GÍSLI Hjartarson, ritstjóri, rithöfundur og leiðsögumaður á Ísafirði, lést á heimili sínu 10. janúar sl., 58 ára að aldri. Gísli var fæddur á Ísafirði 27. október árið 1947.

GÍSLI Hjartarson, ritstjóri, rithöfundur og leiðsögumaður á Ísafirði, lést á heimili sínu 10. janúar sl., 58 ára að aldri. Gísli var fæddur á Ísafirði 27. október árið 1947. Foreldrar hans voru Hjörtur Bjarnason skipstjóri, látinn 1998, og Svanfríður Gísladóttir, látin 2003.

Gísli lauk gagnfræðaprófi frá Brúarlandsskóla í Mosfellssveit árið 1968 og stundaði næstu árin nám við í undirbúnings- og raungreinadeild Tækniskóla Íslands og Iðnskóla Ísafjarðar. Gísli gegndi ýmsum öðrum störfum á yngri árum, m.a. stundaði hann sjómennsku og var skrifstofustjóri Rafveitu Ísafjarðar 1970-73.

Hann var skólastjóri Grunnskóla Fellshrepps á árunum 1973-74 og 1976-77 og kennari við Grunnskóla Þingeyrar 1974-75, Grunnskóla Súðavíkur 1975-76, Grunnskóla Bolungarvíkur frá 1977-79 og síðar við Grunnskóla Ísafjarðar. Síðastliðin ár starfaði Gísli að fararstjórn á Vestfjörðum, aðallega á Hornströndum.

Gísli var varabæjarfulltrúi Alþýðubandalagsfélags Ísafjarðar 1970-74, formaður Alþýðubandalagsfélags Ísafjarðar 1969-75 og í stjórn þess til 1977. Þá var hann formaður Æskulýðsfylkingarinnar á Ísafirði 1968-69 og formaður og stjórnarmaður í Sjálfsbjörg um árabil. Gísli var formaður heilbrigðisnefndar Ísafjarðar 1971-74 og formaður hússtjórnar Alþýðuhússins á Ísafirði frá 1974.

Gísli var ritstjóri Vestfirðings um tíma og einnig ritstjóri Skutuls, blaðs Alþýðuflokksins í Vestfjarðakjördæmi, í mörg ár auk þess sem hann skrifaði í ýmis blöð og tímarit. Þá gaf hann út bókina 101 vestfirsk þjóðsaga um árabil.

Gísli var ókvæntur og barnlaus.