Gunnar Gunnarsson "Og með tímanum komst sú mýta á flot að allir íslenskir höfundar stæðu í skugga Halldórs, líka Gunnar og Þórbergur, þótt skugginn sá hafi hvergi verið til nema í höfði þeirra sem svo mæltu." Myndin var tekin þegar höggmynd Sigurjóns Ólafssonar í anddyri Árnastofnunar var afhjúpuð.
Gunnar Gunnarsson "Og með tímanum komst sú mýta á flot að allir íslenskir höfundar stæðu í skugga Halldórs, líka Gunnar og Þórbergur, þótt skugginn sá hafi hvergi verið til nema í höfði þeirra sem svo mæltu." Myndin var tekin þegar höggmynd Sigurjóns Ólafssonar í anddyri Árnastofnunar var afhjúpuð. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Gunnar Gunnarsson hefur verið mikið til umræðu að undanförnu vegna nóbelsverðlauna sem hann var tilnefndur til árið 1955.

Gunnar Gunnarsson hefur verið mikið til umræðu að undanförnu vegna nóbelsverðlauna sem hann var tilnefndur til árið 1955. Í tilefni af því að á þessu ári eru liðin sjötíu ár síðan mest selda skáldsaga Gunnars, Aðventa , kom fyrst út, árið 1936, er hún skoðuð hér í samhengi við ýmislegt annað.

Það virðist ekki þurfa mikið efni til að úr verði meistaraverk, bók sem lifir af tímana; maður ráfar um skóg með byssu og hund, muldrar eitthvað um náttúruna, verður ástfanginn af konu og endar með að skjóta sig; miðaldra rithöfundur tekur sér stutt frí frá ritstörfum, fer til Feneyja, verður ástfanginn af unglingsstrák, missir tökin á lífinu og deyr; maður þvælist með hundi og hrút um öræfin í desember, leitar að kindum, hreppir slæm veður en kemst lifandi til byggða.

Og þá er ég búinn að lýsa efni þriggja bóka, nóvella, þær láta ekki mikið yfir sér, en efni bóka er sjaldan aðalatriðið, heldur úrvinnslan, einföld sannindi sem vilja gleymast; bækurnar þrjár eru Pan eftir Knut Hamsun, Dauðinn í Feneyjum eftir Thomas Mann og Aðventa Gunnars Gunnarssonar. Mikið meira verður ekki sagt hér um bækur Hamsuns og Mann, ég stenst þá freistingu, því nú er það Gunnar sem skiptir máli, og Benedikt, Leó og Eitill; það er svo gott að ganga í tunglsljósi inn á milli fjalla. En ég þarf fyrst að fara í stutt ferðalag áður en ég held á öræfin, í humátt á eftir þrenningunni.

Ég trúi á Halldór Laxness

Sá sem ekki þekkir verk Gunnars Gunnarssonar, og sér í lagi sá sem ekki hefur lesið Fjallkirkju , Svartfugl og Aðventu , getur ekki talist vel að sér í íslenskum bókmenntum - og hér myndu sumir bæta Brimhendu , Blindhúsum og Vikivaka inn í upptalninguna. Það er auðvitað tóm vitleysa að segja svona, getur ekki talist vel að sér í íslenskum bókmenntum, óþolandi oflátungsháttur, en ástæðan fyrir staðhæfingunni er undarleg örlög verka Gunnars í íslensku bókmenntalífi. Það er eitthvað svo langt í þau, liggja svo fjarri alfaraleið, því höfuðverk hans ættu að vera lesin til jafns á við verk Halldórs Laxness, og sama má náttúrlega segja um bækur Þórbergs Þórðarsonar. Í bókmenntum hverrar þjóðar eru verk, við getum kallað þau tinda, bautasteina, sem liggja lesendum svo nærri að óþarfi er að hafa sérstaklega orð á þeim einungis til að minna á tilveru þeirra. Bækur Gunnars, Fjallkirkjan , Svartfugl , Aðventa , eru þannig verk, tindar - án þess þó að vera það. Við höfum sjálfsagt aldrei jafnað okkur á nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness, og allt frá árinu 1955 hefur ríkt ójafnvægi í skynjun okkar og umræðu; fjallið eina, segjum við, eins og einungis eitt fjall sé á Íslandi öllu, kannski bara Herðubreið, engin Esja, engin Kaldbakur, hvað þá öll fellin, Sauðafell, Reykjafell. Þeir vita það sem kæra sig um, að hið besta hjá Gunnari og Þórbergi stenst að öllu leyti samjöfnuð við hátindana í sköpunarsögu Halldórs Laxness, einföld sannindi sem nóbelsverðlaunin tóku úr sambandi. Kannski gerði Halldór bókmenntaumræðu framtíðarinnar mikinn óleik þegar hann, úr brúnni á Gullfossi, sagði að íslenska þjóðin ætti ekki að þakka sér, það væri hans að þakka henni. Stórmannleg orð sem slóu okkur kylliflöt. Og þegar við risum upp höfðu öll viðmið breyst. Halldór varð höfundurinn, skáldið eina, hann var prósinn, Jónas Hallgrímsson ljóðið, og á undraskömmum tíma fengu verk Halldórs á sig goðsagnakenndan blæ, hinn mesti skáldskapur, og nær allt sem hann skrifaði var snilld, jafnvel gallar hans urðu frábærir af því að það voru hans gallar, og bókmenntasagan varð svona: Halldór Kiljan Laxness - og hinir. Íslenska þjóðin, þrúguð af minnimáttakennd, plöguð af minningum um fornaldafrægð, sá í Halldóri og nóbelsverðlaununum einhverskonar staðfestingu á því að hún væri, þrátt fyrir smæðina, fjarlægðina frá heiminum og hrollkalda nafnið, þjóð meðal þjóða. Og með tímanum komst sú mýta á flot að allir íslenskir höfundar stæðu í skugga Halldórs, líka Gunnar og Þórbergur, þótt skugginn sá hafi hvergi verið til nema í höfði þeirra sem svo mæltu. Nóbelsverðlaunin urðu því engin innspýting inn í íslenskt bókmenntalíf, auðguðu það ekki, heldur afbökuðu landslagið, hinn margumtalaði skuggi Halldórs stafaði ekki af verkum hans, heldur verðlaununum. Við réðum ekki við þau, ljóminn af þeim blindaði okkur, og við erum hugsanlega fyrst núna að jafna okkur, farin að grilla í hið raunverulega landslag íslenskra bókmennta. Landslagið reynist nefnilega býsna fjölbreytt, ég er ekki að tala um falda tinda, en minni á að fell eru ekki síður hluti af landslagi en fjöll. Við höfum ekki lagt nógu mikla rækt við þessa fjölbreytni, of fáir höfundar eru sjálfsagðir hluti af umræðunni. Óþarflega fáir sækja í "minni" spámenn, til dæmis í sjálfsævisögur Guðmundar G. Hagalíns, eða Sjávarföll Jóns Dan, svo ég nefni, nánast af handahófi, ágætis verk sem hvíla undir fargi gleymskunnar. Og höfundar eins og Indriði G. Þorsteinsson, Málfríður Einarsdóttir, Steinar Sigurjónsson, Ólafur Jóhann Sigurðsson koma merkilega sjaldan upp á yfirborðið, eins og þeir hefðu varla skilað neinu sem tæki að tala um, hefðu ekki haft áhrif á þá höfunda sem skrifa á okkar dögum. Við einblínum á þá sem nú skrifa og þyljum síðan lofsönginn um Laxness, fjallið eina, skáldverkin hans eru talnabandið okkar, meistaraverk Gunnars, lifa ekki sínu eðlilega lífi í þjóðarvitundinni, sama má segja um Íslenskan aðal og Suðursveitasögur Þórbergs. Báðir þessir höfundar standa til hliðar, eru á varamannabekknum, fá stöku sinnum að hlaupa inn á völlinn þegar þeir eiga stórafmæli, eða þegar við viljum hvíla Laxness sem er stjarnan í öllum stöðum, í marki, í vörn og í sókn.

Ekkert jafnast á við fyrstu kynnin

Það kann að vera að ég hafi heyrt minnst á Gunnar Gunnarsson í gagnfræðiskólanum í Keflavík, en ég man ekki eftir því, enda flest gleymt frá þeim árum, hnútarnir sem ég lærði í sjóvinnu, algebran í stærðfræðinni. Ég komst fyrst í snertingu við verk Gunnars þegar ég var settur í að þurrka af á heimilinu. Ritsafn hans, gefið út á sjöunda áratugnum stóð í einni hillunni og ég passaði mig að koma ekki við bækurnar með rakri tuskunni, átta þykk bindi með frekar smáu letri. Þannig kynntist ég honum, þrettán ára, í einbýlishúsi í Keflavík. Og í hverri viku á komandi árum stóð ég yfir höfundarverki hans, að frátöldum smásögunum, þann tíma sem það tók mig að þurrka af hillunni; ég opnaði ekki bók eftir Gunnar fyrr en í tíma hjá Matthíasi Viðari Sæmundssyni tíu árum síðar. Aldrei hvarflaði að mér, að minnsta kosti ekki af nægilegri alvöru, að lesa Gunnar eftir að ég ánetjaðist skáldskap, svona er maður takmarkaður. Ég las samtíðarhöfundana, en þegar ég horfði yfir bókmenntasöguna sá ég bara fjallið eina, og reyndar líka Þórberg, aðrir höfundar fyrri tíma voru í dimmum skugga fjallsins. Væri mér hugsað til Gunnars, kom allt ritsafnið upp í hugann, átta hnausþykk bindi; Gunnar lifði í óárennilegu ritsafni, ekki í stökum bókum. Ég veit um fleiri ágætis bókmenntafólk af minni kynslóð sem hikaði, og hikar jafnvel enn, andspænis þungri ritröðinni, óvisst hvar eigi að grípa niður, hikandi andspænis þúsundum síðna. Síðan er líka annað, því eins og opinber ævisagnaritari Gunnars, Jón Yngvi Jóhannesson, minntist á í útvarpinu fyrir skömmu, þá stendur lesandi Gunnars frammi fyrir þremur valkostum, þremur útgáfum, sem flækir auðvitað málið, tefur aðgengi. Það eru frumútgáfurnar á dönsku, þýðingar annarra, og loks hans eigin þýðingar. Langflestir kjósa náttúrlega að fara í þýðingarnar, þó danskan sem hann skrifar sé fögur, en hvort skal velja, hvora þýðinguna, þarna er efinn.

Höfundur tveggja heima

Gunnar tekur út þroska sem höfundur í umhverfi sem var gjörólíkt því sem flestir íslenskir höfundar þekktu. Átök aldarinnar, tilvistarangistin í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar og heimsmálin á þriðja áratugnum, fara nær Gunnari en þeirra sem hér sitja og hugsa kannski stundum um þúfnabana og dönsk yfirráð. Og hvort sem það var útaf búsetu hans eða upplagi, kannski þættist þetta tvennt saman, þá virðist Gunnar hugsa meira um sjálft formið en kollegar hans hér heima, hann er einbeittari, bækur hans betur byggðar, meðvitaðri. Hann var jafnframt höfundur tveggja heima, Íslendingur sem skrifar á dönsku, búsettur í stórborg en sögusvið bókanna ætíð íslenskt, borgin sjaldséð en hinsvegar fyrirferðamikil þar sem hún kemur fyrir í Óreyndum ferðalangi , lokabindi Fjallkirkjunnar . Fyrstu tvö bindi hennar, Skip heiðríkjunnar og Nótt og draumur , hafa verið lofuð, en Óreyndur ferðlangur talið standa þeim að baki. Huganlega er sá dómur smitaður af þeirri trú fólks að þegar skáld skrifi ævisögu sína, fatist því flugið þegar bernskunni sleppi. Það er sagt um Gunnar og það sama hefur stundum verið sagt um lokabindið í stórfenglegum bókum Maxim Gorkís um æsku og ungdómsárin sín, bækur sem án efa höfðu sín áhrif á Gunnar við samningu Fjallkirkjunnar . Þessi miklu verk ólíkra höfunda eiga sitthvað sameiginlegt, og þau ljóma bæði af þeim dimma og bjarta eldi sem kviknar af neistafluginu þegar veruleika og skáldskap er slengt saman. Ég hef lengi haft á tilfinningunni að Óreyndur ferðalangur hafi ekki notið sannmælis, hún er okkar Sultur , og ef maður setur hana í evrópskt samhengi, þá gæti hún staðið á milli Sults Hamsuns, og hástéttar sults Rilke, frásögnina um Malte Laurids Brigges, sem kom fyrst út árið 1910.

Þrátt fyrir að Gunnar fari í vissum skilningi aldrei að heiman sem skáldsagnahöfundur, og velji sér ætíð rammíslenskt sögusvið, þá eru örlög heimsins, hin ráðvillta Evrópa á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, oftast undir og yfir söguheimnum. En ég hef stundum velt fyrir mér hvort áhersla hans á íslenskt efni, veðurfarið, öræfin, hafi orðið þyngri vegna búsetu hans; landið sjálft, fólkið og umhverfið, orðið honum áleitnara vegna fjarlægðarinnar, og svo kannski vegna þess að lesendur hans, þeir dönsku og síðan þýsku, hrifust af og sóttust í þesskonar lýsingar. Er þetta tvennt, fjarlægðarhrifningin og lesendur þyrstir í lýsingar á norðrinu, skýringin á furðulega langri lýsingu Gunnars á vikivaka dansinum snemma í Vikivaka ? Sá kafli er undarlegur bastarður. Yfirþyrmandi löng lýsingin á þjóðlegum dansi, og á undan enn lengri frásagnir hinna upprisnu á eigin lífi, eru mikið lýti á sögunni. Fáar íslenskar bækur byrja jafn frumlega og Vikivaki , en sérkennilegt og jafnvel einstakt andrúmsloftið verður nánast að engu eftir tugi síðna af vaðmálskenndri rómantíkinni. Hversvegna? Ég get ekki losnað við þá tilfinningu að í Vikivaka hafi fjarlægðarhrifningin deyft sjálfsgagnrýni Gunnars svona ógæfulega. Og ég get því ómögulega tekið undir með þeim sem telja Vikivaka meðal hans bestu bóka, hugmyndin vissulega snjöll, úrvinnslan ekki, og bókin talsvert síðri en gimsteinarnir þrír, Fjallkirkjan , Svartfugl og Aðventa .

Maður fer á fjöll og er síðan prentaður í 500 þúsund eintökum

Ég veit ekki hversu oft ég hef lesið Aðventu , og þá í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, en fyrir tíu eða ellefu árum tók ég upp á þeim sið að lesa söguna um Benedikt og félaga hans yfir jólin, byrja á Þorláksmessu, klára á jóladag, les hægt, nýt þess, eins og maður nýtur þess að sitja lengi hjá gömlum vini. Það hefur eitt og annað verið sagt um Aðventu frá því hún kom út, fyrst á þýsku árið 1936, ári síðar á dönsku, og loks í þýðingu Magnúsar árið 1939. Engin bók Gunnars hefur farið jafn víða, löndin kannski fleiri en fingur beggja handa, hún var prentuð í fimm hundruð þúsund eintökum í Bandaríkjunum og sú kenning er lífseig að Aðventa hafi orðið kveikjan að Gamla manninum og hafið eftir Ernest Hemingway.

En það er saga á bakvið tilurð bókarinnar; tíunda desember árið 1925 heldur hópur manna á fjöll á austurlandi til að finna kindur, einn þeirra heitir Benedikt Sigurjónsson, kallaður Fjalla-Bensi, maður með öræfin í blóði sínu. Sex árum síðar birtist frásögn eftir Þórð Jónsson í Eimreiðinni þar sem svaðilför Fjalla-Bensa er rakin, en hann heldur einsamall áfram leit af skepnum, fyrst hrossum, síðan kindum á Mývatnsöræfum, eftir að félagar hans halda til byggða með hóp kinda þann 13. desember; Fjalla-Bensi snýr aftur til manna á öðrum degi jóla, eftir hrakningar, og voru þá byggðarmenn byrjaðir að undirbúa leit að honum. Gunnar les frásögnina úti í Danmörku, og þegar tímaritið Julesne biður hann um að skrifa sögu sem gerist á Íslandi, vinnur hann smásöguna Góði hirðirinn uppúr skrifum Þórðar um Fjalla-Bensa. Smásagan er "að meginhluta til skáldlega stílfærð endursögn á ferðsögu Fjalla-Bensa", skrifar Ólafur Jónsson á einum stað. Síðan líða fimm ár. Þá hefur þýska forlagið Reclam samband við Gunnar og biður hann um að skrifa stutta skáldsögu, novellu, í bókaflokkinn Reclam Universal Bibliothek - og Aðventa verður til. Sagan sjálf og aðalpersóna hennar, Benedikt, og leit hans af kindum uppi á öræfum í næst grimmasta mánuði íslensk vetrar, á því sínar rætur í því sem við köllum veruleikann, til aðgreiningar frá skáldskapnum, þótt skilin þar á milli séu hæpnari en margur heldur, svo hæpin að það gæti beinlínis stefnt andlegri heilsu manns í voða að reyna að draga þar skýrar línur. Það er auðvitað gaman að þekkja forsögu bóka, fyrirmyndir að persónum, atburðina sem komu skáldskapnum af stað svo úr varð heimur við hliðina á heiminum, fróðleikur sem gleður, en það er samt aukaatriði, hismi, því það sem skiptir máli er heimur bókarinnar, skáldskapurinn, og maður á ævinlega að lesa bók á hennar forsendum, hún stendur og fellur með sjálfu sér, engu öðru. Þeir sem vilja aftur á móti fræðast um vinnuaðferðir Gunnars, velta fyrir sér tilurð bóka og reyna þannig að skilja betur skáldið á bakvið orðin, þá er gráupplagt að bera saman Góða hirðinn og Aðventu , við fáum nefnilega, eiginlega óvart, að snuðra um í vinnustofu hans, fylgjast með honum tálga hugmyndina, veita henni aukna dýpt, sjáum hvernig hann smám saman fjarlægist atburði og persónur sem koma öllu af stað, fjarlægist fyrirmyndir og skapar sinn eigin heim. Við sjáum hvernig hann tálgar langa frásögn í Góða hirðinum, eiginlega hálfa ævisögu,niður í þrjár línur í Aðventu ; ég nefni samband Benedikts og Sigríðar á Botni. Mikil saga, ólmandi tilfinningar, saga af skipbroti og síðan sérstæðri sátt, þessu er öllu komið þannig fyrir að það er eins og það sveimi ósýnilegt í orðunum, svo snjall er Gunnar í stílnum í Aðventu , afslappaður og agaður í senn, að hann kemur öllu fyrir án þess að við tökum eftir því, eiginlega bara með því að skapa stemningu sem við skynjum, sem við öndum að okkur - sem við lifum.

Maður þvælist með hundi og hrút um öræfin í desember, leitar að kindum, hreppir slæm veður en kemst lifandi til byggða, um þetta fjallar Aðventa . Einföld á yfirborðinu, og ég vil ekki segja að hún sé flókin þegar því sleppur, frekar að bókin sé djúp og frjósöm. Sagan sjálf, í öllum sínum einfaldleika, er góð og klassísk; maður andspænis náttúruöflunum. En við þann þráð bætist stíllinn og hugleiðingar söguhöfundar, sumpart sprottnar af sögunni, sumpart ekki, í senn almennar og djúpspekilegar og opnast manni í frásögnum af einföldum athöfnum:

Og um leið og þeir fóru nú inn, tók hann um kertisskarið tveim fingrum. Ljósi er sýnd mest líkn með því, að láta það ekki veslast upp til einskis gagns.

Frá Blicher til Conrads

Stíll Aðventu er einskonar ævintýri. Gunnar var stílisti, um það vitna bækur hans, og gat brugðið sér í margskonar líki, margorður, jafnvel flæðandi, eins og í Fjallkirkjunni , harður og hrjúfur eins og í Brimhendu , en hvergi eins látlaus og blátt áfram fallegur eins og í Aðventu . Enginn er þó eyland í skáldskap, maður rekst á stíl svipaðrar ættar hjá ólíkum höfundum, ég veit ekki hversu langt aftur er hægt að rekja hann, kannski til hins danska Steen Steensen Blicher, sem skrifaði á fyrrihluta 19. aldar og Gunnar hreifst mjög af, þýddi meðal annars eina af sögum hans, Vaðlaklerk . Þetta er sérstakur stíll, ég veit ekki hvort maður þorir að segja norrænn, en hann nær vissri fullkomnun hjá Knut Hamsun, makalaus galdramaður sem hafði áhrif á marga ólíka höfunda. Hemingway dreymdi um að skrifa eins og Hamsun, dálæti hans á stíl Norðmannsins gæti skotið svo sem einni grannri stoð undir þá kenningu að Aðventa hafi höfðað svo sterkt til hans að gamall maður og haf varð til. En fleiri höfunda má nefna, Gunnar náttúrlega, Halldór Laxness, William Heinesen, Martin A. Hansen. En hvaðan kemur þessi stíll, hversvegna laðast norrænir höfundar að honum, er það sambland af veðráttu og birtu, löngum, dimmum vetrum og sumarnóttum svo björtum að þær eira engu? Draumlynt raunsæi, ljóðræn frásögn, hljóðlát í eðli sínu en rúmar engu að síður ópið sem Munch fangaði á strigann, æðruleysi sem er einskonar kæruleysi, líklega sprottið af þunglyndi; það ríkir ekki myrkur í þessum stíl, en heldur ekki birta, kannski húm.

Það er unaður að lesa Aðventu á dönsku, frummálinu, og með ólíkindum hversu vel Magnús Ásgeirsson nær að þýða stemninguna sem svo erfitt er að lýsa, en svo auðvelt að njóta. Ég ætla ekkert að flækja málin; þýðing Magnúsar er betri en þýðing Gunnars sjálfs, trúrri frumtextanum, hún er mýkri og einfaldari, hér er bara rúm fyrir eitt lítið dæmi, fyrst danskan:

Henover dem skrider Natten.

Þýðing Magnúsar:

Uppi yfir þeim heldur nóttin leiðar sinnar.

Gunnars:

Uppi yfir þeim halda reikihnettir líðandi stundar að vanda leiðar sinnar.

Eitt af því sem situr sterkan svip á Aðventu , hér má sannarlega bæta Fjallkirkjunni við, er lýsing Gunnars á veðurfari, ég man varla eftir að hafa lesið jafn, hvað skal segja; sterkar, sannferðugar lýsingar á óveðrum eins og hjá Gunnari - nema hjá Joseph Conrad. Mér verður ósjaldan hugsað til Gunnars þegar ég er staddur í bókum Conrads og hann byrjar að lýsa ofsanum sem býr í veðrum úthafsins, og síðan hugsa ég til Conrads þegar Gunnar upphefur lýsingar á veðrum fjallanna. Báðir komast þeir svo nálægt manni með þessum ofsafengnu náttúruöflum, að maður hniprar sig ósjálfrátt saman, og það eru kannski eðlislæg viðbrögð andspænis öflum sem við ráðum ekki neitt við, eitthvað í dýpstu afkimum minnisins skipar manni að hnipra sig saman, gera sig lítinn, verða aftur að litlu spendýri, hniprandi sig í holunni þegar eitthvað óviðráðanlega stórt nálgast, risaeðla eða loftsteinn. Er ekki skyldleiki með Gunnari og Conrad, og ég á þá ekki bara við einstaka hæfni þeirra í veðurlýsingum? Gunnar er Íslendingur sem skrifar á dönsku, mál sem hann lærir fyrst kominn yfir unglingsár; Conrad Pólverji sem skrifar á ensku, mál sem hann lærir fyrst kominn yfir unglingsár. Báðir þekktir fyrir tök sín á málinu, fara þar framúr flestum innfæddum höfundum, báðir heimspekilega þenkjandi og leggja mikið uppúr byggingu sagna sinna, skáldsagnahöfundar par exelence. Gunnar hefur án efa þekkt til Conrads, flestar bækur Pólverjans komnar út í danskri þýðingu þegar Gunnar stígur á land í Danmerku, hugsanlega til þess að sigra heiminn.

Um djúprættan kunnugleika

Benedikt á ferð með hundi og hrút, það eru hans félagar. Frásögn þar sem maður er einsamall á ferð, síðu eftir síðu, og í ofan á lag ekki með hugann fullan af visku fornalda, eins og Aschenbach í Dauðanum í Feneyjum , viska sem reynist að sjálfsögðu haldlítil andspænis ofbeldi tilfinningana, heldur maður eins og Benedikt sem veit fátt um gríska guði, sýnu minna um þýska heimspekinga, hefur þó sannarlega lent í ofbeldi tilfinninga eins og Aschenbach, en unnið sinn sigur; höfundur með slíkan karekter þarf að leysa ýmis tæknileg vandamál. Því hvernig, ef söguhöfundur vill ekki sífelt vera sjálfur með orðið, á að fylla síðurnar af orðum og atvikum, með hvaða hætti á að skapa hreyfingu og líf kringum Benedikt sem þrammar, fyrst upp úr sveitinni, síðan einsamall um öræfin, stundum mannhatursfull? Fátt er jafn djöfullegt fyrir höfunda, og fátt er jafn gott, og vandamál, þau gefa þeim tækifæri að koma með snjalla lausn, því eitt er að hafa hund og hrút í föruneyti, allt annað að gefa þeim jafn skýr, persónuleg einkenni og Leó og Eitill hafa. Maður gleymir því yfirleitt að þarna eru maður og dýr á ferð, í huga manns eru þeir þrír félagar, ekki maður og dýr. Eitill alvarlegur, með þungt skap, en traustur, harður, Leó hálfgerður gosi en ómissandi þegar á reynir. Leó er eiginlega senuþjófur bókarinnar, Gunnar skýtur inn hálfri setningu hér og þar, einfaldar athugasemdir um hund en samt einhvernveginn þannig að lesandinn skælbrosir og finnst um stund að veröldin sé býsna skemmtileg. Gunnar tekur raunar í bláupphafi sögunnar allan vafa af að þeir séu fyrst og síðast félagar, ekki maður og dýr, og gerir það á þann hátt að maður skynjar til botns að milli þeirra þriggja liggja þesskonar þræðir sem gerir lífið dýrmætt, heiminn að stað sem vert er að búa í:

Þessir þrír höfðu nú um nokkurt árabil verið óaðskiljanlegir, þegar um slíka leiðangra var að ræða, og þekktu nú orðið hver annan út í æsar, með þeim djúprætta kunnugleika, sem ef til vill tekst aðeins milli alveg fjarskyldra dýrategunda, þar sem enginn skuggi eigin sjálfsveru, eigin blóðs, eigin óska eða fýsna, villir um né veldur myrkvun.

Þessi lýsing á sambandi Benedikts, Leó og Eitils er jafnframt ágætis dæmi um hvernig Gunnar víkkar út heim bókarinnar, einfaldir hlutir fá almenna, mér liggur við að segja altæka skrírskotun, við erum ekki bara með frásögn af atvikum, atburðum, heldur líka vangaveltur um lífið sjálft, um innsta eðlið. Hér er svo annað dæmi, Benedikt er kominn að Botni á sínum fyrsta degi, öll ferðin eftir. Botn er efsti bærinn, sveitin fyrir neðan, sjálf öræfin fyrir ofan, hann er því á einskonar landamærum, og í þessu stutta broti rúmast ekki bara ljóðræn heimspeki, heldur líka hárfín og dramatísk lýsing á þeim reginmun að vera á meðal manna og uppi á öræfum; lesandinn skynjar hvað bíður Benedikts:

Menn, sem eru á gangi í myrkri, missa svo undarlega hver af öðrum. Þó er einvera manns í myrkri frábrugðin einveru á fjöllum, hérna niðri í byggðinni, er hún ekki eins alger; maður heyrir ennþá aðrar raddir en sína eigin, finnur andardrætti í nánd, hinn djúpa tómleika utan úr geimnum og neðan frá grunni grjótsins leggur ekki ennþá eins og ískulda um hársræturnar.

Frjósemin í höfði lesandans

Aðventa hefur verið túlkuð á ýmsa vegu. "Þetta er stórkostlegt vetrarljóð", skrifaði Jakob Jóh. Smári í ritdómi árið 1938, og heldur "athyglinni vakandi, þó að efnið sé í raun og veru ekki mikið". Matthías Johannessen segir að rauði þráðurinn í verkum Gunnars hafi verið staða mannsins í tilverunni, að "vera ábyrgur, leita sannleikans og kjarna tilverunnar, reyna að skilja stöðu mannsins - þá glímu hefur Gunnar Gunnarsson háð í öllum verkum sínum..." Það skal játað að stundum hefur mér þótt að sú glíma hafi gert skáldskapinn óþarflega þungan í vöfum, jafnvel heft Gunnar sem skapandi höfund, varnað honum þess að leita nýrra leiða í forminu, eins og hann hafi gleymt því að leitin að skáldskapnum og leitin að sannleikanum sé eitt og hið sama, ef ekki sami handleggur, þá sami líkami. Eða eins og stendur á einum stað: "það er ekki hollt fyrir höfund að hugsa of mikið, látum heimspekingum það eftir." Þetta á að sjálfsögðu ekki við hans bestu verk, Svartfugl prýðis dæmi þar um, dimm og alvarleg bók, hin þunga leit að sannleikanum hrífur mann með sér, eins og dimmt fljót. Svartfugl hefur lengi verið lesin í skólakerfinu, jafnvel þótt hún sé ekki hentugur inngangur að verkum Gunnars fyrir ómótaða lesendur, eða hversvegna lesa framhaldsskólanemar ekki upphafið að Fjallkirkjunni ; fyrsta eða annan hlutann af Skipi heiðríkjunnar , stórkostlegt verk þar sem saman fer leikur og sársauki - ljóðrænn frásagnarflaumur sem Halldór Laxness þýddi svo afbragðsvel fyrir okkur?

Það býr margt í verkum Gunnars, þau eru djúp og leita á mann við ólíkustu tækifæri, tilsvör og persónur, jafnvel heilu bækurnar; nýverið talaði ég við skáld sem sagðist iðulega vera hugsað til Sælir eru einfaldir þegar fuglaflensu ber á góma, eins og sú hugstæða bók væri hreinlega lýsing á þeim heimsfaraldri sem hugsanlega biði okkar. Margræður er Gunnar, og Aðventa hefur líka verið lesið á ýmsa vegu, sumir hafa gengið og fullyrt að Gunnar hafi markvisst ofið ævi og boðskap Krists inn í söguna, að líta eigi á för Benedikts sem sviðsetningu á ævi og boðskap Krists. Það eru engin ný sannindi að Gunnar Gunnarsson hafi talsvert hugsað um Krist og biblíuna; Sælir eru einfaldir gerist á sjö dögum og vísar það auðvitað í sköpunarsöguna, "söguhetjur kreppusagnanna bera mörg Kristseinkenni," skrifaði Matthías Viðar, en Sælir eru einfaldir telst til þeirra, og vissulega verður manni hugsað til Krists og hans boðskapar við lestur á Aðventu . Benedikt er fábrotinn alþýðumaður, en það er nú eitt að vera fábrotinn, allt annað að vera einfaldur; sumir myndu segja að Benedikt væri með háa náttúru -og tilfinningagreind, afskaplega næmur á náttúruna, dýrin, þekkir stráið í sumarmóanum jafnvel og vetrarofsann uppi á öræfum, manneskja sem af innsta eðli skilur kjarnann í boðskap Krists. Benedikt hefur þann sjaldgæfa eiginleika að þekkja tæpast hismið, veit hreinlega ekki af því, kjarninn í boðskapnum blasir einfaldlega við honum. Það fara aftur á móti viðvörunarbjöllur af stað í kollinum mínum þegar Benedikt er lýst sem Kristgervingi, og að Aðventa sé helgisögn. Ég skil vel að sumum þyki freistandi að túlka hana þannig, Gunnar vísar ósjaldan, beint eða óbeint, í biblíuna, enda er hún Benedikt töm, hans húslestur, hvað þá á þessum árstíma, sjálfri aðventunni, en það er mjög vafasamt að gera þær vísanir að höfuðatriði, útgangspunkti sögunnar. Bók sem fær það orð á sig að vera nútíma helgisögn, sviðsetning á ævi Krists, á það á hættu að stirðna í hugum lesenda, það er girt fyrir aðrar túlkunarleiðir og sem verra er: bókin verður ekki lengur lesin á sínum forsendum, forsendum skáldskaparins. Lesendinn klæðir sig í kirkjuföt og les af auðmýkt þiggjandans, en þannig má aldrei umgangast skáldsakap sem byggir framhaldslíf sitt á frjóseminni í höfði lesandans.

Höfundur er rithöfundur.