17. nóvember 2005 var sjónvarpað frá Alþingi umræðum um kjarabreytingu sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu 15. nóvember sl. um samkomulag um breytingar á kjarasamningum. Í því felst að launþegar ASÍ fá 26 þúsund króna eingreiðslu fyrir 15. desember nk. og 0,65% launahækkun umfram umsamdar hækkanir 1. janúar 2007. Þá munu lágmarkslaun fyrir dagvinnu hækka.
Samningsaðilar voru sammála um að aðild ríkisstjórnarinnar að málinu hefði skipt miklu og haft úrslitaþýðingu. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegur þyngst framlag upp á um 1.500-1.800 milljónir króna til að draga úr örorkubyrði lífeyrissjóða á samningssviði ASÍ og SA. Ríkisstjórnin mun einnig beita sér fyrir lögum um starfsmannaleigur og að umfangsmiklar breytingar verði gerðar á atvinnuleysisbótakerfinu.
Fjöldi alþingismanna tók til máls, m.a. Guðmundur Magnússon varaþingmaður Vinstri grænna í Reykjavík. Guðmundur er í hjólastól og sagði að hann ætti ekki greiða leið að ræðustól Alþingis. Guðmundur hélt ræðu úr hjólastól sínum og nýrri sjónvarpsvél var beint að honum. Hann sagði að 33 þúsund öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái ekki eingreiðslu. Og þeir sem eru á atvinnuleysisbótum fá ekki 26 þúsund króna eingreiðslu 15. desember.
Í sjónvarpsfréttum 19. nóvember sl. var sagt frá skerðingu lífeyrisgreiðslna úr Lífeyrissjóði Suðurlands. Þegar Geir H. Haarde var fjármálaráðherra setti hann lög um skerðingu á lífeyrissjóðum og lækkun á bótagreiðslum til þeirra sem fá greitt úr lífeyrissjóðum landsmanna. Það er gert til að halda góðæri á Íslandi.
Lækkun á eignum lífeyrissjóða landsmanna var gerð eftir að lög um tekju- og eignaskatt voru samþykkt á Alþingi árið 1980, lög nr. 7 frá 22. febrúar 1980 og breytingu á lögum um tekju- og eignaskatt, lög nr. 40 frá 18. maí 1978. Verðbreyting er nýr liður í reikningum sjóðsins og er reiknuð af stöðu eigna og skulda sjóðsins, 1. janúar 1980, sbr. l. nr. 7 frá 22. febrúar 1980. Verðstuðull til lækkunar á eignum sjóðsins var 54,9% árið 1980. Og með lögum nr. 27 frá 2. apríl 1991 um ársreikning og endurskoðun lífeyrissjóða var bankaeftirliti Seðlabanka Íslands falið eftirlit með því að lífeyrissjóðir færu eftir ákvæðum laga og reglna um endurskoðun og gilti frá og með reikningsárinu 1991. Þessi tvenn lög lækka eignir lífeyrissjóða landsmanna um 1.200.000.000 milljarða frá 1. janúar 1980 til 30. desember 2004.
Samþykkt voru lög á Alþingi um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, lög frá 1. júní 1986. Með þessum lögum hætta útvegsmenn að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð sjómanna. Nú koma iðgjaldagreiðslur útvegsmanna úr skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sem útvegsmenn greiddu áður í Lífeyrissjóð sjómanna. Sjómenn sem voru á fiskiskipum frá 1. júní 1986 til 31. desember 2004 taka þátt í að greiða hluta af iðgjaldagreiðslu sem útgerðarmenn greiddu áður í Lífeyrissjóð sjómanna. Hlutur sjómanna í iðgjaldagreiðslu útvegsmanna er 6.350.804.512 kr. frá 1. júní 1986 til 31. desember 2004. Sjómenn fá ekki reiknuð stig fyrir þessar iðgjaldagreiðslur í Lífeyrissjóð sjómanna.
Allt í þessari grein stendur þar til annað reynist réttara.
ÁRNI JÓN KONRÁÐSSON,
frá Móum.
Frá Árna Jóni Konráðssyni