14. janúar 2006 | Menningarblað/Lesbók | 2726 orð | 1 mynd

Eftir Úlfhildi Dagsdóttur varulfur@centrum.is

Menningarvitinn logar ekki

Af formúlum, reyfurum og bókmenntagreinum

Kennimark flóðsins "Eitt árið var ár ungliðanna, annað var ár skáldsögunnar, já, það eru jafnvel til ár þar sem ljóðið hefur verið sérlega sterkt - þó það veki kannski ekki eins mikla athygli. Og árið 2005 var sumsé ár krimmans..."
Kennimark flóðsins "Eitt árið var ár ungliðanna, annað var ár skáldsögunnar, já, það eru jafnvel til ár þar sem ljóðið hefur verið sérlega sterkt - þó það veki kannski ekki eins mikla athygli. Og árið 2005 var sumsé ár krimmans..." — Morgunblaðið/Kristinn
Það er ekki of mikil umfjöllun um reyfara í íslenskum fjölmiðlum, það er hins vegar fullauðvelt að setja þá undir sama hatt og fordæma. Hér er brugðist við krimmaumræðunni í vetur, umræðunni um umræðuna og flóðinu sem margir virðast vera komnir með nóg af þótt vertíðarstemningin orki vel á suma.
Og þá er komið að menningarfréttum: rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir hefur fært sig milli bókaforlaga...bókaútgáfan Græna húsið hefur sent frá sér skáldsöguna Feigðarflan..." Sjáið þið fyrir ykkur menningarfréttaþul ríkissjónvarpsins? Sem fengi sitt slott í fréttatímanum, á undan eða eftir íþróttafréttum?

Alltaf annað slagið stingur upp kollinum umræða um menningu sem fréttir. Af hverju, hafa margir spurt sig í áraraðir, er hluti fréttatíma í sjónvarpi og útvarpi ekki lagður undir fréttir af menningu rétt eins og íþróttir fá sitt eigið slott? Kastljósið nýja hefur endurvakið þessa umræðu en þar er hlutur menningarefnis sláandi lítill, og það þó eini menningarþáttur ríkissjónvarpsins hafi verið felldur inní ljósið. Þetta eru spurningar sem eðlilega brenna á sjálfskipuðum menningarvita eins og sjálfri mér, sem hef helgað meirihluta ævi minnar menningu og umfjöllun um hana - þó ekki sé neinn starfslokasamningur í augsýn - og þar af legg ég ríflega tvo mánuði hvers árs undir lestur og skriftir um bækur, nánar tiltekið jólabækurnar margfrægu. Fyrir mér eru næstum dagleg tíðindi á ferð þessa tvo mánuði, áhugaverð ljóðabók, nýr og spennandi erlendur höfundur, falleg skáldsaga, önnur sem er vonbrigði, glæsileg sveifla hjá nýliða; fullt af fýsilegum reyfurum. Og það eru reyfarar sem hér eru til umræðu. Því fyrir þessi jól voru þeir fréttir og í fréttum, spennusagnasprengja, glæpasagnaflóð; íslenska glæpasagan búin að sanna sig. Sem bókmenntafræðingur gleðst ég yfir öllum fréttum af bókum sem ekki hefjast á dómsdagsorðunum: "Bóklestur dregst enn saman..." og sem bókaverja get ég ekki annað en verið ánægð með þessa athygli sem glæpasagan fékk, því ég veit af reynslu að slík athygli dregur að sér nýja lesendur og að þeir lesendur koma síðan flestir til með að halda sínum lestri áfram, yfirleitt á breiddina.

Afrituð nægjusemi

Þó menningarfréttir séu ekki enn fluttar í fréttatímum RÚV er ávallt nokkur umfjöllun um menningu í dagblöðunum, auk þess sem Rás 1 sinnir menningarefni af alúð. Og þó ég hafi vissulega tekið eftir því að fjöldi krimma taldist fréttnæmur, þá finnst mér ekki hægt að segja að krimmaárið hafi fengið einhverja brjálæðislega athygli menningarfréttaritara, staðreyndin er einfaldlega sú að hvert ár er einhver merkimiði settur á jólabókaflóðið, en þó rithöfundar, gagnrýnendur sem og bókaútgefendur séu orðnir dauðleiðir á fyrirbærinu "jólabókaflóð" virðist ekki hægt að skola þessum óvætti á brott og því halda gallarnir sem fylgja "vertíð" af þessu tagi áfram að gera vart við sig. Og einn af þeim er semsagt tilhneygingin til að eyrnamerkja tiltekin ár (kannski gamall landbúnaðararfur?) hinum og þessum höfundum, bókum eða bókmenntagreinum. Sjálf er ég dauðsek um þetta í árlegum yfirlitsgreinum sem ég skrifa fyrir tímarit norrænu ráðherranefndarinnar Nordisk Tidskrift, enda óþægilega auðvelt að búa til flokka og leggja línur þegar svo mikið magn bóka er lesið í einum rykk. Það einfaldlega fer ekki hjá því, sérstaklega í hinu smáa íslenska samfélagi, að kona sjái mynstur myndast og því verður freistandi að leggja áherslur á það sem er sameiginlegt frekar en það sem skilur að. Eitt árið var ár ungliðanna, annað var ár skáldsögunnar, já, það eru jafnvel til ár þar sem ljóðið hefur verið sérlega sterkt - þó það veki kannski ekki eins mikla athygli.

Og árið 2005 var sumsé ár krimmans, en í þessu flóði telst mér til að einir tíu íslenskir reyfarar hafi litið dagsins ljós - talan er dálítið mismunandi eftir því hver telur og hvernig. Nú vill svo til að þessi tala er fréttnæm, það er vissulega fréttnæmt að heill tugur frumsaminna reyfara á íslensku hafi komið út, sérstaklega í ljósi þess að það er ekki liðinn áratugur síðan íslenska glæpasagan kom undir sig fótunum með fyrstu skáldsögum Arnaldar Indriðasonar og Stellu Blómkvist (1997). Og já, þetta árið birtust bæði nýliðar og eldri kappar, sumir sneru meira að segja aftur eftir hlé.

Ekki man ég eftir neinum sérstökum mótmælum þegar árið 2002 var kennt við nýliða, en það stóð ekki á viðbrögðunum við ári krimmans. Fyrst í almennu tali með tilheyrandi samsæriskenningum um að nú vildu allir Arnald kveðið hafa og að óprúttnir væru að koma sér á framfæri með því að stökkva um borð í glæpalestina, síðan birtust greinar í Morgunblaðinu eftir þrjá menningarvita, Friðrik Rafnsson (3.12.2005), Þröst Helgason (Lesbók 24.12.2005) og Sigurð Gylfa Magnússon (Lesbók 31.12.2005) (en sá síðastnefndi vísar stuttlega til "glæpabókaæðis" í grein sinni). Friðrik var sýnu neikvæðastur þessara, og var grein Þrastar að nokkru leyti svar við henni, enda voru þar höfð stór orð um reyfarabókmenntir og afþreyingu og hlut þessara fyrirbæra í fjölmiðlum og samfélagi.

Enda þótt Þröstur hafi brugðist við ýmsu í grein Friðriks, standa þar nokkur atriði eftir sem ég álít fulla ástæðu til að taka til frekari umfjöllunar. Friðrik nefnir grein sína "Af bókmenntalegri nægjusemi" sem strax gefur tóninn fyrir álit hans á íslenskum reyfurum og neytendum þeirra. Hann fullyrðir að öll umræða um jólabókaflóðið snúist um spennubækurnar (sem, eins og Þröstur bendir á, er einfaldlega rangt) og bætir því við að upphefð glæpasagna virðist höfð til merkis um að nú séu Íslendingar orðnir "þjóð meðal þjóða, það sé gríðarlegt menningarlegt framfaraskref að hér sé farið að skrifa sæmilega læsilega krimma". Það er ljóst að Friðrik er ekki á þeirri skoðun að hér sé um framfaraskref að ræða en ég get ómögulega verið sammála honum; ég álít einmitt að það hafi verið mikill atburður í íslenskri menningu og íslensku bókmenntalífi þegar íslenskir reyfarar fóru að öðlast aukna viðurkenningu (svo ekki sé talað um viðurkenninguna erlendis, en það er efni í aðra grein sem hefur þegar verið skrifuð, líka í Morgunblaðið, 22.12.2005, um krimmann í fararbroddi útrásar!). Skoðun mín byggist á þeirri bjargföstu trú að afþreyingarmenning sé órjúfanlegur þáttur allrar menningar, hún ekki aðeins auðgar menningu heldur gefur neytendum menningar tækifæri til aukinnar fjölbreytni í neyslu sinni, auk þess, og þetta ætti Friðriki að líka, að hún skerpir oft og tíðum bragð hinnar fagurfræðilegu framleiðslu. Afþreyingarmenning tryggir semsagt ekki aðeins, með öðrum orðum, fjölbreytni í menningarframleiðslu, heldur tryggir hún einnig að neytendur menningar beri skynbragð á þá kryddflóru sem menningarlandslagið býður uppá. Þannig opnaði íslenska glæpasagan fyrir aukna meðvitund um að bækur eru ekki allar eins, það er, hátimbraðar fagurbókmenntir, heldur eru til allskonar bækur, til dæmis meginstraums metsölubækur (Ólafur Jóhann Ólafsson) og reyfarar (Birgitta H. Halldórsdóttir, Snjólaug Bragadóttir sem var endurútgefin á þessu ári). Þetta hefur síðan augðað bókmenntaflóruna, því nú eru farnar að birtast ýmiskonar "bókmenntagreinabækur" (til dæmis hrollvekjur og "sensationalískar" sögur) sem ekki falla auðveldlega að hefðbundnum kanónískum skilgreiningum fagurmenningar. Enn má nefna mikilvægi þess að rækta innlenda afþreyingarmenningu í stað þess að flytja hana stöðugt inn (þó vissulega sé slíkur innflutningur ekki endilega alltaf slæmur), með því styrkjum við innlenda framleiðslu og fáum í hendur efni sem kemur okkur beinlínis við, fjallar um og er sprottið uppúr okkar menningarsögu og samfélagi. Dæmi um vel heppnaðar íslenskar afþreyingarafurðir eru ólík fyrirbæri eins og Spaugstofan og Njálumyndasögur þeirra Emblu Ýrr Bárudóttur og Ingólfs Arnar Björgvinssonar. Auk þess olli uppgangur íslensku glæpasögunnar því að ýmsir góðir lesendur gátu komið út úr skápnum, ef svo má segja, sem unnendur afþreyingarbókmennta, og þurftu ekki lengur að búa við fordóma gagnvart áhugamálum sínum. Og þau, eins og Halldór Guðmundsson bendir á í grein sinni "Raufarasögur" (Fréttablaðið 4.12.2005) eru ekki aðeins spurning um ánægju heldur nauðsynlega hvíld frá amstri dagsins, því spennusögur eru (í félagi við hrollvekjur sem ekki allir bera gæfu til að hafa smekk fyrir) besta stress-terapían sem hugsast getur, eða eins og Halldór segir: "vel til þess fallnar að þreytt vinnandi fólk geti hvílt heilann nokkur augnablik undir svefninn".

Að nema lönd

Það sem Friðriki er greinilega hvað verst við er formúlan, "afritunin" og "útvötnunin". Hann ber glæpasagnabylgjuna saman við innkeyptar formúlur sjónvarpsþátta á við Idol og Bachelor og fullyrðir að afþreyingarbækur hafi "sáralítið bókmenntagildi, þær nema engin ný lönd á sviði skáldsögunnar og eru sennilega dæmdar til gleymsku skömmu upp úr áramótum". Þú ættir að koma við á bókasafninu Friðrik segi ég bara, því þar gleymast sko glæpasögurnar ekki dyggum lesendum sem hafa í áraraðir beðið eftir því að hitta einn daginn í hillu; Mýrina, Engin spor, Morðið í Hæstarétti... En hér er á tvennt annað að líta; annars vegar spurninguna um formúlu og hinsvegar spurninguna um bókmenntalegt gildi.

Byrjum á þessu með formúluna, svona til að halda stígandinni í frásagnarformúlu greinar Friðriks (sem er sjálf hluti af formúlu bókaársins, en viðbragð af þessu tagi var algerlega óhjákvæmileg uppákoma í sögunni af jólabókaflóðinu og krimmaárinu).

Fordæming á formúlum er kunnugleg, þó ekki hafi hún tilheyrt bókmenntaumræðu frá aldaöðli: lengi vel þóttu formúlur nebbla nauðsynlegar góðum bókmenntum. En svo reis upp "frumleikinn" og formúlur urðu "out". Jájájá gamlar fréttir og sömuleiðis þær að leikrit Shakespeares hafi verið formúluafþreying síns tíma, skáldsögur Jane Austen sömuleiðis, svo ekki sé talað um Charles Dickens og Íslendingasögurnar. Í dag njótum við safaríks texta þessara verka og lítum framhjá frásagnarformúlum þeirra, dáumst að pólítískum átökum og gleymum þeim pólitískum átakamálum sem ekki komust að í þessum verkum. Ég verð að viðurkenna að ég sé formúlur hvert sem ég lít, hvort sem það er til verka Dostojevskýs (allir með óráð og hitasótt), Gyrðis (fortíðarþrá, molnandi bækur), Hallgríms Helgasonar (linnulausir orðaleikir), Kundera (lífið er annarsstaðar...) eða Margaret Atwood (staða kvenna), svo ekki sé talað um formúlur af annari stærðargráðu eins og til dæmis "þroskasaga ungs manns" eða "fjölskyldusagan" sem er landlæg í íslenskum bókmenntum. Þessar formúlur lúta nákvæmlega sömu lögmálum og formúlur afþreyingarinnar, í sumum tilfellum eru þær vel útfærðar, það er unnið með þær á áhugaverðan hátt, í öðrum tilfellum ekki. Þessi umræða um formúluna hefur verið stórt átakmál innan menningarfræðinnar og hefur fræðifólk til dæmis bent á að þrátt fyrir að formúlunni sjálfri sé haldið til haga og þarmeð þeirri íhaldsemi sem í henni býr (sbr. óreiða brýst fram í samfélaginu, hetja birtist og kemur öllu á réttan kjöl, stöðugleiki ríkir á ný), þá sé óþarfi að líta svo á að þarmeð sé túlkun verksins lokið. Því meginhluti sögunnar getur verið lagður undir óreiðuna og þó málinu sé lokið þá er það miðjan sem situr eftir. Gott dæmi um þetta er Vetrarborg Arnaldar Indriðasonar sem fjallar um kynþáttavandamál fjölmenningarsamfélagsins, en þrátt fyrir að glæpamálið leysist þá er sjálft "málið" óleyst, málið sem gengur útá brotalamir í íslensku samfélagi. Formúla er því ekkert einfalt mál og hreinlega fáránlegt að slá öllu formúlukenndu efni saman í einn hrauk og fordæma í einni svipan. Sú hugsun birtist einmitt í grein Sigurðar Gylfa Magnússonar, þarsem hann fordæmir "bónusvæðingu" íslenskra bókmennta með því að kenna hana við "glæpabókaæði" og er þar að fjalla um átök á íslenskum markaði í jólabókaflóðinu, en þar sökkva sumar bækur meðan aðrar fljóta. Minnir þessi fordæming Sigurðar Gylfa nokkuð á "kellingabóka" umræðuna, en þar var á sama hátt fundið neikvætt orð (kelling, glæpabækur) til að fordæma tiltekin fyrirbæri á einu bretti.

Slík fordæming afhjúpar fátt annað en vanþekkingu þeirra sem hana stunda, en allir þeir fjölmörgu sem lesa "formúlubækur" (eða neyta annars formúluefnis) vita að það er vinnan með formúluna sem skapar ánægju lesandans, en sú vinna felst í sífelldu samspili hins kunnuglega - formúlunnar - og nosturslegra blæbrigða í meðferð hennar. Með þessu er ég heldur ekki að halda því fram að allar afþreyingarbókmenntir (eða öll afþreyingarmenning) sé "góð", heldur geri ég kröfu til að menningarvitar átti sig á og viðurkenni að innan afþreyingarmenningar er einnig til gæðamat og fagurfræði, og að þar ríkir stigveldi, alveg eins og það sem ríkir milli afþreyingar og fagurmenningar. Ekki er ég heldur að halda því fram að leggja beri að jöfnu afþreyingarbókmenntir og fagurbókmenntir, lágmenningu og hámenningu, heldur ætlast ég til að hvort fyrirbærið um sig sé metið útfrá eigin forsendum, innan síns ramma - líkt og við metum fagurbókmenntir jólabókaflóðsins útfrá öðrum fagurbókmenntum, þá þurfum við að meta reyfara útfrá öðrum afþreyingarafurðum. Þetta er algert grundvallaratriði.

Og er ég þá loksins komin að bókmenntalegu gildi. Líkt og með formúluna er spurningin um bókmenntalegt gildi risastórt og margslungið mál. Í hverju felst bókmenntalegt gildi? Ég myndi vilja nefna hér notagildi bókarinnar til sögunnar, líkt og komið var að með terapískt hlutverk reyfarans, en einnig má nefna fagurfræðilegt gildi, sem er það sem Friðrik hefur að leiðarljósi, og samfélagslegt eða pólitískt gildi, sem er það gildi sem skiptir mestu máli fyrir umræðu um glæpasögur. Fagurfræðilega gildið er það sem Friðrik álítur ekki til staðar í spennusögunni, en eins og Þröstur bendir á er slíkt viðhorf varhugavert, því fagurfræðilegt bókmenntagildi þessara bókmennta er meðal annars fólgið "í því að þær hafa endurvakið hefð raunsæis". Út af fyrir sig er þetta nóg, en einnig mætti benda á að ýmislegt í frásagnartækni glæpasögunnar - sem er í stöðugri þróun - hefur haft mikil áhrif á fagurbókmenntir, uppbygging fléttu og frásagnar, til dæmis, auk þess sem stílbrögð reyfarans, hraði og æsingur, eða knappur og kaldranalegur stíll, hefur haft áhrif á ýmsa og ólíka höfunda, allt frá Haruki Murakami og Chuck Palahniuk til Umberto Eco og Angelu Carter. Samfélagslega hlutverkið er hinsvegar öllu ríkara og augljósara og þar liggur meginþungi bókmenntalegs framlags glæpasögunnar. Fyrir utan að taka á ýmsum málum beint, eins og Þröstur rekur, er til dæmis eftirtektarvert að skoða hvernig reyfarahöfundar virðast hafa lagst á eitt á síðasta ári við að flétta útlendinga inn í sögur sínar. Vetrarborg Arnaldar fjallar um taílenska fjölskyldu, í Aftureldingu Viktors Arnars er víetnamskur lögreglumaður í aðalhlutverki, Ævar Örn gerir kjör erlendra verkamanna að umtalsefni í Blóðbergi, filippínskar hreingerningakonur koma við sögu í Þriðja tákni Yrsu Sigurðardóttur, kúrdísk kona er myrt í sögu Stellu Blómkvist, og í Krosstré Jóns Halls Stefánssonar verður japanskur leigumorðingi fyrir einskonar uppljómun þegar hann bjargar dreng af asískum uppruna frá drukknun. Þó hluti útlendinga sé mismikill í þessum sögum þá er í öllum föllum gerð markviss tilraun til að gera nærveru fjölmenningarsamfélagsins sýnilega, Viktor Arnar, Jón Hallur og Yrsa leggja sig fram um að sýna að fólk af erlendum uppruna er orðið sjálfsagður hluti af íslensku samfélagi, meðan Arnaldur, Ævar Örn og Stella gera meira í því að fjalla um stöðu þeirra.

Enn og aftur segi ég: þetta eru bókmenntaleg tíðindi, og þó ekki væri nema fyrir þetta munu þessar bækur ekki verða dæmdar til gleymsku nú á nýju bókaári.

Undanrennumræða

Ég hóf greinina á vangaveltum um fréttir af menningu og umræðu um menningu í fjölmiðlum, en lokapunkturinn í grein Friðriks gengur útá að bókmenntaumræðan hafi öll snúist um spennubókaflóðið og að slíkri umræðu þurfi að taka með fyrirvara, því hann dragi í efa að fólk vilji "undanrennu" frekar en "rjóma". Eins og ég hef áður sagt tek ég því með fyrirvara að fjölmiðlafólk hafi helgað sig undanrennu fremur en rjóma, því þó glæpasögurnar hafi vissulega vakið athygli þá gerðu aðrar skáldsögur það svo sannarlega líka. Þó ekki allar og, eins og margir hafa margoft bent á, verða ljóðin alltaf útundan. Það er vissulega vandamál sem fylgir vertíðum af þessu tagi að kastljós menningarumfjöllunarinnar nær ekki að lýsa allt upp, til þess er tíminn einfaldlega of naumur. En þetta er ekki krimmum að kenna, glæpurinn liggur annarsstaðar, hjá sjálfu fyrirbærinu "jólabókaflóð". Enn verð ég þó að gera fyrirvara: þó sjálf sé ég afar neikvæð útí jólabókaflóðið hefur reynsla mín sem bókaverja kennt mér að flóðið er hreinn gleðigjafi fyrir marga gesti safnsins sem koma reglulega og hirða hvaðeina nýtt sem þeir finna í hillum og lesa sér til ánægju, alsælir með allar þessar nýju bækur og þessa miklu og líflegu umræðu um þær - umræðu sem nóta bene fer ekki bara fram í fjölmiðlum heldur meðal almennings, hins almenna lesanda, úti í samfélaginu (og í sófum og skúmaskotum bókasafnsins). Þó þessi almenna umræða sé bæði mikilvæg og skemmtileg er það síðan auðvitað einnig nauðsynlegt að fjölmiðlaumræða um menningu sé vönduð og upplýsandi, gagnrýnin og taki til fjölbreyttra þátta menningarinnar, allir geta verið sammála um það. Hvað í þessu felst er síðan annað mál. Ég get til dæmis ekki annað en velt því fyrir mér hvort fjölmiðlaumfjöllun um afþreyingarmenningu sé ekki of einfölduð og bundin við vinsældir og sölutölur, sem gefi hinni sérstæðu fagurfræði reyfara ekki nægilega góðan gaum. Er ekki málið að það vanti vandaðari umfjöllun um dægurmenningu? Því afþreyingin er, og það er best að ítreka þetta, stór og mikilvægur hluti af daglegu lífi fjölda fólks. Og skrif Friðriks benda til þess að þó vinsældir spennusagna séu miklar þá sé skilningur á hlutverki þeirra, gæðum og gildum takmarkaður. Vandamálið er því að mínu mati ekki ofgnótt umfjöllunar um krimma, heldur það hversu auðvelt það virðist vera að gangast inná formúlu bókmenntastofnunarinnar og fella þá alla undir sama hatt, fordæma og afgreiða sem undanrennu.

Höfundur er bókmenntafræðingur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.