9. janúar 2006 | Daglegt líf | 539 orð | 1 mynd

* HVERJU SVARA LÆKNARNIR? | Björgvin Á. Bjarnason og Kristjana S. Kjartansdóttir

Hvaða ráð duga við bakflæði?

Spurning: Hvað er bakflæði? Svar: Bakflæði eða vélindabakflæði er það, þegar innihald maga gúlpast eða flæðir upp í vélinda og/eða háls. Flestir hafa fundið fyrir þessu einhvern tíma t. d.
Spurning:

Hvað er bakflæði?

Svar:

Bakflæði eða vélindabakflæði er það, þegar innihald maga gúlpast eða flæðir upp í vélinda og/eða háls. Flestir hafa fundið fyrir þessu einhvern tíma t. d. við að bogra, áreynslu, máltíðir, gosþamb og víndrykkju en það er í sjálfu sér ekki vandamál eða sjúkdómur. Sumt fólk er hins vegar með einkenni oft og er talið að allt að 4-6 % þjóðarinnar séu í þeim hópi. Vélindað er eins og mjúk slanga eða rör sem nær frá koki ofan í maga. Við mót vélinda og maga við þindina (sem skilur á milli brjósthols og kviðarhols) er hringvöðvi, sem virkar eins og loka í aðra áttina, hleypir fæðu niður en varnar því um leið að fæðan og magainnihald leki til baka. Þegar þessi hringvöðvi (loka) virkar ekki sem skyldi, eða ef þindarslit er til staðar, aukast líkur á bakflæði og kvillum tengdum því.

Einkenni bakflæðis

Algengustu einkenni eru brjóstsviði og nábítur. Þá er greiningin ekki vandamál.

Hins vegar geta önnur einkenni verið ráðandi svo sem uppþemba, loftbelgingur, hæsi, ræma, ræskingar , særindi í hálsi, verkir fyrir brjósti , glerungsskemmdir, hósti einkum að næturlagi eða asmi.

Ef bakflæði er lengi til staðar án meðferðar geta sjúklingar fengið bólgur og sár í vélinda sem jafnvel valda blæðingum og blóðskorti. Ef örmyndun á sér stað eftir slíkt er hætta á kyngingarerfiðleikum.

Bakflæði er þekkt í öllum aldurshópum, þó einna algengast hjá fólki 35-65 ára.. Nýfædd börn eru oft með bakflæði en langflest læknast af sjálfu sér á fyrsta ári. Ófrískar konur eru stundum illa haldnar (vegna hormónabreytinga á meðgöngu og aukins þrýstings í kvið). Þeir sem reykja eða neyta áfengra drykkja í óhófi og fólk með offituvandamál er oft með talsverð óþægindi.

Greining: Greiningin byggist aðallega á einkennum en stundum þarf að beita hefðbundnum rannsóknaraðferðum, oftast speglunartækni en röntgenmyndatökur og sýrumælingar í vélinda eru líka notaðar í völdum tilvikum.

Hvað er til ráða?

Eins og oftast þá getum við haft veruleg áhrif á líðan okkar. Ef reykingum er hætt eru líkur á því að hringvöðvinn (lokan) virki betur. Sumar fæðutegundir eru verri en aðrar, feitmeti., kaffi, áfengi (líka vín og öl) , súkkulaði, piparmynta, sum krydd og heitir drykkir. Ef einhver fæðutegund veldur einkennum er rétt að sleppa henni. Gott er að hver og einn fari yfir sínar fæðuvenjur og láti skynsemina ráða.

* Sum lyf geta ert vélindað og veikt hringvöðvann, giktarlyf e.t.v. algengust en mörg önnur lyf geta komið við sögu..

* Offita eykur á þrýsting í kviðarholi og líkur á bakflæði frá maga. Gott er að grennast (það bætir líka svo margt annað, blóðþrýstinginn, kæfisvefninn, sykurbúskapinn, sjálfsmyndina o.fl. o.fl. ). Ekki er ráðlegt að borða neitt 3 klst fyrir háttinn og minnka matarskammtana almennt (borða minna í einu).

* Gott er að hækka höfðagafl rúmsins um 12-15 cm. Best að setja kubba undir höfðagaflinn. Aukakoddi dugar ekki því hann lyftir eingöngu hálsi og höfði.

* Ef þessi ráð duga ekki má reyna lyf í handkaupi eða sýruhemjandi lyf sem eru lyfseðilsskyld. Þeir sjúklingar sem eru verstir þurfa langtímameðferð en flestir komast af með stutta lyfjameðferð og lífstílsbreytingar.

* Ef allt þrýtur má gera aðgerð á efra magaopinu. Slíkar aðgerðir sem oftast eru árangursríkar eru gerðar með speglunartækni og eru miklu minna inngrip fyrir sjúklinginn en eldri aðferðir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.