Anibal Cavaco Silva
Anibal Cavaco Silva
Lissabon. AFP, AP. | Anibal Cavaco Silva var í gær kjörinn forseti Portúgal en forsetakosningar voru haldnar í landinu um daginn.

Lissabon. AFP, AP. | Anibal Cavaco Silva var í gær kjörinn forseti Portúgal en forsetakosningar voru haldnar í landinu um daginn. Þegar búið var að telja næstum öll atkvæði í gærkvöldi var ljóst að Cavaco Silva hafði tryggt sér meirihluta atkvæða, hafði hlotið alls 50,6% allra greiddra atkvæða, sem þýðir að hann hlaut tilskilinn meirihluta til að ná kjöri strax í fyrstu umferð, en vaxandi líkur höfðu verið taldar á því fyrir helgi að önnur umferð myndi þurfa að fara fram.

Sigur Cavaco Silva merkir að hægrimaður verður forseti Portúgals í fyrsta skipti frá því að lýðræði komst á í landinu 1974. Fimm aðrir voru í framboði í forsetakosningunum, næstur á eftir Cavaco Silva kom sósíalistinn Manuel Alegre, þingmaður og þekkt skáld, með 20,7% atkvæða.

Cavaco Silva er 66 ára og var forsætisráðherra Portúgals á árunum 1985-1995 en í stjórnartíð hans ríkti umtalsverður og stöðugur hagvöxtur. Hann fór fram sem óháður í kosningunum nú en naut stuðnings Jafnaðarmannaflokksins, sem telst hægri flokkur í portúgölskum stjórnmálum.

Forseti Portúgals hefur lítil formleg völd en getur þó leyst upp þing, boðað þingkosningar og skipað forsætisráðherra á grundvelli kosningaúrslita.