Geir Hallgrímsson
Geir Hallgrímsson
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifar grein í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála um bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skrifar grein í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála um bók Guðna Th. Jóhannessonar, Völundarhús valdsins. Þorsteinn gagnrýnir það sjónarhorn höfundar, að "sigurvegarinn í refskákinni" árin 1978-1980 hafi verið Gunnar Thoroddsen, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem varð forsætisráðherra og þar með "sigurvegari sögunnar", en Geir Hallgrímsson, formaður flokksins, orðið undir.

Stjórnmál snúast vissulega um völd en þau ganga líka út á að móta þjóðfélagsþróunina. Það sem vantar í þetta hefðbundna sagnfræðilega mat eru spurningar eins og þessar: Hver hafði í þessum átökum mest langtímaáhrif á gang mála? Hver vann þjóðinni mest gagn þegar öllu er á botninn hvolft?" skrifar Þorsteinn.

Hann heldur áfram: "Hinn varfærni stjórnmálamaður Geir Hallgrímsson tók hvað sem öðru líður djörfustu ákvörðun þessa tíma þegar hann gerði að kosningamáli Sjálfstæðisflokksins að taka efnahagsmálin alveg nýjum tökum og losa þau úr ríkisfjötrum með það að markmiði að kveða niður verðbólgu og koma á stöðugleika í einu vetfangi. Engum gat verið betur ljóst en hinum varfærna stjórnmálamanni, að slíkur boðskapur kostaði tímabundnar þrengingar og raskaði ýmsum hagsmunum."

Áfram skrifar Þorsteinn: "Sigurvegararnir í refskákinni nýttu völdin til að hella meiri olíu á verðbólgubálið en dæmi eru um í allri stjórnmálasögu landsins eða, til þess að gæta allrar sanngirni, gerðu það kannski meira óafvitandi en viljandi. En söm er gjörðin. Áhrifin voru sannarlega alvarleg en ekki ýkja langvarandi. Með því djarfa frumkvæði, sem Geir Hallgrímsson hafði forystu um, voru hins vegar lagðar þær línur sem meirihluti Alþingis sameinaðist um eftir nýjar kosningar aðeins þremur árum síðar. Þessar hugmyndir hafa nú verið almennt viðurkenndar í hálfan annan áratug."

Þegar spurt er hver hafi verið sigurvegari sögunnar liggur auðvitað í augum uppi að flest af því, sem lagt var upp með undir forystu Geirs Hallgrímssonar fyrir kosningarnar 1979, er ekki einu sinni umdeilt í pólitík lengur.