HARRY Redknapp mætir til leiks á ný sem knattspyrnustjóri Portsmouth á White Hart Lane í kvöld, en Martin Jol knattspyrnustjóri Tottenham vonast til þess að sagan muni endurtaka sig enda mætti Redknapp til leiks fyrir ári síðan sem knattspyrnustjóri Southampton og þá sigraði Tottenham 5:1, en það var fyrsti leikur Redknapp sem knattspyrnustjóri Southampton.
"Að mínu mati er Redknapp frábær knattspyrnustjóri og hann man eflaust eftir tapleiknum fyrir ári síðan er hann mætti til leiks sem knattspyrnustjóri Southampton. Hann mun eflaust nota alla sína reynslu til þess fá leikmenn Portsmouth til þess að berjast af hörku," sagði Jol en hann segist skilja afhverju Redknapp hafi sagt upp störfum fyrir ári síðan hjá Portsmouth. "Hann gat ekki unnið með þeim mönnum sem voru ráðnir til þess að starfa í nánu samstarfi við hann. Staðan sem hann var í var erfið, en núna eru breyttar aðstæður hjá Portsmouth og hann telur sig eiga heima hjá félaginu - ég skil þessa ákvörðun," sagði Jol en endurkoma Redknapp til Portsmouth hefur vakið gríðarlega athygli.
"Það hefur ekki verið algengt hjá enskum liðum að ráða tæknilega ráðgjafa sem starfar náið með knattspyrnustjóranum og aðstoðarmönnum hans. Við erum með slíkt kerfi hjá Tottenham og það hefur gengið vel að undanförnu en það tók tíma að laga slíkt vinnuferli að enskum venjum og hefðum," bætti Jol við.