Stór hópur fólks leitar til hjálparsamtaka til að ná endum saman nú um jólin. Í frétt í Morgunblaðinu í gær kemur fram að nú virðast öryrkjar vera í meirihluta þeirra, sem leita aðstoðar í desember.

Stór hópur fólks leitar til hjálparsamtaka til að ná endum saman nú um jólin. Í frétt í Morgunblaðinu í gær kemur fram að nú virðast öryrkjar vera í meirihluta þeirra, sem leita aðstoðar í desember. Hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, sem er í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar, er gert ráð fyrir að milli þrjú og fjögur þúsund fjölskyldur fái úthlutað. 900 fjölskyldur eru á skrá hjá Fjölskylduhjálp Íslands og búast má við því að nokkur hundruð umsóknir berist Hjálpræðishernum.

Starf þessara samtaka fer fram allt árið, en langflestir leita til þeirra í desember og segir Vilborg Oddsdóttir, hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, að þeirra á meðal séu ungir, einstæðir foreldrar í námi.

Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, segir í samtali við Morgunblaðið að þeim, sem þurfi að leita sér aðstoðar í ár, hafi fjölgað um helming frá því í fyrra. Einnig hafi samsetning þess hóps, sem leitar til nefndarinnar, breyst. Umsækjendur séu nú yngri en áður og öryrkjum hafi fjölgað. Einnig segir hún að karlmönnum hafi fjölgað og þeir séu nú um 24% þeirra, sem fái aðstoð hjá nefndinni.

"Eftir því sem velmegunin verður meiri vaxa vandræðin hjá þessu fólki," segir Ragnhildur.

Það skýtur skökku við að þegar velsæld hefur aldrei verið meiri hér á landi skuli nokkur þúsund manns þurfa að leita sér hjálpar til að geta haldið jól með mannsæmandi hætti. Það getur verið að meðal þessa fólks séu einstaklingar í tímabundnum vandræðum, sem þurfi á aðstoð að halda á meðan það kemur undir sig fótunum að nýju. En í þessum hópi eru alltof margir, sem þurfa að leita sér aðstoðar ár eftir ár.

Þau samtök, sem veita þurfandi fólki aðstoð, meðal annars með því að úthluta matvælum, fötum og jólagjöfum, vinna þarft starf. Vel hefur gengið að afla framlaga handa þeim, sem biðja um aðstoð, og það er vel.

Það er hins vegar full ástæða til að velta því fyrir sér hvernig á því standi í íslensku velferðarsamfélagi að svona margt fólk skuli þurfa að leita sér aðstoðar. Hvers vegna eru svona margir Íslendingar í þeirri stöðu að vera utanveltu í þjóðfélaginu? Er það boðlegt að á meðan peningar flæða um samfélagið skuli öryrkjar ekki hafa meira en svo milli handanna að þeir þurfi að vera upp á aðstoð hjálparsamtaka komnir til að hafa í sig og á?