EINAR Magnús Magnússon, sem er í hópi kafara sem frá því í sumar hafa leitað að flakinu að Goðafossi, dregur verulega í efa að Tómas J. Knútsson hafi í raun og veru fundið flak Goðafoss. Engin staðfesting hafi fengist á fundinum og Tómas ekki fært sannfærandi rök fyrir því að hann hafi fundið flak skipsins.
Einar Magnús er í hópi kafara sem hefur verið að grennslast fyrir um flakið frá því í sumar og setti m.a. upp spjallsíðu á vefnum til að auðvelda mönnum að skiptast á tilgátum um mögulega staðsetningu. Hefur Morgunblaðið fylgst með undirbúningi hópsins.
Einar Magnús sagði í samtali við Morgunblaðið að fullyrðing Tómasar að hann hefði kafað í skipið væri ekki fyllilega trúverðug, m.a. vegna þess að Tómas hefði fyrir nokkrum dögum farið fram á það við einn úr hópnum, að hefja samstarf um leit að flakinu. Það væri sérkennilegt að óska eftir slíku samstarfi ef Tómas hefði þegar fundið flakið. Þar að auki væri afar undarlegt að Tómas skyldi ákveða að greina frá þessu nú, löngu eftir að hann segðist hafa fundið flakið. "Líklega er ástæðan sú að á spjallvef hópsins mátti sjá að líkur okkar á að finna skipið voru orðnar töluvert miklar," sagði hann.
Enn sem komið er hefur leit á vænlegum stöðum ekki borið árangur en Einar Magnús sagði að hópurinn myndi svo sannarlega halda leitinni áfram, þrátt fyrir yfirlýsingu Tómasar J. Knútssonar um að hann hefði fyrir löngu fundið skipið.
Einar Magnús bætti við að menn yrðu að forðast kapp og meting. Enginn ætti meiri rétt en annar á því að leita að eða kafa við flak Goðafoss. "Það væri óvirðing við þá sem létust þegar Goðafoss sökk, að menn færu að etja kappi um hver eigi heiður af því að finna skipið," sagði hann.