Afköstin Helsta vandamálið er að fá hréfni enda gætu afköstin verið tvöfalt meiri.
Afköstin Helsta vandamálið er að fá hréfni enda gætu afköstin verið tvöfalt meiri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristin Benediktsson krben@internet.is Fiskúrgangur af suðvesturhorni landsins hefur verið hakkaður í minnkafóður síðan 1997 hjá Skinnfiski í Sandgerði og seldur til Dansk pelsdyrfoder í Danmörku sem eru fjórðungs eigendur fyrirtækisins.
Eftir Kristin Benediktsson krben@internet.is
Fiskúrgangur af suðvesturhorni landsins hefur verið hakkaður í minnkafóður síðan 1997 hjá Skinnfiski í Sandgerði og seldur til Dansk pelsdyrfoder í Danmörku sem eru fjórðungs eigendur fyrirtækisins. Árleg framleiðsla hefur verið rétt rúm 20 þúsund tonn en gæti verið 40 þúsund tonn að sögn Ara Leifssonar framkvæmdastjóra Skinnfisks, en helsta vandamál fyrirtækisins er að fá hráefni og einnig dýr flutningur á hráefninu til þeirra.

Ari segir að hráefnið hafi komið mest frá stór Reykjavíkur svæðinu og Snæfellsnesi allt til Þorlákshafnar en nú hafi Nesið dottið út. Hráefni hefur einnig komið frá Vestfjörðum með Jaxlinum meðan hans naut við og eins frá Hornafirði þar sem úrgangur hafði áður verið urðaður að hluta til. Heimamenn kjósa frekar fara þá leið að senda Skinnfiski úrganginn en að urða hann. Flestar bræðslur á svæðinu hafa einbeitt sér að bræðslu á uppsjávarfiski og eru þær flestar lokaðar þess á milli.

Hjá Skinnfiski vinna 12-14 manns. Unnið er allan sólarhringinn á þriggja manna vöktum auk þess sem dagmaður bætist við í vinnsluna að deginum. Unnin eru 70-120 tonn á sólarhring og er fryst í 13 lóðréttum plötufrystum, þar af eru tvö tæki sem frysta bretti, þar sem 40 kg.pönnum er staflað á brettin í sjáfvirkum staflara. Fyrirtækið hefur yfir að ráða 4 frystiklefum sem hafa 3.500 tonna geymslugetu. Afskipanir eru með reglulegu millibili á mánaðarfresti og er skipað út 2.000 til 3.000 tonnum i hvert skipti. Það koma í Sandgerðishöfn sérútbúin frystiskip til að lesta vöruna sem tekur frá tveimur til fjórum dögum að lesta.

"Nokkrar nýjungar eru á döfinni hjá okkur, segir Ari. "Við erum í samstarfi við fyrirtækið Klofning á Ísafirði sem eru að frysta úrgang sem fellur til á Vestfjörðum og fer fyrsta sending frá þeim í skipið sem nú er að lesta um 250 tonn. "Fyrirtækið hefur verið að selja Roð í litlu magni til eins aðila á austurströnd Bandaríkjanna. Roðið er fyrst hakkað og síðan fryst sem notað er í gelatínvinnslu og er þetta mjög afmarkaður markaður, bætir Ari við og heldur áfram. "Fyrirtækið tekur á móti slógi frá framleiðendum sem það kaupir hráefnið af og er að hefja tilraunir á að vinna lífrænan áburð úr slóginu og koma því í neytendavænar umbúðir í framtíðinni. Guðmund Svavarsson, verkfræðingur hjá Ísrás hefur umsjón með þessu verkefni. Leitað hefur verið eftir umsögn og ráðleggingum frá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og fleirri aðilum sem hafa verið mjög jákvæð og gefa tilefni til bjartsýni á þessu verkefni sem er á tilraunastigi. Vonast er til að niðurstöður liggi fyrir í vor og ætti framleiðsla að komast í gang á seinnihluta þessa árs ef niðurstöður gefa tilefni til. Gerðar hafa verið tilraunir með að dreifa áburðinum á mela á Reykjanesi í samvinnu við og undir eftirliti heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og segja menn að þar hafi komið fram iðagrænir flákar svo þessi tilraun lofar góðu. Hér áður fyrr var fiskúrgangur nýttur í áburð til sveita svo hér er ekki sú nýjung um að ræða en nýjungin felst í því að koma afurðunni í áburðarform. Hugmyndin er þó að geta framleitt þurráburð en það getur orðið þrautin þyngri og dýrt í framleiðslu, sagði Ari og bætti við að lokum að samhliða þessari tilraun hefjist önnur tilraun sem gengur út á að nýta og beisla metangasið sem fellur til í úrganginum með það að markmiði að keyra díeselvél sem framleiðir rafmagn og lækka þannig raforkukostnað fyrirtækisins en hann er býsna stór liður í rekstri sem þessum.