Brugðið var á leik við vígslu Bröttuhlíðar og fengu ungir bæjarbúar að reyna nýja íþróttasalinn.
Brugðið var á leik við vígslu Bröttuhlíðar og fengu ungir bæjarbúar að reyna nýja íþróttasalinn. — Ljósmynd/Halldór Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÝ og glæsileg íþróttamiðstöð var vígð við hátíðlega athöfn á Patreksfirði á laugardag. Hefur hún hlotið nafnið Brattahlíð, eftir byggingu sem stóð á sömu lóð, og þykir mikil lyftistöng fyrir íþróttalífið í bænum.

NÝ og glæsileg íþróttamiðstöð var vígð við hátíðlega athöfn á Patreksfirði á laugardag. Hefur hún hlotið nafnið Brattahlíð, eftir byggingu sem stóð á sömu lóð, og þykir mikil lyftistöng fyrir íþróttalífið í bænum. Fjölmenni var við athöfnina og þar á meðal voru samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, þingmenn Norðvesturkjördæmis, heimamenn og aðrir góðir gestir.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að smíði hússins lyki um síðustu áramót en vegna ósamræmis í hönnunargögnum á milli teikninga, verklýsinga og magnskrár urðu töluverðar tafir og kostnaðarauki við byggingu hússins. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er um 280 milljónir króna en þar af er kostnaður Vesturbyggðar um 250 milljónir.

Stór íþróttasalur með sérstöku NBA-parketgólfi er í Bröttuhlíð en auk þess fullbúinn tækjasalur, sundlaug, vaðlaug og tveir heitir pottar. Hönnuðir nýju íþróttamiðstöðvarinnar eru þeir Kristinn Ragnarsson arkitekt og Emil Þór Guðmundsson byggingartæknifræðingur og fyrirtækið Lás ehf. sá um meginhluta framkvæmdanna.