— Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engin önnur þjóð í Evrópu á fleiri tölvur og notar Internetið meira en Íslendingar, samkvæmt nýjum tölum um netnotkun sem kynntar voru á degi upplýsingatækninnar á Nordica hóteli í gær, UT-deginum sem stjórnvöld stóðu að ásamt Póst- og...
Engin önnur þjóð í Evrópu á fleiri tölvur og notar Internetið meira en Íslendingar, samkvæmt nýjum tölum um netnotkun sem kynntar voru á degi upplýsingatækninnar á Nordica hóteli í gær, UT-deginum sem stjórnvöld stóðu að ásamt Póst- og fjarskiptastofnun, Samtökum upplýsingatæknifyrirtækja og Skýrslutæknifélaginu. Í tilefni dagsins var haldin ráðstefnan Tæknin og tækifærin.

Guðfinna Harðardóttir frá Hagstofunni kynnti nýtt talnaefni um tölvunotkun á ráðstefnunni. Hvergi annars staðar eiga jafn mörg heimili tölvu og eru tengd Internetinu og hér á landi, og Íslendingar eru jafnframt duglegastir að nota tölvupóstinn. Þegar kemur að viðskiptum á netinu, skjótast nokkur lönd upp fyrir Ísland í þeim efnum og lendum við þar undir meðaltalinu.

Þar kom m.a. fram að stöðugt fleiri notast við háhraðatengingar, eins og ADSL, og módemtengingar eru á hraðri útleið.

Netið er oftast notað fyrir tölvupóst, í um 90% tilvika, og síðan til að leita sér alls konar upplýsinga og fróðleiks á netinu. Þegar kemur að viðskiptum á netinu eru nokkur lönd sem skjótast upp fyrir Ísland. Í könnun kom fram að fólk teldi sig ekki hafa þörf til að kaupa, það kysi frekar að fara út í búð og versla á hefðbundinn hátt. Einnig er hræðsla við að gefa upp greiðslukortanúmer á netinu.

En langflestir þeirra Íslendinga sem nota netið til viðskipta eru í farmiðakaupum, eða um 70%. Næstflestir kaupa bækur og tímarit, síðan tónlist og kvikmyndir og þeim hefur stórlega fjölgað sem kaupa aðgöngumiða á viðburði gegnum netið, hlutfall þeirra fór úr 13% árið 2004 í 25% á síðasta ári. Fæstir nota netið til að kaupa sér inn matvöru.

Þjónustuveita á Ísland.is

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra flutti ávarp við upphafi ráðstefnu UT-dagsins í gær. Hann sagði m.a. að augljóslega væri hægt að bæta til muna rafræna þjónustu við almenning og ná aukinni innri hagræðingu. Að því væri nú unnið að hálfu ríkis og sveitarfélaga.

Halldór sagði það fagnaðarefni að sjá hve þátttakan á ráðstefnunni væri góð. Hann greindi einnig frá verkefninu Ísland.is, sem kynnt var á ráðstefnunni. Þar væri verið að koma upp einni þjónustuveitu sem hefði það að markmiði að auðvelda aðgengi að allri opinberri þjónustu.

"Þar sem það er mögulegt á notandinn að geta afgreitt sig sjálfur og hann á ekki að þurfa að vita fyrirfram hvaða stofnun veitir þá þjónustu sem hann þarf á að halda. Þetta verkefni fellur afar vel að öðru verkefni sem ég hef ýtt úr vör undir yfirskriftinni Einfaldara Ísland," sagði Halldór.

CCP með burði til að stækka

Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, greindi frá starfsemi fyrirtækisins og hvernig hún hefði stöðugt farið vaxandi. Nú ylti CCP um 1,5 milljörðum króna og tekjur kæmu að mestu leyti af tölvuleiknum Eve Online, sem hefði nú um 100 þúsund áskrifendur. Hilmar sagði CCP vera lítið fyrirtæki í samanburði við mörg önnur á sama markaði, sem myndu velta tugmilljörðum króna, en hefði alla burði til að vaxa enn frekar.

Til þess þyrfti starfsumhverfið að batna, CCP væri líkt og önnur útflutningsfyrirtæki að tapa stórum fjárhæðum vegna óhagstæðs gengis, gengistapið hefði verið 150 milljónir króna í fyrra. Aðstöðumunur væri mikill og stjórnvöld margra annarra landa hefðu gert átak í að laða til sín hugbúnaðarfyrirtæki. Þessi lönd sæju hag í því að fá til sín stöndug fyrirtæki til að þurfa ekki að stofna ný, það tæki yfirleitt um 10 ár fyrir sprotafyrirtæki að komast á legg.

Hilmar sagði að stjórnvöld ættu að geta fengið hingað risafyrirtæki í hugbúnaði líkt og áliðnaði. Þannig væri tölvuleikjamarkaðurinn stöðugt að stækka og ætti mikla framtíðarmöguleika. Nefndi Hilmar að stjórnvöld gætu komið til móts við tölvufyrirtæki alveg eins og kvikmyndaiðnaðinn, CCP væri alveg til í að greiða minni skatta og fá meira endurgreitt líkt og Clint Eastwood þegar hann var hér á landi í fyrra með tökulið sitt.

Hilmar benti á að CCP ætti stöðugt aukna hlutdeild í útflutningi á hugbúnaði. Árið 2004 hefði hlutfall Eve Online verið 15%, farið í 19% af 3,9 milljarða króna útflutningi árið 2005 og með sama áframhaldi yrði hlutfall leiksins 37% af útflutningstekjum Íslendinga upp á 6,1 milljarð af hugbúnaði árið 2007, þ.e. ef CCP yrði enn starfandi á Íslandi.

Heimamarkaður grunnurinn

Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, greindi frá starfsemi fyrirtækisins og þeim möguleikum sem hann taldi íslenskan upplýsingatækniiðnað búa yfir.

TM Software er orðið 20 ára gamalt fyrirtæki, starfsmenn eru um 500 talsins sem þjóna yfir 1.800 viðskiptavinum í 20 löndum um allan heim. Friðrik sagði alþjóðavæðingu fyrirtækja ekki geta orðið að veruleika nema að byggja á traustum heimamarkaði. TM Software hefði alla tíð byggt vöruþróun sína á íslenskri þekkingu og hugviti og framleiddi hugbúnað á fjórum sviðum; fyrir sjávarútveg, flutningastarfsemi, fjármálamarkað og heilbrigðisgeirann.

"Við þurfum að þróa heimamarkað okkar ef alþjóðavæðingin á að lukkast. Hugarfarið skiptir öllu máli," sagði Friðrik, sem taldi að hugbúnaðarfyrirtæki þyrfti ekki á fjárhagslegum styrkjum hins opinbera að halda. Frekar ætti starfsumhverfið að vera eðlilegt og heiðarlegt.

Breytingar á virðisaukaskatti fyrir sprotafyrirtæki

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti erindi á ráðstefnunni í gær þar hún m.a. rakti nokkrar aðgerðir stjórnvalda til að styðja við hátækniiðnað, t.d. í gegnum Nýsköpunarsjóð og Tækniþróunarsjóð.

Valgerður sagði stjórnvöld hafa til skoðunar að gera breytingu á virðisaukaskattskerfinu sem tæki tillit til langs þróunartíma sprotafyrirtækja. Í dag væri almennt gert ráð fyrir að sprotafyrirtæki þyrftu 10-12 ár til að ná jákvæðri niðurstöðu í rekstrarreikningi.

"Stjórnvöld telja mikilvægt að búa þannig í haginn að sprotafyrirtæki fái þennan nauðsynlega tíma til að þróast til enda og skila eigendum sínum og samfélaginu arði. Í dag veitir skattkerfið sprotafyrirtækjum svigrúm til að nýta innskatt í allt að sex ár, þrátt fyrir tekjuleysi. Stjórnvöld eru hins vegar að kanna kosti þess að lengja þennan aðlögunartíma sprotafyrirtækja að virðisaukaskattskerfinu úr sex árum í allt að 10-12 ár," sagði Valgerður.

Hún sagði ennfremur að Íslendingar hefðu öll tækifæri til þess að standa í fararbroddi meðal þjóða heims hvað varðar uppbyggingu og vöxt hátæknigreina. Við hefðum ágæta innviði og byggðum yfir miklum metnaði og nýjungagirni, auk framúrskarandi fólks sem byggi yfir mikilli þekkingu og hæfileikum. Að mörgu væri þó að hyggja og enn væri hægt að bæta og gera betur.

"Ef almenningur, atvinnulíf og opinberir aðilar leggjast öll á sömu sveif er enginn vafi á því að tækifæri tækninnar munu hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag, okkur sjálfum og afkomendum okkar til heilla. Ávinningurinn getur orðið enn meiri en við gerum okkur í hugarlund í dag," sagði Valgerður.

www.utdagur.is