Alfreð Gíslason, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Magdeburg, og Sigfús Sigurðsson eru úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa tapað í tvígang fyrir spænska liðinu Barcelona.
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Magdeburg, og Sigfús Sigurðsson eru úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa tapað í tvígang fyrir spænska liðinu Barcelona. — Morgunblaðið/Kristinn
CIUDAD Real varð í gærkvöld þriðja spænska félagið til þess að tryggja sér sæti í 8 liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í handknattleik þegar það vann Pick Szeged, 36:27, á heimavelli í síðari leik liðanna. Ciudad Real vann einnig fyrri leikinn.

CIUDAD Real varð í gærkvöld þriðja spænska félagið til þess að tryggja sér sæti í 8 liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í handknattleik þegar það vann Pick Szeged, 36:27, á heimavelli í síðari leik liðanna. Ciudad Real vann einnig fyrri leikinn. Ólafur Stefánsson kom ekkert við sögu í leiknum í gær ef marka má netútgáfu spænska íþróttablaðsins Marca .

Þýska handknattleiksliðið Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson og Róbert Gunnarsson leika með, innsiglaði sæti í 8 liða úrslitum EHF-keppninnar á laugardag með sjö marka sigri á svissneska liðinu Thun, 27:20, í síðari viðureign liðanna í Sviss. Gummersbach vann stórsigur í fyrri leiknum, 39:22, í Þýskalandi fyrir viku. Róbert Gunnarsson skoraði tvö mörk í leiknum og Guðjón Valur eitt.

Garcia og félagar í Göppingen áfram

Jaliesky Garcia og samherjar hans hjá þýska liðinu Göppingen eru einnig komnir í 8 liða úrslit EHF-keppninnar. Þeir lögðu Besiktas frá Istanbúl í Tyrklandi, 32:31, í síðari leiknum sem fram fór í Istanbúl. Göppingen vann einnig fyrri viðureignina, 40:29.

Garcia skoraði fjögur mörk að þessu sinni og Andrius Stelmokas, sem eitt sinn lék með KA, gerði eitt mark.

Lemgo áfram

Lemgo, liðið sem Ásgeir Örn Hallgrímsson og Logi Geirsson leika með, komst í gær í átta liða úrslit EHF-keppninnar þrátt fyrir tap, 32:24, fyrir IPC Cakovec frá Króatíu í síðari viðureign liðanna í Króatíu í dag. Lemgo vann fyrri leikinn á heimavelli, 41:25, og komst því áfram með átta marka mun.

Hvorki Ásgeir Örn né Logi skoruðu fyrir Lemgo í leiknum. Ekki lá fyrir í gær hvort Logi lék með en hann var ekki með Lemgo gegn Flensburg í þýsku 1. deildinni í vikunni sökum eymsla í baki.

Magdeburg úr leik

Magdeburg, liðið sem Alfreð Gíslason þjálfar og Arnór Atlason og Sigfús Sigurðsson leika með, er úr leik í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Magdeburg tapaði fyrir Barcelona í síðari viðureign liðanna í 16 liða úrslitum, 27:23, en leikið var á Spáni. Magdeburg tapaði einnig á heimavelli í fyrri leiknum fyrir rúmri viku, 24:26, og átti því á brattann að sækja í síðari viðureigninni.

Sigfús lék afar vel jafnt í vörn sem sókn en varð að bíta í það súra epli að vera rekinn af leikvelli í þriðja sinn þegar tæpar 10 mínútur voru til leiksloka. Kom hann ekkert meira við sögu eftir það. Arnór Atlason lék í vinstra horninu meirihluta síðari hálfleiks og skoraði tvö mörk og stóð sig með prýði. Sigfús skoraði þrjú mörk og vann nokkur vítaköst.