Karl Markús Bender fæddist í Reykjavík 21. desember 1949. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 30. nóvember síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 9. desember.
Með þessum fáu orðum langar mig að kveðja elsku Kalla sem lést langt um aldur fram eftir erfið veikindi. Margt fer um hugann við þessi sorglegu tímamót. Ég kynntist Kalla fyrir um 18 árum þegar hann og Habba fóru að rugla saman reytum sínum, ég og Agnes rétt á táningsaldri. Ég sá strax að þarna væri góður maður kominn í fjölskylduna.
Kalli tók mér eins og einu barna Höbbu, en hún hefur verið mér eins og önnur mamma, ávallt stutt mig og verið mér til staðar. Kalla var vinnusamur, hnyttinn í tilsvörum, bar sérstaka umhyggju fyrir fjölskyldu og vinum og meira ljúfmenni er vandfundið. Heimili Höbbu og Kalla hefur alltaf staðið mér opið hvort sem er fyrir stuttar eða langar heimsóknir sem gátu staðið í allt að ár. Lífið er ekki alltaf réttlátt en minning Kalla býr í hjarta mínu um góðan mann sem lagði sig allan fram fyrir aðra.
Elsku Kalli, ég kveð þig með miklum söknuði en veit að þú ert nálægur og fylgist með þínu fólki.
Elsku Habba, Agnes, Sigmundur, Sigurjón og Sara, þið hafið verið mín fjölskylda frá því ég og Agnes kynntumst í "stubba" og þið standið hjarta mínu nálægt. Ég bið Guð um að varðveita og styrkja ykkur á þessum erfiða tíma.
Blessuð sé minning Karls Markúsar Bender.
Ingibjörg.
Það er hálft ár frá því því þið mamma komuð hingað út í heimsókn. Þú lagðir það á þig þrátt fyrir veikindin. Við áttum góða viku saman og náðum að ræða málin en þá var orðið ljóst hvert stefndi. Þú tókst á við þín veikindi eins og þér var líkt, af fullkomnu æðruleysi og raunsæi en ávallt var þó stutt í íronískan húmorinn. Það hefur verið erfitt að fylgjast með þessari baráttu ykkar mömmu. Meinið gaf engin grið en þú hélst áfram á jákvæðninni, farinn að hlakka til að hittast um jólin. Þig kemur til með að vanta á Freyjugötuna og í sumarbústaðinn en þú skilur eftir margar góðar minningar og lifir í þeim með okkur áfram.
Ég kveð þig kæri vinur og þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér.
Sigmundur Andrésson.