Nú er hægt að senda vinum og ættingjum laufabrauðskort með heillaóskum um jólin. Hönnuður þessara korta er Hugrún Ívarsdóttir og er hægt að skoða þau á jólasýningu Handverks og hönnunar.
"Þetta eru þriðju jólin sem kortin eru í sölu. Ég byrjaði á því fyrir fjórum árum að vera með laufabrauðsdag. Þar sem ég bauð fólki að koma og skera út laufabrauð og fá og veita tilsögn við það," segir Hugrún. Tilgangurinn með þessum degi var að safna saman laufabrauðsmynstrum. "Afrakstur laufabrauðsdagsins hef ég alltaf látið mynda. Hugsunin er sú að gefa út bók um laufabrauðsmynstur og svo ætla ég að vinna úr þeim í sambandi við aðra hönnun. Ég er aðeins búin að fikta við þau í sambandi við textíl og skraut. Það sem gerir laufabrauðskökuna erfiða er að þetta er þrívíddarform sem nýtur sín ekki nema sem slíkt," segir Hugrún en hún fékk aðstoð Ólafar Birnu Garðarsdóttur, grafísks hönnuðar, við að setja upp kortin. "Ég stefni að því að gera fleiri kort með öðruvísi mynstrum. Fólk er mikið að kaupa kortin til að eiga myndirnar af laufabrauðunum og fá hugmyndir fyrir eigin laufabrauðsútskurð."
Sprottið úr fátækt
Laufabrauðskortin eru þríbrotin og í þeim má sjá myndir af mismunandi mynstrum, auk myndanna er fróðleikur um laufabrauð á nokkrum tungumálum og tólin sem eru notuð við gerð þeirra.Hugrún segist hafa fengið áhuga á laufabrauðsmynstrum þegar hún var gestkomandi á bæ þar sem mikið listaverk var borið á borð fyrir hana.
"Laufabrauð er sprottið úr fátækt. Kakan var svo þunn og efnislítil að skreytingunni var ætlað að bæta upp hversu lítilfjörleg hún var. Út frá laufabrauðinu fór ég að skoða mynsturgerð í mat og lét til dæmis endurgera gömul brauðmót með mynstrum. Þetta verkefni mitt kalla ég Mynstrað munngæti," segir Hugrún sem er útstillingahönnuður á Akureyri og dundar í frístundum við ýmist handverk.
Laufabrauðskortin eru til sölu á jólasýningu Handverks og hönnunar og svo er meðal annars hægt að fá þau í Þjóðminjasafninu, Árbæjarsafninu, Jólahúsinu í Eyjafjarðarsveit og Listafléttunni á Akureyri.