Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "Sennilega verður aldrei skorið úr þessu máli að fullu, þótt vonandi verði það rækilega kannað í væntanlega ævisögu Gunnars."

Þau skjöl, sem birst hafa um úthlutun Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum árið 1955, eftir að sænska Akademían létti fimmtíu ára leynd af þeim, staðfesta frásögn mína í bókinni Laxness. Þar rakti ég söguna aðallega eftir bréfum þeirra Dags Hammarskjölds, Andersar Österlings og Stens Selanders, sem geymd eru í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi, en einnig eftir blöðum og öðrum gögnum. Sagan er í örfáum orðum þessi: Margir í sænsku Akademíunni vildu árið 1955 heiðra Ísland og íslenskar bókmenntir. Þeim varð starsýnt á tvo íslenska rithöfunda í því sambandi, Halldór Kiljan Laxness og Gunnar Gunnarsson. Sérstaklega átti Laxness öflugan hóp stuðningsmanna í Svíþjóð, auk þess sem prófessorarnir í íslensku í Reykjavík og Kaupmannahöfn mæltu sterklega með honum. Gunnar hlaut hins vegar stuðning sænska rithöfundasambandsins.

Í bók minni bendi ég á bls. 143 á það, sem nú er af einhverjum ástæðum talin sérstök frétt, að þriggja manna undirnefnd Akademíunnar, sem átti að gera tillögu til Akademíunnar um verðlaunahafa, hafði lagt það til í septemberlok 1955, að verðlaununum yrði skipt milli Laxness og Gunnars Gunnarssonar. Ég lýsi því síðan, að eftir nokkrar umræður hlaut þessi tillaga ekki hljómgrunn. "Það er alls óvíst, að tillaga nefndarinnar verði samþykkt," skrifaði ritari nefndarinnar, Anders Österling, til dæmis í októberbyrjun. "Það er sagt, að Íslendingar muni hneykslast, ef verðlaununum er skipt, en ég mun reyna að kanna, hvort það sé rétt." Ekki segir nánar af því, hvernig Österling kannaði hugi Íslendinga, en næstu vikur kom berlega í ljós í umræðum innan Akademíunnar, að hún vildi ekki skipta verðlaununum milli þeirra Laxness og Gunnars, og voru jafnvel margir í henni mjög tregir til að veita Laxness einum verðlaunin.

Fullyrðingar eins afkomenda Gunnars Gunnarssonar, Gunnars Björns Gunnarssonar, vöktu nokkra athygli fyrir jólin, en hann hélt því fram, að Gunnar hefði átt að fá verðlaunin, en menn frá Íslandi komið í veg fyrir það. Ég hef lýst efasemdum mínum um þetta opinberlega, enda kom það ekki heim og saman við vinnubrögð Akademíunnar og bréfin, sem ég hef kannað í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi. Nú hafa hin nýopnuðu gögn frá Stokkhólmi sýnt, að efasemdir mínar voru á rökum reistar. Sannleikurinn er sá, að tillagan um að skipta verðlaununum milli Íslendinganna tveggja hlaut dræmar undirtektir óháð öllum skilaboðum til Akademíunnar eða frá henni. Auk þess hefði verið afar ólíklegt og raunar að mínum dómi óhugsandi, að einhver úr sænsku Akademíunni hefði haft beint samband við Gunnar Gunnarsson og óskað honum til hamingju með verðlaunaveitinguna, eins og ég hef bent á í umræðum um þetta mál.

Ég birti hins vegar í bók minni, Laxness, frásögn frá Franziscu Gunnarsdóttur af skeyti, sem þeir Ragnar í Smára, Sigurður Nordal, Jón Helgason og Peter Hallberg sendu að sögn afa hennar, Gunnars Gunnarssonar, til sænsku Akademíunnar, þar sem þeir vöruðu við því, að Gunnar fengi verðlaunin. Ragnar hafði fengið að vita það frá Gunnari, að hann stæði nærri verðlaununum. Hafði frændi og vinur Gunnars, Andrés Þormar, starfsmaður Landssímans, komið með skeytið heim til Gunnars og sýnt honum. Ég tel enga ástæðu til að rengja þessa frásögn Franziscu í aðalatriðum, enda væri með ólíkindum, að hún eða Gunnar, afi hennar, hefðu spunnið hana upp. Það kemur hins vegar ekki á óvart, að þetta skeyti finnist ekki í gögnum Akademíunnar. Því kann að hafa verið eytt eða það hefur verið sérstakt trúnaðarmál og ekki sett í skjalasafn Akademíunnar, og það kann að hafa verið sent einhverjum einum manni innan Akademíunnar, en ekki henni sjálfri, eða jafnvel manni utan hennar sem skilaboð til Akademíunnar.

Þar sem ég var að skrifa ævisögu Laxness, en ekki Gunnars Gunnarssonar, fór ég ekki rækilegar út í þetta mál. En mér sýnist á framlögðum gögnum, nýjum og gömlum, að hin líklega atburðarás hafi verið þessi, og tek fram, að þetta er aðeins tilgáta mín:

Stellan Arvidsson, sem var forystumaður sænskra rithöfunda og helsti stuðningsmaður Gunnars í Svíþjóð, en sat ekki í Akademíunni, hefur líklega orðið þess áskynja í septemberlok, að undirnefnd sænsku Akademíunnar hefði gert tillögu sína um að skipta verðlaununum milli Gunnars og Laxness. Ef til vill hefur hann ekki einu sinni frétt af hugsanlegri skiptingu verðlaunanna, heldur aðeins nafni Gunnars. Hann hefur hringt í Gunnar heim til Íslands til að segja honum frá þessu og óska honum til hamingju. Hann hefur annaðhvort ekki haft allar upplýsingar á reiðum höndum eða Gunnar misskilið hann. Gunnar hefur eftir símtalið haldið, að hann ætti einn að fá verðlaunin, en hvorki vitað, að þetta væri aðeins tillaga þriggja manna undirnefndarinnar, en ekki lokaákvörðun Akademíunnar, né að hugmyndin væri að skipta verðlaununum milli þeirra Laxness. Þegar hann segir Ragnari í Smára frá þessu, heldur Ragnar, að Gunnar eigi einn að fá verðlaunin og vill það ekki. Þeir Ragnar, Nordal, Jón Helgason og Hallberg senda símskeyti út, sem Andrés Þormar sýnir síðan Gunnari. Í símskeytinu vara þeir við að veita Gunnari verðlaunin. Þetta gera þeir eflaust vegna einlægrar sannfæringar sinnar um, að Laxness standi þeim nær sem merkasti fulltrúi íslenskra bókmennta. Ekki yrði fram hjá honum gengið. Seinna fær Gunnar að vita, að horfið hafi verið frá því að veita honum verðlaunin. Í minni hans og fjölskyldu hans verður tillaga undirnefndar sænsku Akademíunnar að úthlutun Akademíunnar, sem fjandmenn Gunnars hafi síðan komið í veg fyrir með áróðri gegn honum. Sú mynd af atburðarásinni stenst greinilega ekki. Ég er ekki einu sinni viss um, að símskeytið, sem sent var til Svíþjóðar, hafi breytt miklu. Í Akademíunni sitja átján menn, allir sjálfstæðir og sérvitrir, eins og glögglega má sjá af bréfum frá þeim. Þeir létu engan segja sér fyrir verkum. Þegar í febrúar 1955, þegar fyrst var talað um að skipta verðlaununum milli Gunnars og Laxness, tóku sumir þeirra því fálega. Ég fæ hvergi séð af skriflegum gögnum, að áróður gegn Gunnari hafi haft einhver áhrif á félaga Akademíunnar, þótt auðvitað geti það verið. Það breytir því hins vegar ekki, að íslenskir kommúnistar ráku á þessum árum harðan áróður gegn Gunnari (eins og ég minnist á í bók minni), og vissulega eru til munnleg skilaboð ekki síður en skrifleg. Sennilega verður aldrei skorið úr þessu máli að fullu, þótt vonandi verði það rækilega kannað í væntanlega ævisögu Gunnars.

Annað er forvitnilegt í þessu sambandi. Halldór Kiljan Laxness minnist nokkrum sinnum á það í bréfum frá þessum tíma, að íslenskir ráðamenn hafi rekið áróður gegn sér. Ég hef hvergi fundið nein merki um það. Öðru nær. Á meðan Ásgeir Ásgeirsson forseti var í opinberri heimsókn í Svíþjóð 1954, mælti hann sérstaklega með Laxness við sænska ráðamenn, og Helgi P. Briem sendiherra í Svíþjóð, gamall vinur og skólabróðir Laxness, vann ötullega að því að sannfæra menn í sænsku Akademíunni um það, að Laxness verðskuldaði verðlaunin. Það var ekki ónýtt að hafa bæði forsetann og sendiherrann í stuðningsmannaliði sínu. Hitt er annað mál, að sennilega hefðu menn eins og Bjarni Benediktsson, Ólafur Thors og Kristján Albertsson frekar viljað, að verðlaununum yrði skipt en að Laxness fengi þau einn. Það hefði að mínum dómi verið heppileg niðurstaða.

Höfundur er prófessor og hefur nýlega gefið út ævisögu Halldórs Kiljans Laxness í þremur bindum.