— Morgunblaðið/Árni Sæberg
NÝR þjónustusamningur milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra hefur verið samþykktur. Gildir hann í þrjú ár og er samningsupphæðin alls 6,9 milljónir króna.

NÝR þjónustusamningur milli velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra hefur verið samþykktur. Gildir hann í þrjú ár og er samningsupphæðin alls 6,9 milljónir króna.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur starfrækt sumardvalarheimili fyrir fötluð börn og unglinga í Reykjadal í Mosfellsbæ frá 1963. Markmið með rekstri sumardvalarinnar er að gefa börnum og unglingum kost á almennri sumardvöl í líkingu við þá sem KFUM og KFUK rekur en tekið er tillit til fötlunar hvers og eins í starfinu. Flestir eru á aldrinum 6 ára til 20 ára. Einnig koma nokkrir á aldrinum 20-25 ára. Reykjadalur er opinn öllum þeim börnum sem ekki geta notið þess að sækja aðrar sumarbúðir. Árlega dveljast u.þ.b. 160 börn í sumardvöl í 1-2 vikur í senn, þar af 65 úr Reykjavík. Fjöldi í hverjum hópi er á bilinu 14-30 einstaklingar eftir umönnunarþyngd.

Frá 1990 hefur Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra einnig boðið upp á helgardvalir yfir vetrartímann. Markmið með helgardvöl er að gefa fötluðum kost á helgarfríi tvisvar á ári þar sem stuðlað er að félagsþroska og vináttu gesta. Einnig er þetta mikilvægt stuðningsúrræði við foreldra og forráðamenn.

Helgardvölin er fyrir sömu aðila og sumardvölin en einstaklingum á aldrinum 25-35 ára er einnig boðin helgardvöl. Hluta af helgardvöl eldri hópsins er varið til námskeiðahalds. Árlega dveljast u.þ.b. 130 einstaklingar í helgardvöl, þar af 75 úr Reykjavík.