Benedikt Davíðsson forseti Alþýðusambands Íslands Náðum fram ákveðinni kollsteypuvörn Engin trygging fyrir fjármögnun umfram fjármagnstekjuskattinn BENEDIKT Davíðsson, forseti ASí, segir að efnislega hafi lítil breyting orðið á innihaldi þess...

Benedikt Davíðsson forseti Alþýðusambands Íslands Náðum fram ákveðinni kollsteypuvörn Engin trygging fyrir fjármögnun umfram fjármagnstekjuskattinn

BENEDIKT Davíðsson, forseti ASí, segir að efnislega hafi lítil breyting orðið á innihaldi þess kjarasamnings sem náðist í fyrrinótt og á yfirlýsingu ríkisstjórnar sem gefin var í tengslum við gerð samningsins frá þeim hugmyndum sem lágu fyrir um miðjan apríl þegar slitnaði upp úr viðræðum. "Það sem breyttist var fyrst og fremst það að við náðum fram ákveðinni kollsteypuvörn, sem er í þessum samningi. Ef forsendur samningsins breytast að verulegu leyti þá getum við sagt honum upp hvenær sem er á samningstímabilinu með þriggja mánaða fyrirvara," sagði hann. "Þetta er meginbreytingin sem varð til þess að nú náðist samstaða í okkar röðum um að gera þennan samning," sagði Benedikt.

"Niðurstaðan er nokkuð í samræmi við það sem við fórum af stað með eftir fundi með stjórnum allra félaga innan Alþýðusambandsins í haust," sagði Benedikt. "Það var ekki í kröfugerð okkar frá upphafi að sækjast eftir auknum kaupmætti launa heldur að reyna að ná verðlagi niður. Þessi samningur stefnir að því að renna stoðum undir atvinnulífið og ná stöðugleika í verðlagi. Þannig hefur meginmarkmiðunum verið náð auk þess sem það er mjög mikilvægt að það tókst breiðasta samstaða sem unnt var að ná í okkar röðum," sagði hann.

Allar fjárlagatillögur í október

ASÍ lagði mikla áherslu á það í viðræðunum að fá fyrirheit um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að fjármagna lækkun virðisaukaskatts af matvælum en Benedikt segir að þeir hafi ekki fengið neina tryggingu fyrir því hvernig þessi lækkun yrði fjármögnuð umfram fjármagnstekjuskattinn sem lagður verður á um næstu áramót. "Hins vegar er núna yfirlýsing frá ríkisstjórninni um það að allar tillögur ríkisstjórnarinnar um fjárlagagerð og um fjármögnun kostnaðar á árinu 1994 verði komnar fram áður en kemur að þeim tímamörkum þegar við þurfum að taka ákvörðun um hvort við eigum að segja samningnum upp í október. Ef tillögurnar verða ekki í samræmi við þær hugmyndir sem við höfum verið að ræða um og við teljum nauðynlegar forsendur fyrir því að matarskattsbreytingin skili árangri, það er að segja, að ekki sé verið að færa fjármagn á milli vasa hjá sama fólkinu, þá getum við gripið inn í og sagt samningnum upp fyrir 10. nóvember," sagði Benedikt.

Gengið gæti sigið

Benedikt sagði einnig að samkomulag aðila um að beita áhrifum sínum til þess að lífeyrissjóðirnir beini auknum hluta af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á ríkisverðbréfum til að stuðla að vaxtalækkun yrði hrundið í framkvæmd strax á næstu vikum.

Bendikt sagði einnig að samningsforsendur um að aflakvótar á næsta fiskveiðiári verði ekki minni en á yfirstandandi fiskveiðiári væru óvissu háðar. "En flestar spár eru með þeim hætti, að það séu líkur á að við verðum að draga eitthvað úr þorskafla, en hins vegar er því líka spáð að við getum verulega aukið loðnuafla, þannig að heildaraflaverðmætið verði ekki langt frá því sem það var á síðasta ári," sagði hann.

Samningsforsendurnar gera ekki ráð fyrir stöðugu gengi og sagði Benedikt að fastgengi í dag miðaðist við 2,25% fráviksmörk og það væru ekki brigð á samkomulaginu af hálfu stjórnvalda þótt þau mörk verði að fullu nýtt. "Ef forsendur um afla og afurðaverð verða ekki í samræmi við það sem við gerum ráð fyrir í samningnum, þá gæti gengið hugsanlega sigið eitthvað til þess að mæta þeim halla sem þar yrði en ef genginu yrði breytt umfram það, þá væru forsendurnar brostnar," sagði hann.

Kjarasamningurinn verður borinn upp í aðildarfélögum ASÍ um helgina og í fyrri hluta næstu viku og er gert ráð fyrir að staðfesting liggi fyrir um miðja næstu viku.

Kjarasamningar undirritaðir

NÝIR kjarasamningar voru undirritaðir í húsnæði ríkissáttasemjara á sjötta tímanum aðfaranótt föstudags. F.v. Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, 1. varaforseti ASÍ, Geir Gunnarsson, vararíkissáttasemjari, Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari, Kristinn Björnsson, varaformaður VSí, og Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ.