Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir skrifar um matvælaverð: "Villandi er líka að tala um hátt verðlag án þess að tengja það öðrum hagstærðum s.s. launum og kaupmætti."
SAMKEPPNISEFTIRLITIÐ kynnti á miðvikudaginn skýrslu samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum um matvælaverð og samkeppni á matvörumarkaði. Þennan sama dag skrifa Halldór Benjamín Þorgrímsson hagfræðingur og Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðiprófessor grein í Morgunblaðið sem ber yfirskriftina "Yfirgefum G10". Spyrja má hvort þessi tímasetning sé tilviljun. Í málflutningi beggja þessara aðila er eitt og annað að finna sem kallar á að fleiri sjónarmiðum og staðreyndum séu gerð skil.

Byrja má á einni lítilli leiðréttingu á grein Tryggva og Halldórs en G 10 ríkin eru ekki lengur tíu talsins. Búlgaría er stokkin fyrir borð og skipar sér nú í flokk með ESB sem væntanlegur kandídat á aðild að bandalaginu. En niðurstaða þeirra - og fleiri - er sú að Íslendingum væri betur borgið með því að gefa innflutning á búvörum frjálsan. Þarna er þó t.d. hvergi minnst á það að hlutfall útgjalda til matvælakaupa samkvæmt vísitölu neysluverðs er lægra á Íslandi en í flestum löndum Mið- og Suður-Evrópu.

ESB leggur tolla á innfluttar búvörur

Áðurnefnd G10 ríki flytja inn um 13% af heildarinnflutningi landbúnaðarvara í heiminum. Þetta er langt umfram það sem ætla mætti í hlutfalli af íbúafjölda þeirra. Flestar matvörur eru auk þess fluttar til Íslands án tolla og/eða magntakmarkana. Nánar tiltekið eru 373 vöruflokkar af þeim 1604 í tollskrá sem teljast landbúnaðarvörur án heimilda til að leggja á tolla (eða 23% af öllum landbúnaðarvörum). Fyrir aðra 232 vöruflokka í viðbót eru heimildirnar 1-19% (14,5% af öllum landbúnaðarvörum). Í þessum flokkum er m.a. að finna þær vörur sem skipta fátækari þjóðir helst máli í heimsviðskiptum s.s. sykur, kornvörur og hveiti, og eru verulegur hluti af útgjöldum íslenskra neytenda þegar að matvöruinnkaupum kemur.

Það er heldur ekki svo að ESB leggi ekki á tolla eða beiti ekki magntakmörkunum á innflutning til að vernda landbúnað í aðildarlöndunum. Nærtækt dæmi um það eru tollkvótar fyrir íslenskt lambakjöt. Ef við flytjum til ESB meira magn en þau 1.350 tonn sem þar hefur verið samið um, ber það fulla tolla.

Tollar hjá ESB hafa áhrif á verðlag

Rifja má upp áhrif ESB-aðildar Eistlands á sykurverð. Sykurpólitík ESB er umdeild og eitthvert heitasta málið í landbúnaðinum ytra. Þegar Eistland varð aðili að ESB tvöfaldaðist verð á sykri. Það er því villandi að láta liggja að því, eins og Samkeppniseftirilitið gerir (og sjá má m.a. í viðtali við forstjóra þess í Blaðinu 15. desember) að Ísland og Noregur leggi innflutningshömlur á búvörur sem hin Norðurlöndin búi ekki við. Vissulega er vöruflæði þar á meðal á búvörum frjálst innan ESB en sambandið leggur líka á ytri tolla á fjölmarga vöruflokka og notar tollkvóta til að takmarka markaðsaðgang. Þetta á líka við um Bandaríkin en útflutningur á íslensku skyri til Bandaríkjanna byggist t.d. á markaðsaðgangi í gegnum tollkvóta.

Kaupmáttur launa er mismunandi eftir löndum

Villandi er líka að tala um hátt verðlag án þess að tengja það öðrum hagstærðum s.s. launum og kaupmætti. Það virðist t.d. stundum gleymast í umræðum um matvælaverð hér á landi og samanburð við ESB, að þjóðartekjur á mann eru hér mun hærri en að meðaltali innan ESB. Flest þekkjum við mun á verðlagi hér á landi og t.d. á Spáni og í Portúgal. Þar syðra er verð á flestum neysluvörum mun lægra en hér á landi enda laun mun lægri. Hlutfall útgjalda í vísitölu neysluverðs til matvælakaupa í þessum löndum er hins vegar mun hærra en hér á landi. Hver vill skipta á afkomu hér á landi og því sem gerist í Suður-Evrópu?

Verðlag er afstætt

Ævinlega er það svo svo að margar hliðar eru á hverju máli. Get ég ekki látið hjá líða að nefna að sjálft Morgunblaðið kostar í lausasölu kr. 220 og er tíu sinnum dýrara en Washington Post svo dæmi séu tekin. Síðast þegar fréttist kostaði WP 35 cent eða tæpar 22 krónur.

Umræða um innflutningshöft á búvörum og matvælaverð vekur margar fleiri vangaveltur sem e.t.v má fjalla meira um síðar. Stefna íslenskra stjórnvalda í WTO viðræðunum sýnir þó svo ekki verður um villst að þau meta einnig ýmis gildi tengd landbúnaði sem ekki verða sett á mælistiku viðskipta.

Höfundur er forstöðumaður félagssviðs Bændasamtaka Íslands.