15. janúar 2006 | Innlent - greinar | 1004 orð | 2 myndir

Við eigum val um öðruvísi veröld

"Veröld okkar er ekki til sölu" stendur á borða á fundi World Social Forum í Bombay á Indlandi fyrir tveimur árum. Í þessari viku hefst fundur WSF í Malí.
"Veröld okkar er ekki til sölu" stendur á borða á fundi World Social Forum í Bombay á Indlandi fyrir tveimur árum. Í þessari viku hefst fundur WSF í Malí. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tugþúsundir flykkjast nú til Malí í V-Afríku til að taka þátt í World Social Forum sem haldið verður dagana 19.-23. janúar nk.
Tugþúsundir flykkjast nú til Malí í V-Afríku til að taka þátt í World Social Forum sem haldið verður dagana 19.-23. janúar nk. Halla Gunnarsdóttir rekur hér sögu þessarar heimssamkomu verkalýðs- og grasrótarhreyfinga en hún er stödd í Malí ásamt Alistair Inga Gretarssyni til að fylgjast með því sem fram fer.

Þegar helstu viðskiptajöfrar heimsins, stjórnmálamenn og sérfræðingar með ólíka titla koma saman í Davos í Sviss til að ræða og leggja línurnar varðandi hina efnahagslegu hnattvæðingu hittast andstæðingar þessa sama fyrirbæris á öllu óformlegri fundum, bera saman bækur sínar og samhæfa aðgerðir.

Fundur þeirra fyrrnefndu kallast World Economic Forum (WEF) sem hefur verið þýtt sem heimsviðskiptaráðstefnan en þeirra síðarnefndu World Social Forum (WSF) sem má ef til vill þýða sem félagslega heimsráðstefnu eða samræðuvettvang félagshreyfinga í heiminum.

World Social Forum á að hluta til rót sína í hreyfingu sem hefur verið kennd við andstöðu gegn hnattvæðingu (Anti-globalization Movement) en kýs yfirleitt sjálf að kalla sig alþjóðlega réttlætishreyfingu.

Stór mótmæli við fund Heimsviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization) í Seattle árið 1999 eru oft talin marka upphaf þessarar andspyrnuhreyfingar þótt raunar megi rekja hana mun lengra aftur. Mótmælin í Seattle urðu til þess að fresta þurfti fundi Heimsviðskiptastofnunarinnar en það sem gerði þau merkileg var að þarna komu saman mótmælendur frá ólíkum löndum, frá ólíkum hreyfingum og með ólík markmið. Það eina sem þeir áttu sameiginlegt var andúðin á kapítalismanum í hnattvæðingunni.

Frá mótmælunum í Seattle hefur orðið sífellt erfiðara fyrir helstu ráðamenn efnahagslífsins og pólitískra leiðtoga að funda án þess að hafa mikinn viðbúnað og oft skerst í odda milli mótmælenda og lögreglu.

Fyrsta samkoma World Social Forum var haldin árið 2001 í Porto Alegre í Brasilíu. Tímasetningin var engin tilviljun; einmitt á sama tíma og fundur World Economic Forum í Sviss. Það voru brasilísk félagasamtök sem undirbjuggu ráðstefnuna en hún hefur síðan þá verið haldin þar í landi þrisvar og einu sinni á Indlandi. Í ár verður hún haldin í þremur löndum: Malí, Venesúela og Pakistan en ráðstefnunni í Pakistan hefur verið frestað um tvo mánuði vegna jarðskjálftanna fyrir skömmu. Þess í stað verður boðað til fundar þar sem sérstaklega verður fjallað um náttúruhamfarir, hlutverk stjórnvalda og alþjóðlegra afla, neyðarhjálp o.fl.

Vettvangur fremur en samtök

WSF eru ekki samtök í sjálfu sér heldur umræðuvettvangur félagshreyfinga og grasrótarhreyfinga alls staðar að úr heiminum sem eiga það sameiginlegt að vera mótfallnar nýfrjálshyggju og heimi sem er stjórnað af fjármagni eða hvers konar heimsvaldastefnu. Þetta er ekki einn fundur heldur mörg hundruð fundir þar sem vandi íbúa heimsins er ræddur. Fjallað er um ólík vandamál sem eru þó öll talin eiga rót sína í kapítalískri hnattvæðingu. Þarna eru umhverfisverndarsinnar sem hafa fylgst með stórfyrirtækjum flytja starfsemi sína til landa þar sem kröfur um umhverfisvernd eru vægari, verkalýðsfélög sem gagnrýna stórfyrirtæki og segja þau misnota ódýrt vinnuafl frá fátækum löndum og baráttufólk gegn fátækt sem fullyrðir að allra fátækasta fólkið verði út undan í hnattvæðingunni og tapi jafnvel á henni.

Árið 2001 tóku tíu þúsund manns þátt í WSF en talið er að fyrir ári síðan hafi þátttakendur verið vel á annað hundrað þúsund. Félagasamtök geta staðið fyrir fundum eða viðburðum en stjórnmálaflokkum og hernaðarlegum samtökum er meinuð þátttaka þótt einstaklingum sé frjálst að fylgjast með því sem fram fer. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytileika þeirra sem sækja WSF og þess vegna er lítið um sameiginlegar ályktanir þótt starfað sé eftir ákveðnum viðmiðum. Skipulag og framkvæmd er í höndum félagasamtaka. Sambærilegar samkomur eru síðan haldnar á smærri svæðum en sem dæmi má nefna að European Social Forum var síðast haldið í London 2004.

Misrétti samofið kapítalisma

Á WSF er unnið í mismunandi málaflokkum. Á einum stað er verið að ræða umhverfismál á meðan hópur fólks veltir fyrir sér samhenginu milli feðraveldis og nýfrjálshyggju. Kjörorð WSF eru: Við eigum val um öðruvísi veröld eða "Another world is possible" og virðing fyrir mannréttindum og jafnrétti er í forgrunni. Litið er svo á að hnattvæðingin sé á forsendum stórfyrirtækja sem séu síðan studd af ríkisstjórnum og alþjóðlegum stofnunum. Ójöfnuður kynja og kynþátta og ill meðferð á náttúrunni séu eyðileggjandi fylgifiskar kapítalismans.

Á WSF er lögð áhersla á raunverulegt lýðræði. Þess vegna talar engin einn einstaklingur í nafni ráðstefnunnar og engar ákvarðanir eru teknar sem gilda fyrir alla. Öllu valdi einnar manneskju yfir annarri er hafnað og beiting ofbeldis af hálfu ríkisins er fordæmd. WSF boðar ekki einn alheimssannleik. Á WSF eru hópar sem vilja að hnattvæðingunni sé stýrt í betri farveg, t.d. með alþjóðlegum stofnunum, en líka hópar sem vilja afturhvarf til tímans fyrir hnattvæðingu með sjálfbærum búskap. Mikið hefur verið tekist á um hvort stefna skuli að umbótum eða hreinni og beinni byltingu.

Gagnrýni á WSF

Þátttakendur í World Social Forum eru langt frá því að vera einsleitur hópur og tilraunir til að flokka hópa sem einmitt berjast gegn hvers kyns flokkun hafa fallið í grýttan jarðveg. Sumir fréttamiðlar hafa því miður látið í veðri vaka að þarna sé um einn hóp að ræða og fréttirnar hafa litast af þeirri tilhneigingu að setja samasemmerki milli mótmæla og óeirða.

Engu síður hefur World Social Forum fengið á sig gagnrýni úr öllum áttum. Bent hefur verið á að þarna sé aðeins verið að finna að nýfrjálshyggju en að engar raunverulegar tillögur til úrbóta séu lagðar fram. Hópar anarkista hafa mótmælt því að WSF geri tilraunir til að vera eins og miðstýrt bákn sem tekur ákvarðanir fyrir alla. Þeir sem eru hvað mest á móti ráðstefnunni hafa bent á að hin kapítalíska hnattvæðing sé eina leiðin til að berjast gegn fátækt í heiminum og hægrisinnaðir andstæðingar hnattvæðingar hafa gagnrýnt WSF fyrir að vera vinstri sinnaða samkomu sem rúmi ekki fleiri pólitísk sjónarmið.

Hvað sem öðru líður hefur þeim sem sækja WSF fjölgað ár frá ári sem bendir til þess að málstaðurinn sé að breiðast út og rödd þeirra sem hafna kapítalískri hnattvæðingu verður sífellt háværari. Það verður því spennandi að fylgjast með því sem þarna fer fram. WSF í Malí hefst 17. janúar og lýkur 23. en í Venesúela stendur samkoman yfir frá 24.-29. janúar.

Helstu heimildir

http://www.weforum.org

http://www.forumsocialmundial.org.br

http://www.fsmmali.org

http://notendur.centrum.is/~einarol/

http://www.wikipedia.org/

halla@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.