Borgar Þór Einarsson (t.v.) afhenti öðrum hinna nýju ritstjóra DV, Páli Baldvin Baldvinssyni, undirskriftalistann í gær. 32.044 skrifuðu undir áskorunina um að breyta ritstjórnarstefnu DV, en söfnunin stóð í 48 klukkutíma.
Borgar Þór Einarsson (t.v.) afhenti öðrum hinna nýju ritstjóra DV, Páli Baldvin Baldvinssyni, undirskriftalistann í gær. 32.044 skrifuðu undir áskorunina um að breyta ritstjórnarstefnu DV, en söfnunin stóð í 48 klukkutíma. — Morgunblaðið/Þorkell
ANNAR nýrra ritstjóra DV tók í gær á móti lista með nöfnum 32.044 manna sem skrifað hafa undir áskorun til blaðamanna og ritstjóra DV um að endurskoða ritstjórnarstefnu sína og sýna ábyrgð og virðingu í umfjöllun um menn og viðkvæm málefni.

ANNAR nýrra ritstjóra DV tók í gær á móti lista með nöfnum 32.044 manna sem skrifað hafa undir áskorun til blaðamanna og ritstjóra DV um að endurskoða ritstjórnarstefnu sína og sýna ábyrgð og virðingu í umfjöllun um menn og viðkvæm málefni. Borgar Þór Einarsson, einn þeirra sem stóðu að undirskriftasöfnuninni, sagði í samtali við Morgunblaðið að skilaboðin gætu vart verið skýrari og það hlyti að bíða nýrra ritstjóra DV að bregðast við þessari áskorun svo stórs hluta þjóðarinnar.

Að undirskriftasöfnuninni stóðu deiglan.com, Samband ungra sjálfstæðismanna, Ungir jafnaðarmenn, Stúdentaráð HÍ, múrinn.is, Samband ungra framsóknarmanna, tíkin.is, Ung frjálslynd, Heimdallur, Ung vinstri græn, Vaka, Röskva og H-listinn. Vefritið deiglan.com annaðist framkvæmdina. Hún hófst kl. 11 að morgni miðvikudagsins 11. janúar og stóð í 48 tíma.

Borgar Þór Einarsson sagði að áskorunin um að ritstjórnarstefnu DV verði breytt ætti ekki síður við nú þegar ritstjóraskipti hefðu orðið á blaðinu. Blaðið gæti ekki skotist undan ábyrgð með því að ritstjórarnir tveir sem stýrt hefðu blaðinu undanfarið hættu störfum, hinir nýju ritstjórar hlytu að taka mark á þeim skilaboðum sem fælust í undirskriftasöfnuninni.