Ragnhildur Bragadóttir og Margrét Guttormsdóttir, meðlimir í Hugarafli, veittu myndavélinni og eintaki af stuttmyndinni viðtöku. Með þeim á myndinni eru Guðný Elísabet Ólafsdóttir, Arnfríður Ragna Sigurjónsdóttir, Sif Hermannsdóttir og Katrín Jónsdóttir.
Ragnhildur Bragadóttir og Margrét Guttormsdóttir, meðlimir í Hugarafli, veittu myndavélinni og eintaki af stuttmyndinni viðtöku. Með þeim á myndinni eru Guðný Elísabet Ólafsdóttir, Arnfríður Ragna Sigurjónsdóttir, Sif Hermannsdóttir og Katrín Jónsdóttir. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is "ÞETTA er mikill hamingjudagur. Okkur þykir vænt um að nemendur sýni Hugarafliáhuga með því að styrkja okkur á þennan hátt.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

"ÞETTA er mikill hamingjudagur. Okkur þykir vænt um að nemendur sýni Hugarafliáhuga með því að styrkja okkur á þennan hátt. Þessi gjöf kemur til með að nýtast til að skrásetja brautryðjendastarf okkar," sögðu Ragnhildur Bragadóttir og Margret Guttormsdóttir, meðlimir í Hugarafli, þegar þær veittu stafrænni myndavél viðtöku í gær í húsakynnum Hugarafls. Myndavélina fengu þær Arnfríður Ragna Sigurjónsdóttir, Guðný Elísabet Ólafsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Sif Hermannsdóttir í verðlaun fyrir stuttmynd sína Why be Normal , sem hlaut þriðju verðlaun í stuttmyndasamkeppni Rannís og Lífsmynda um líf og störf vísindamanna. En myndin fjallar um Elínu Ebbu Ásmundsdóttur, geðiðjuþjálfa og þátttakanda í verkefninu Hugarafli.

Aðspurðar sögðu höfundar stuttmyndarinnar ekki koma annað til greina en að gefa verðlaunin áfram til Hugarafls. "Eftir að við kynntumst starfinu hér langaði okkur til að leggja okkar að mörkum og við töldum vélina koma að bestum notum hér," sagði Margret. Aðspurðar hvernig hugmyndin að myndinni hafi komið til segjast þær nánast strax hafa dottið Elín Ebba í hug þegar ljóst var að þær ættu að gera stuttmynd um vísindamann. "Okkur fannst hún áhugaverð, öðruvísi og með spennandi hugmyndir, en við vildum fjalla um óhefðbundinn vísindamann," sagði Arnfríður.

"Ég er vísindamaður vonarinnar, enda gefst ég aldrei upp. Það má segja að vísindastörf mín gangi út á að skoða og endurheimta drauma manneskjunnar í stað þess að reyna sífellt að bara lækna einkenni. Markmið mitt er þannig að hrinda úr vegi hindrunum hjá geðsjúkum," segir Elín Ebba meðal annars í stuttmyndinni, en myndin byggist á viðtölum við Elínu Ebbu auk þess sem fylgst er með störfum hennar, þar á meðal heimsókn til skjólstæðings.

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Elínu Ebbu þykja vænt um að höfundar stuttmyndarinnar hefðu sýnt verkefninu áhuga, því myndin yrði vonandi til þess að vekja upp umræðu um geðsjúkdóma og geðheilbrigði. Sagðist hún einkar ánægð með myndina og sannfærð um að hún myndi virka vel sem markaðssetning fyrir málefninu.

Getum öll orðið skotmörk

Hugarafl er brautryðjendasamtök þar sem fagfólk og fólk með geðraskanir vinna á jafningjagrundvelli að bættri geðheilbrigðisþjónustu. Að sögn Ragnhildar og Margretar er um að ræða hóp innan heilsugæslu Reykjavíkur sem er í samstarfi við iðjuþjálfarana Auði Axelsdóttur og Elínu Ebbu Ásmundsdóttur.

"Við vinnum út frá notendasýn, en það er leið sem hefur verið að ryðja sér til rúms víða í heiminum og er góður valmöguleiki við hefðbundna þjónustu," segir Margret og minnir á að á ráðherraráðstefnu í Helsinki var Hugarafl kynnt sem dæmi um fyrirmyndarverkefni um samstarf fagfólks og notenda.

Að sögn Ragnhildar var Hugarafl þegar farið að vinna að ýmsum verkefnum sl. tvö ár samkvæmt þessari stefnu. Nefnir hún í því samhengi þróun Hlutverkaseturs, sem er stærsta verkefni Hugarafls. "Það verður vinnustaður fyrir fólk sem er að fóta sig smátt og smátt aftur út á vinnumarkaðinn og þarf tíma til að byggja upp færni og sjálfsvirðingu. Vinnustaður þar sem notendur og fagfólk vinna á jafningjagrunni við að þróa þjónustu sem nýtir reynslu og þekkingu geðsjúkra. Markmiðið er að koma okkur aftur út í þjóðfélagið," segir Ragnhildur.

Að sögn Margretar hefur Hugarafl verið í góðum tengslum við Háskólann á Akureyri og væntir í framhaldi einnig samstarfs við Háskóla Íslands.

"Okkur hefur lengi dreymt um að fara í framhaldsskólana, því forvörnin er svo mikilvæg," segir Margret, en fulltrúar Hugarafls hafa þegar tekið þátt í kennslu lækna- og iðjuþjálfanema og farið bæði í Menntaskólann og Verkmenntaskólann á Akureyri til að ræða við nemendur.

Hún segir mikilvægt að halda umræðunni opinni. "Einn af hverjum fjórum á við geðraskanir að stríða einhvern tímann á lífsleiðinni. Við getum því öll orðið skotmörk geðveikinnar ef við lendum í þannig aðstæðum að hlutirnir verða of erfiðir," segir Margret.

Hægt er að horfa á stuttmyndina á Netinu á slóðinni: http://www.mm.ir.is/vmm/video2005h/why_be_normal.wmv.