Páll Valsson
Páll Valsson
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is ÍSLENSKA verður hvergi töluð eftir 100 ár, ef fram fer sem horfir. Þetta er mat Páls Valssonar útgáfustjóra hjá Eddu útgáfu hf.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

ÍSLENSKA verður hvergi töluð eftir 100 ár, ef fram fer sem horfir. Þetta er mat Páls Valssonar útgáfustjóra hjá Eddu útgáfu hf., en hann var meðal fyrirlesara á fjölsóttri ráðstefnu um stöðu málsins í Norræna húsinu í gær. Sagði Páll að sá vandi tungunnar sem t.a.m. Fjölnismenn stóðu frammi fyrir á sínum tíma væri dvergvaxinn í samanburði við þá hættu sem nú steðjar að tungunni.

Of mikil áhersla á smáatriði

Að mati Páls hefur of mikilli orku verið eytt í smáatriði á borð við það að leiðrétta þágufallssýki og amast við slettum á sama tíma og stökkbreyting sé að verða í þróun tungumálsins. "Sjálfar undirstöður tungumálsins eru að bresta. Beygingakerfið er í uppnámi og setningafræðilegur grundvöllur líka. Svo virðist sem tilfinning fólks fyrir uppbyggingu eðlilegra og einfaldra setninga sé á mjög hröðu undanhaldi," sagði Páll og benti á að kynslóðabilið í tungutaki væri meira nú en nokkru sinni og unglingar t.d. að einangrast í eigin málheimi. Þannig flytjist orðaforði og orðfæri ekki lengur milli kynslóða, sem sé, að mati Páls, stóralvarlegt ef fólk vilji halda íslenskunni lifandi.

"Lykillinn að allri okkar fortíð er tungumálið. Ef við missum það er slitinn þráður sem ekki verður hnýttur aftur. Það tjón er óafturkræft. En það er misskilningur að slíkt tjón sé einkamál okkar Íslendinga. Glatist íslenskan sem þjóðtunga hverfur um leið merkilegt framlag þessarar þjóðar til bókmennta og menningar heimsins. Og hvað er þá orðið okkar starf?"

Andri Snær Magnason gerði orð og merkingu þeirra að umtalsefni.

"Tungumál er ekki skraut, spurning um rétt mál eða rangt, heldur er það fyrst og fremst grundvöllur samskipta, farvegur minninga, reynslu og gilda. Tungumálið er mælikvarði á umhverfi og reynsluheim. Sá sem skilur ekki orð sem elsta kynslóðin notar hefur þar af leiðandi ekki átt samskipti við kynslóðina sem notar orðin. Hafi orð fallið úr gildi er líklegt að samhliða orðinu hafi þekking, reynsla og minning þeirra ekki flust milli kynslóða."