[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég á síma sem er þeim kostum búinn að hægt er að taka á honum ljósmyndir og hreyfimyndir, taka upp hljóð og spila mp3-skrár, senda margmiðlunarskeyti, lesa gögn þráðlaust í og úr tölvu, samstilla dagbók og heimilisfangaskrá, skrifa niður minnipunkta,...

Ég á síma sem er þeim kostum búinn að hægt er að taka á honum ljósmyndir og hreyfimyndir, taka upp hljóð og spila mp3-skrár, senda margmiðlunarskeyti, lesa gögn þráðlaust í og úr tölvu, samstilla dagbók og heimilisfangaskrá, skrifa niður minnipunkta, spila leiki, lesa WAP-síður, senda SMS-skeyti og lesa vefsíður, svo fátt eitt sé talið, en hann er reyndar orðinn gamall og því ekki mjög fullkominn. Já, og meðan ég man; það er líka hægt að hringja úr honum.

Innflytjendur á hátæknibúnaði hafa iðulega brennt sig á því að vanmeta tækjaáhuga viðskiptavina sinna og dæmi eru um að fartölvuinnflytjendur hafi farið flatt á því að flytja inn ódýrari gerð af tölvu og einfaldari frekar en þá sem er með allan þann búnað sem hægt er að troða í slíkt apparat - reglan hefur nefnilega verið sú að dýrustu vélarnar seljast jafnan best, en í þeim er einmitt besti og öflugasti búnaðurinn. Eins hefur því verið farið með farsíma - eftir því sem þeir eru betur búnir, meira í þeim af alls kyns aukahlutum og mis-sniðugum viðbótum seljast þeir betur. Svo hefur það í það minnsta verið hingað til, en það eru teikn á lofti um það að margir séu eiginlega búnir að fá nóg af flóknum farsímum - þeim fjölgar sem vilja eiginlega bara fá sér farsíma til að hringja.

Þarfaþing eða tískuvarningur? | Þegar fyrstu farsímarnir komu á markað fyrir rúmum tveimur áratugum var aðalkosturinn við þá að hægt var að nota þá til að hringja nánast hvar sem maður var staddur. Það er vitanlega enn helsti kosturinn við farsíma en með tímanum hafa farsímar breyst úr því að vera þarfaþing í að vera tískuvarningur og veigamikið stöðutákn fyrir yngra fólk (og eldra) sem skýrir að einhverju leyti hve framleiðendur þeirra hafa lagt mikla áherslu á nýjustu tækni og vísindi. Aðrir markhópar hafa aftur á móti eiginlega setið á hakanum, til að mynda eldra fólk, en þeir eru líka fjölmargir meðal yngra fólks sem engan áhuga hafa á flóknum hátæknisímum - þeir vilja bara síma til að hringja og senda SMS-skeyti.

Hagur farsímaframleiðenda af því að selja sem tæknivæddasta síma er margvíslegur, ekki síst sá að dragast ekki afturúr - að vera með flottasta símann, en þeir taka líka mið af þörfum þeirra sem selja símaþjónustuna sjálfa og græða hlutfallslega mun meira á gagnaflutningum og ýmsum viðbótum en símaþjónustunni sjálfri. Í seinni tíð hafa framleiðendur og símafyrirtæki þó lagt við hlustir er fólk hefur kvartað yfir flóknum símum. Nokkrir hafa þannig sett á markað einfaldari farsíma, enda eru eiginlega flestir sem langar í farsíma þegar búnir að fá sér slíkt apparat og þó það bætist við nýir viðskiptavinir eftir því sem börn komast á farsímaaldur, þá er býsna stór hluti Evrópubúa símalaus, aðallega eldra fólk.

Sími fyrir símtöl | Símafyrirtækið Vodafone, Og Vodafone hér á landi, kynnti fyrir stuttu svonefnda Simply-síma sem franska fyrirtækið Sagem framleiðir fyrir Vodafone, en þeir eru sniðnir fyrir þá sem kjósa einfaldari síma, síma sem eru eiginlega bara til að tala í og senda SMS-skeyti.

Stjórnendur Vodafone lögðust í miklar rannsóknir til að átta sig á hvernig best væri að ná til þessa hóps viðskiptavina og þannig leitaði fyrirtækið til fimm þúsund Evrópubúa á aldrinum frá 35 til 55 ára. Stærstur hluti þeirra óskaði sér einfaldari síma og sem dæmi má nefna að þriðjungur hafði ekki hugmynd um hvernig lesa ætti SMS-skeyti, hvað þá hvernig ætti að senda slíkt.

Annað sem ýmsir hafa átt erfitt með að sætta sig við er hve farsímar hafa minnkað og þá um leið lyklaborð þeirra og skjáir. Simply-símarnir eru aftur á móti stærri en gengur og gerist og lyklaborðið því stærra líka. Símanum er líka stjórnað að mestu með hnöppum á tólinu sjálfu, til dæmis þarf ekki að fara í sérstaka valmynd til að lækka í símanum eða læra takkarunu - á símanum er einfaldlega hnappur til að hækka og lækka í hringingunni. Á símanum er líka hnappur til að læsa lyklaborðinu, þegar rafhlaða hans er við það að tæmast blikka á skjánum boð um að hlaða þurfi símann, ljós blikkar á símanum þegar SMS-skeyti hefur borist og honum fylgir kví til að geyma hann í og hlaða líkt og með þráðlausan heimilissíma.

Þótt síminn sé einfaldur og aðallega fyrir símtöl er líka hægt að láta hann hringja á ákveðnum tíma, til áminningar eða sem vekjara og hægt er að vista í honum símanúmer. Annað er eiginlega ekki í boði stórvægilegt en sumt smálegt eins og ýtarlegur hjálpartexti og hægt er að láta eigin númer alltaf sjást á skjánum.

Fleiri einfaldir | Simply-símarnir eru ekki einu einföldu símarnir sem fáanlegir eru í dag, því helstu farsímaframleiðendur, Nokia og Sony Ericsson, hafa einnig sett á markað einfaldari farsíma, þó fyrirtækin hafi ekki gengið eins langt í þátt átt og Vodafone / Sagem. Sony Ericsson kynnti í haust nokkrar gerðir af farsímum sem eru ekki með myndavél, MP3-spilara eða tölvupósti. Skjárinn er álíka og á venjulegum farsímum og í honum sitthvað fleira en það sem þarf fyrir símtöl, til að mynda eru í þeim leikir og dagskinna og í einum símanna er innbyggt útvarp.

Nokia 1101 er mjög einfaldur sími frá Nokia, ekki með MP3-spilara, myndavél eða útvarpi. Í honum er þó reiknivél, vekjaraklukka, tveir leikir, skeiðklukka og innbyggt vasaljós og hann styður WAP-gagnaflutninga. | arnim@mbl.is