TÓMAS J. Knútsson, sportkafari með meiru, telur sig hafa fundið flakið af Goðafossi sem sökkt var undan Garðskaga í nóvember 1944.

TÓMAS J. Knútsson, sportkafari með meiru, telur sig hafa fundið flakið af Goðafossi sem sökkt var undan Garðskaga í nóvember 1944. Hann kveðst hafa kafað að flakinu árið 1984 og aftur árið 2003 en ákveðið að greina ekki frá fundinum fyrr, til að forða því að aðrir reyndu að kafa að flakinu sem lægi djúpt og væri á varasömum stað fyrir kafara. Hann kveðst segja frá þessu nú til að flýta fyrir því að hægt verði að gera út fjarstýrðan kafbát til að taka mynd af flakinu fyrir sjónvarpsþátt.

Þýskur kafbátur sökkti Goðafossi um hádegisbil þann 10. nóvember 1944, þegar skipið átti aðeins eftir um tveggja klukkustunda siglingu til Reykjavíkur. Um borð voru 43 skipverjar og farþegar auk 20 Breta sem var nýbúið að bjarga af brennandi olíuskipi. Rúmlega 40 manns fórust í þessum hildarleik.

Vill ekki greina frá staðsetningu

Í samtali við Morgunblaðið sagði Tómas að hann vildi ekki greina frá því hvar flakið væri og nefndi að hann vildi ekki að menn færu sér að voða við að kafa niður að því. "Þetta er á mjög erfiðum stað til að kafa á, ég hafði það fyrst og fremst að leiðarljósi að vera ekki að básúna um þetta svo að menn færu ekki í stríðum straumum að álpast út í ballarhaf," sagði Tómas.

Einnig yrði að hafa í huga að um væri að ræða vota gröf sem sýna þyrfti tilhlýðilega virðingu. Af hans hálfu stæði ekki til að fjarlægja nokkurn skapaðan hlut úr flakinu heldur eingöngu að taka myndir úr fjarstýrðum kafbáti.

Aðspurður sagði Tómas að flakið væri mjög illa farið. Hann vildi þó ekki lýsa því nánar og sagði að það myndi koma fram í heimildarmynd sem hann ynni að í samvinnu við Jón Ársæl Þórðarson, sjónvarpsmann á Stöð 2. Hann sagði þó að flakið væri á um 40-50 metra dýpi og á slæmum stað til köfunar vegna strauma. Tómas sagðist ekki hafa tekið mynd af flakinu þegar hann kafaði að því eða tekið muni úr því til að staðfesta að þetta væri Goðafoss, þar sem hann hefði haft afar lítið svigrúm til þess vegna erfiðra aðstæðna á hafsbotni. Hann hefði hins vegar komið auga á ákveðið kennileiti, sem hann þekkti af teikningum, á skipinu.

Sóru þagnareið

Tómas sagði að eftir að hann hefði kafað að skipinu árið 1984 og síðan árið 2003 hefði málið aftur lagst í dvala en nú hefði komist skriður á það á nýjan leik. Hann væri kominn í samband við fjársterkan aðila um að senda fjarstýrðan kafbát niður að flakinu og með því að greina opinberlega frá fundinum nú vonaðist hann til að enn meiri skriður kæmist á málið.

Aðspurður sagði Tómas að lítill hópur áhugamanna í kringum hann vissi um staðsetningu flaksins en þeir hefðu svarið þess eið að segja ekki öðrum frá.