Björn Thoroddsen nam í þrjú ár við tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar en hélt síðan til náms við Guitar Institute of Technology í Hollywood, Kaliforníu og brautskráðist þaðan árið 1982. Hann hefur sótt ýmis námskeið í gítarleik, bæði á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum og var stofnandi gítarskólans Gítar-Inn 1983 ásamt Birgi Hrafnssyni. Tónlistarhópurinn Guitar Islancio, sem Björn tilheyrir, var valinn tónlistarhópur Reykjavíkur 2000-2001 og djassflytjandi ársins 2003.
Björn Thoroddsen er tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna í þremur flokkum í ár með hljómsveitinni Cold Front. Einnig hefur hann gefið út fjóra geisladiska á þessu ári, tvo erlendis og tvo heima á Íslandi. Diskarnir sem koma út hér eru annars vegar Jól með Tríói Björns Thoroddsen og Icelandic Folk með Guitar Islancio.
Í Tríói Björns Thoroddsen eru hann sjálfur á gítar, Jón Rafnsson á kontrabassa og Kristjana Stefánsdóttir söngkona. "Ég hef alltaf spilað um jólin með Jóni og Kristjönu. Svo kom upp sú hugmynd að hljóðrita lögin sem við höfum spilað og þetta er afraksturinn. Okkur þótti upptökurnar heppnast það vel að við ákváðum að gefa þær út. Þarna eru á ferðinni sígild amerísk jólalög í léttri djasssveiflu," segir hann.
Útgefandinn er JR music ehf. en þar er um að ræða frumraun fyrrnefnds Jóns Rafnssonar á útgáfusviðinu. Á Icelandic Folk með Guitar Islancio eru íslensk þjóðlög og var diskurinn gefinn út í Kanada árið 2002. Í Guitar Islancio spila Björn, Jón og Gunnar Þórðarson. "Við höfum spilað heilmikið í Kanada og vorum með kanadískan trompetleikara með okkur, Richard Gillis, og hann spilar með okkur á þessum diski," segir Björn.
Óttar Felix Hauksson gefur tónlist Guitar Islancio út og hefur tríóið farið í tónleikaferðalög til Kína og Japans í fyrra og á þessu ári. "Við höfum gefið út eina plötu í Asíu og stefnum á eina tónleikaferð þangað að minnsta kosti, ef ekki fleiri. Tengslin eru þannig til komin að Óttar Felix hefur komið Robertino á framfæri á þessum slóðum og fékk Guitar Islancio að fylgja með í tónleikaferð. Það voru fyrstu tengslin við austrið, sem svo hafa undið upp á sig. Nú stefnum við að því að leggja töluverða áherslu á þetta svæði og hugsanlega fleiri lönd."
Björn hefur jafnframt spilað mikið í Kanada, einn og sér, eins og hann tekur til orða. "Ég hef líka verið hluti af hljómsveitinni Cold Front, sem fékk allar þessar góðu tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Á síðasta ári var ég nánast með annan fótinn í Bandaríkjunum og Kanada og svo fór Guitar Islancio nokkrar ferðir til Bandaríkjanna. Ég hef gefið út eina plötu í Kanada á þessu ári og aðra í Danmörku, svo það hefur verið heilmikið að fást við. Það stefnir í að næsta ár verði ekki síðra," segir hann.
Björn segir breytilegt hvað hann hlustar á þegar vinnutengdri tónlist sleppir. "Ég er nokkuð opinn fyrir tónlist, en alltaf spenntastur fyrir djasskenndri gítartónlist. Minn uppáhalds gítarleikari er og hefur verið Django Reinhard. Það hefur ekkert breyst, þótt maður reyni að þroskast."