Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri og Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu.
Erla Friðriksdóttir bæjarstjóri og Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu. — Morgunblaðið/Gunnlaugur Árnason
Eftir Gunnlaug Árnason Stykkishólmur | Alþingi hefur samþykkt að veita Stykkishólmsbæ fjárframlag til stofnunar Háskólaseturs Snæfellsness sem verður í Stykkishólmi.
Eftir Gunnlaug Árnason

Stykkishólmur | Alþingi hefur samþykkt að veita Stykkishólmsbæ fjárframlag til stofnunar Háskólaseturs Snæfellsness sem verður í Stykkishólmi. Framlagið fer til Stofnun fræðrasetra Háskóla Íslands til uppbyggingar háskólaseturs samkvæmt sérstökum samningi, en drög að honum liggja fyrir. Náttúrustofa Vetsurlands og Stykkishólmsbær hafa á undanförnum mánuðum unnið ötullega að málinu í samvinnnu við Háskóla Íslands.

Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands, var að vonum ánægður þegar ljóst var að Alþingi hafi tekið undir vilja heimamanna og lagt sitt af mörkum til að háskólasetur kæmist á laggirnar í Stykkishólmi. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúninginn, því málefnið er talið miklivægt. Róbert var spurður hvers vegna.

"Við sem starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands höfum haft mikinn áhuga á því að fá Háskóla Íslands til samstarfs. Þessi nýja starfsemi mun styrkja okkar stofnun. Þarna náum við beintengingu við Háskóla Íslands, inn í þetta stóra samfélag fræðimanna. Við lítum á þetta sem viðleitni til að búa til stærra samfélag fræðimanna, sem dregur úr einangrun og hættu á stöðnun í faginu," er svar Róberts Arnars.

"Beitiland fyrir stúdenta"

Gert er ráð fyrir að Háskólasetur Snæfellsness verði rannsóknarsetur, þar sem unnið verður að náttúrurannsóknum í náinni samvinnu við Náttúrustofuna. Við háskólasetrið mun starfa einn maður til að byrja með. Hann verður starfsmaður Háskóla Íslands. Stofnkostnaður er nær enginn. Stykkishólmsbær leggur til starfsaðstöðu og aðgang að rannsóknaraðstöðu og tækjabúnaði Náttúrustofu Vesturlands. Einnig leggur bærinn til gistiaðstöðu fyrir gestafræðimenn sem koma tímabundið til rannsókna á náttúru svæðisins.

Róbert segir að Háskóli Íslands sjái sér mikinn hag í samstarfinu. Háskólinn kemst með þessu móti inn á svæðið þar sem náttúran við Breiðafjörð og á Snæfellsnesi er einstaklega fjölbreytt. "Hér verður starfsstöð þar sem sérfræðingar Háskólans geta nýtt sér aðstöðuna í skamman tíma til rannsókna og sýnatöku," segir Róbert Arnar. "Þetta verður beitiland fyrir stúdenta í framhaldsnámi í náttúrufræðum, þar sem fagmenn taka á móti þeim og leiðbeina."

Nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir verður hafist handa að koma háskólasetrinu á fót. Kosin verður stjórn fyrir háskólasetrið. Hún mun ákveða verksviðið og setja kröfur um hæfismat starfsmanns og auglýsa í kjölfarið eftir starfsmanni. Róbert Arnar segir líkur á að stofnunin muni afmarkist af tveimur sviðum, fuglafræði og sjávarlíffræði. "Hvort sviðið verður á undan skiptir ekki máli, því við erum vissum um að hitt sviðið fylgir á eftir og okkur takist að láta þessa starfsemi vaxa," segir Róbert Arnar.