þór Bjarnason, sr. Lena Rós Matthíasdóttir og sr. Elínborg Gísladóttir. Jóhannes Jónsson, Finnur Ingólfsson og Hjalti Karlsson standa hjá hægra megin á myndinni. — Morgunblaðið/Sverrir
FJÖLMENNI var við messu í Grafarvogskirkju í gærdag þar sem því var fagnað að innan tveggja ára fær söfnuðurinn nýtt orgel að gjöf.

FJÖLMENNI var við messu í Grafarvogskirkju í gærdag þar sem því var fagnað að innan tveggja ára fær söfnuðurinn nýtt orgel að gjöf. Nýja orgelið, sem er fjörutíu radda, mun kosta um fjörutíu milljónir en það er að mestum hluta fjármagnað með styrk frá Landsbanka Íslands, VÍS og Baugi Group. Eftir guðsþjónustuna skrifuðu undir samninginn þeir Finnur Ingólfsson fyrir hönd VÍS, Jóhannes Jónsson fyrir hönd Baugs og Hjalti Karlsson, útibússtjóri Landsbankans í Grafarvogi, fyrir hönd Björgólfs Guðmundssonar.

Af þessu tilefni söng um hundrað manna kór og strengjasveit sá um undirleik en auk þess lásu Finnur, Jóhannes og Hjalti ritningarorð.

Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur í Grafarvogskirkju, segir stundina stóra fyrir söfnuðinn og það hafi best sýnt sig með því hversu góð mæting hafi verið. Á milli fjögur og fimm hundruð manns hafi mætt í guðsþjónustuna og fór svo að ekki voru sæti fyrir kórinn og sátu meðlimir hans í safnaðarsalnum. Vigfús bendir á að tugi ára hefði tekið fyrir söfnuðinn að safna fyrir orgelinu ef ekki hefði komið til svo rausnarleg gjöf fyrirtækjanna þriggja og væri kirkjunni mikill sómi sýndur með glæsilegu orgeli.

Arkitektar kirkjunnar, Hilmar Björnsson og Finnur Björgvinsson, munu hanna orgelið í samstarfi við orgelnefnd en framkvæmdin verður boðin út að því loknu.