! Fyrir skömmu sat ég aðalfund Bandalags íslenskra listamanna. Þar tíðkast að formenn aðildarfélaganna geri grein fyrir starfi undangengins árs. Hver talsmaðurinn af öðrum steig á svið og sagði farir sínar ekki sléttar.

! Fyrir skömmu sat ég aðalfund Bandalags íslenskra listamanna. Þar tíðkast að formenn aðildarfélaganna geri grein fyrir starfi undangengins árs. Hver talsmaðurinn af öðrum steig á svið og sagði farir sínar ekki sléttar. Eilíft basl við að verja hagsmuni félagsmanna og eilíft þjark við ráðamenn sem sýna listamönnum lítinn skilning og virðast helst reyna að þreyta þá með því að draga lappirnar, kannski í von um að þeir gefist upp og snúi sér að öðru.

Er eitthvað kunnuglegt við þetta?

Ég velti fyrir mér hvernig standi á því að ráðamenn hafi ekki meiri skilning og áhuga á stöðu listamanna í nútímasamfélagi. Hvers vegna eru þeir tilbúnir til að bora jarðgöng fyrir örfáa bíla, en ekki til að stuðla að enn betra mannlífi í landinu, svo ekki sé talað um að beita sér fyrir varðveislu íslenskrar tungu, sem sumir telja að sé í hættu verði ekki spyrnt við fótum? Tregðan er furðuleg þegar haft er í huga að samkvæmt þessu sama fólki drýpur smjör af hverju strái. Litlu virðist skipta þó að hagfræðiprófessorar á borð við Ágúst Einarsson hafi sýnt fram á að menningin skilar miklu til þjóðarbúsins - líka í peningum talið.

Ráðamenn eru fulltrúar fólksins í landinu og reyna þess vegna að endurspegla áherslur þess. Af stefnu þeirra í listrænum efnum má ráða að þeir telji fólkið í landinu mótfallið því að verja meiri fjármunum í listalífið. Og af hverju ætli fólkið í landinu sé mótfallið því?

Varla af því það telji líf sitt verða litlausara fyrir bragðið. Þegar fram kemur góður listamaður - og hann sprettur sjaldnast úr grýttri jörð - er það fólkið í landinu sem fyrst nýtur góðs af, hvort sem það er í formi góðra bóka, myndverka, leikrita, tónlistar eða kvikmynda. Listamennirnir sjálfir bera iðulega lítið úr býtum og oftar en ekki eru þeir reknir með tapi á þessum örsmáa markaði, ná a.m.k. sjaldnast að reikna sér það endurgjald sem ríkisskattstjóri hefur til viðmiðunar. Oft er það svo að allir þeir sem koma að framleiðslu, dreifingu og sölu á verkum listamanna fá "viðmiðunarlaun" en listamaðurinn fær lítið sem ekkert fyrir að skapa þeim atvinnu. Samt fer varla nokkur Íslendingur í gegnum daginn án þess að verða fyrir áhrifum af störfum listamanna, lifandi eða látinna. Verk þeirra eru órjúfanlegur hluti af gleði okkar og sorgum, þau óma í eyrum og iða fyrir augum alla daga. Já, og svo laða þau ferðamenn að í þúsundatali.

En þegar milljarðar eru til ráðstöfunar, hvers vegna má þá ekki setja nokkra í að rækta það sem gerist inni í hauskúpunni? Hvers vegna þykir gott og gilt að steypa rándýr hús utan um stofnanir, eins og til stendur að gera fyrir Stofnun íslenskra fræða, en ekki að gera myndarlegt átak í innra starfi þeirra?

Það er engu líkara en menn haldi að steinsteypan vinni verkin.

Ég er helst á því að hér ráði hefðin mestu. Það er ekki hefð fyrir því að leggja alvörupening í þennan málaflokk. Það er hefð fyrir því að leggja 10 milljarða í jarðgöng en ekki fyrir því að hækka framlög í Þýðingarsjóð um 100 milljónir þó að þýðingar séu lífsnauðsynlegar þjóðarmenningunni. Getur verið að sá stjórnmálamaður sem reynir að komast upp úr þessu efnishyggjufari mæti, eða búist við að mæta, mikilli mótspyrnu í sínum röðum og óttist upphlaup meðal þjóðarinnar?

Hér hefur opnast gjá á milli raunveruleika og hugarfars. Þessi tittlingaskítshefð varð til við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður. Íslenska þjóðin er nú hámenntuð og rær á seðlabanka og væri örugglega tilbúin að rjúfa þessa úreltu hefð ef látið yrði á það reyna. Hún sér í gegnum alla hégómlegu minnisvarðana og skóflustungurnar.

Nú er lag fyrir brautryðjanda.