Ástandið er enn afar ótryggt í Kongó en íbúrnir fengu þó í desember í fyrsta sinn í 40 ár tækifæri til að kjósa og samþykktu nýja stjórnarskrá. Hér deilir lögreglumaður við fólk á kjörstað í borginni Goma.
Ástandið er enn afar ótryggt í Kongó en íbúrnir fengu þó í desember í fyrsta sinn í 40 ár tækifæri til að kjósa og samþykktu nýja stjórnarskrá. Hér deilir lögreglumaður við fólk á kjörstað í borginni Goma. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is ÁTTA ára borgarastyrjöld í Kongó hefur með beinum og óbeinum hætti kostað nær fjórar milljónir manna lífið, segir í skýrslu sem birtast mun í breska læknatímaritinu The Lancet í dag.
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is

ÁTTA ára borgarastyrjöld í Kongó hefur með beinum og óbeinum hætti kostað nær fjórar milljónir manna lífið, segir í skýrslu sem birtast mun í breska læknatímaritinu The Lancet í dag. Segir þar að um sé að ræða mannskæðustu átök í heiminum núna og ekkert stríð frá 1945 hefur valdið jafnmörgum dauðsföllum. Ótryggt vopnahlé ríkir nú að nafninu til í landinu en víða fara vopnaðir flokkar um héruð Kongó og ræna og myrða fólk og er því ljóst að harmleikurinn er ekki á enda.

Sameinuðu þjóðirnar eru nú með fjölmennara friðargæslulið, um 17.000 manns, í Kongó en í nokkru öðru landi en það hefur ekki dugað til að stöðva átökin að fullu.

Niðurstöður skýrsluhöfunda í The Lancet byggjast á viðtölum við alls 19.500 fjölskyldur en rannsókn þeirra lauk árið 2004. Er síðan framreiknað út frá frásögnum fólksins hvert mannfallið hefur verið hjá þjóðinni allri og niðurstaðan að alls hafi um 3,9 milljónir manna týnt lífi. Tíðni dauðsfalla í Kongó er talin vera um 2,1 af hverjum þúsund á mánuði eða um 40% hærri en að jafnaði í Afríkuríkjum sunnan Sahara. Má gera ráð fyrir að þessi munur skýrist að mestu leyti af átökunum í landinu.

Vannæring og sjúkdómar

Vannæring, vosbúð af ýmsu tagi og sjúkdómar valda mestu manntjóni. "Langflestir hafa látið lífið af völdum sjúkdóma sem auðvelt er að meðhöndla eða fyrirbyggja, en ekki af völdum ofbeldis," segir í skýrslunni. "Átökin í Kongó eru sem fyrr mannskæðasta dæmið um neyðarástand hjá almenningi í heiminum núna. Brýnt er að bæta aðstæður varðandi öryggi og auka mannúðarhjálp til að bjarga mannslífum."

Umsjón með gerð skýrslunnar hafði Richard Brennan hjá Alþjóðlegu hjálparnefndinni, IRC, samtökum með aðsetur í New York. Samtökin gáfu út skýrslu í desember þar sem sagði að rúmlega 31.000 manns dæju í hverjum mánuði í Kongó vegna átakanna í landinu. Börn eru stór hluti fórnarlambanna. Haft er eftir Brennan í frétt á vef BBC að athygli umheimsins og sú aðstoð sem veitt hafi verið óbreyttum íbúum í Kongó sé í "hróplegu ósamræmi" við þörfina.

Bardögum lauk í borginni Kisangani í austurhlutanum árið 2002 og lækkaði þá tíðni dauðsfalla um 80%. Mannfallið í Kongó er verulega hærra í austurhéruðunum Ituri og Katanga en annars staðar. Þar er mikið af námunum sem hafa valdið því að grannríkin hafa haft bein afskipti af borgarastyrjöldinni. Hafa þau sum hver beinlínis sent herlið inn í austurhéruðin til að elta uppi vopnaða flokka sem flúið hafa til Kongó eftir ódæði heima fyrir. Önnur hafa róið undir með því að vopna vígahópa eða styrkja þá með peningum.

Margir vilja græða

Blóðug innanlandsstríð hafa geisað í sumum grannríkjunum, einkum Angóla, Rúanda, Búrúndí og Súdan síðustu áratugi en einnig í Úganda þar sem stjórnarherinn á enn í höggi við hryðjuverkamenn í hópi er nefnir sig Her drottins. Um tugur Afríkuríkja hefur haft bein afskipti af stríðinu í Kongó. Nefna má að stjórn Roberts Mugabe, forseta í Simbabve, sem á ekki landamæri að Kongó, hefur reynt að tryggja sér hluta af auðlindaþýfinu sem erlendir aðilar hafa hrifsað til sín með aðstoð innlendra leppa. Fjölmörg verðmæt efni eru í jörðu í Kongó, gull, eðalsteinar og ýmis sjaldgæf efni sem notuð eru í iðnaði.

Kongó var lengi belgísk nýlenda en hlaut sjálfstæði 1960 . Höfuðborgin Kinshasa hét eitt sinn Leopoldville. Kongó er geysistórt land, um 2,3 milljónir ferkílómetra, eða fjórum sinnum stærra en Frakkland, svo dæmi sé nefnt. Íbúar eru taldir vera liðlega 50 milljónir. Innviðir landsins, vegir og annað af því tagi, eru í rúst og erfitt að fá traustar fregnir af því sem gerist í mörgum afskekktum héruðum. Boðuðum forseta- og þingkosningum, sem áttu að fara fram í fyrra, var frestað en Joseph Kabila, núverandi forseti, heitir því að þær verði haldnar í júní á þessu ári.