Árni Þór Sigtryggsson, skytta Hauka, sækir að þeim Daníel Berg Grétarssyni og Heiðari Erni Arnarsyni á Ásvöllum í gær.
Árni Þór Sigtryggsson, skytta Hauka, sækir að þeim Daníel Berg Grétarssyni og Heiðari Erni Arnarsyni á Ásvöllum í gær. — Morgunblaðið/Sverrir
ÍSLANDSMEISTARAR Hauka rótburstuðu nágranna sína úr Kaplakrika, FH, með tíu marka mun á Ásvöllum í gærkvöldi, 31:21, í DHL-deild karla í handknattleik.

ÍSLANDSMEISTARAR Hauka rótburstuðu nágranna sína úr Kaplakrika, FH, með tíu marka mun á Ásvöllum í gærkvöldi, 31:21, í DHL-deild karla í handknattleik. Framan af leik var þó fátt sem benti til þessarar útreiðar FH-inga því á fyrstu 12 mínútum leiksins lék liðið ljómandi vel en síðan ekki söguna meir. Á næstu átján mínútum gerðu FH-ingar, þótt ótrúlegt megi virðast, aðeins tvö mörk og staðan breyttist úr 4:6 í 16:8, en þannig stóðu leikar í hálfleik.

Eftir Svan Má Snorrason

Það var hreint makalaust og allt að því vandræðalegt að fylgjast með hruni FH-inga. Liðið mætti vissulega ákveðið til leiks og eins og það spilaði á fyrstu 12 mínútunum er mikið spunnið í þetta lið. Að duga ekki lengur en í þessar fáu mínútur gefur sterklega til kynna að eitthvað sé ekki eins og það á að vera hjá liðinu.

Það eina sem hrundi ekki í þessum leik hjá FH-ingum var markvarslan hjá Magnúsi Sigmundssyni og bjargaði hann án efa sínum mönnum frá mun stærra tapi. Það er hins vegar til marks um baráttu- og andleysið hjá FH-ingum að Haukarnir hirtu nánast öll fráköst af vörðum skotum Magnúsar. Varnarleikur liðsins var mjög slakur, vægast sagt, en sóknarleikurinn ennþá verri og einkenndist umfram allt af hugmynda-, stefnu-, og skipulagsleysi. Hraðaupphlaup liðsins voru oftast mjög stirð og þessi leikur er örugglega eitthvað sem leikmenn FH vilja gleyma en ættu ekki að gera; frekar ættu leikmennirnir að rifja þennan leik reglulega upp því hann er góður lærdómur um það hvernig ekki eigi að spila handbolta.

Hjörtur Hinriksson, hægri hornamaður FH-inga, leit raunsæjum augum á hlutina þegar Morgunblaðið náði tali af honum eftir leik: "Þetta er búinn að vera erfiður vetur hjá okkur og ef við höldum áfram á þeirri braut sem við erum nú á á veturinn eftir að verða enn erfiðari. Staðan á liðinu er einfaldlega ekki betri en þetta þótt við viljum meina að við séum betri en svo; við erum bara ekki að sýna það. Við erum með fína handboltamenn en þetta er einfaldlega ekki að virka hjá okkur og sálfræðipakkinn hjá liðinu er ekki nógu góður. Nú reynir virkilega á okkur en hingað til erum við búnir að bregðast illa við pressu en því verðum við að kippa í lag sem fyrst, annars fer illa," sagði Hjörtur.

Mest 13 marka forskot Hauka

Haukarnir sýndu á köflum í þessu leikallar sínar bestu hliðar en þeir slökuðu ósjálfrátt á klónni þegar nær dró leikslokum en mest náðu þeir þrettán marka forkskoti. Tveir leikmenn Hauka sem léku með FH í fyrra, þeir Arnar Pétursson og Guðmundur Pedersen, voru sínum fyrri samherjum erfiðir á þeim leikkafla þegar Haukar sneru taflinu sér í vil. Það var mikill kraftur í þeim báðum þá og sérstaklega Arnari sem skoraði þrjú mörk í röð auk þess að vinna eitt vítakast. Greinilegt var að hann ætlaði að senda stjórnarmönnum FH ákveðin skilaboð en þeir vildu ekki endurnýja samning hans í vor.

Birkir Ívar besti maður vallarins

Í heildina séð var þó landsliðsmarkvörðurinn Birkir Ívar Guðmundsson besti maður vallarins og varði meðal annars þrjú vítaskot og í einni sókninni í síðari hálfleik gerði hann sér lítið fyrir og varði þrjú skot FH-inga á nokkrum sekúndum. Kári Kristjánsson var öflugur á línunni en annars má segja að Haukaliðið, að undanskildum fyrstu tólf mínútunum, hafi leikið sem sterk liðsheild og var gaman að fylgjast með því. Liðið verður þó ekki dæmt af þessum leik því andstæðingurinn var of slakur.

Morgunblaðið hitti Guðmund Pedersen að máli rétt eftir leik og byrjaði á því að spyrja hann hvort það hafi ekki verið skrýtin tilfinning að leika á móti FH eftir að hafa alist upp hjá félaginu og leikið í þrettán ár með því í meistaraflokki? "Jú, það er alveg óhætt að segja það, þetta var nokkuð skrýtin tilfinning framan af leik. Síðan gleymdi maður því fljótlega að maður væri að spila á móti FH, enda vorum við ákveðnir í að klára dæmið og vera með í toppbaráttunni á fullu og það tókst vel hjá okkur. Ég er að vona að nú með þessum sigri séum við komnir á beinu brautina en við höfum verið nokkuð brokkgengir hingað til í vetur. Ef við einbeitum okkur eins og menn erum við mjög sterkir en um leið og við missum einbeitinguna erum við skítlélegir og það vitum við vel," sagði Guðmundur.