28. janúar 2006 | Innlendar fréttir | 442 orð | 1 mynd

Ásgeir Sverrisson ráðinn ritstjóri Blaðsins

Ásgeir Sverrisson ræðir við Karl Garðarsson, framkvæmdastjóra útgáfufélagsins Árs og dags, á ritstjórnarskrifstofum Blaðsins í gær.
Ásgeir Sverrisson ræðir við Karl Garðarsson, framkvæmdastjóra útgáfufélagsins Árs og dags, á ritstjórnarskrifstofum Blaðsins í gær. — Morgunblaðið/Júlíus
ÁSGEIR Sverrisson, fréttastjóri erlendra frétta á Morgunblaðinu, hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins. Ásgeir, sem hefur starfað á Morgunblaðinu í tæp 20 ár, mun hefja störf á Blaðinu 1. febrúar næstkomandi.
ÁSGEIR Sverrisson, fréttastjóri erlendra frétta á Morgunblaðinu, hefur verið ráðinn ritstjóri Blaðsins. Ásgeir, sem hefur starfað á Morgunblaðinu í tæp 20 ár, mun hefja störf á Blaðinu 1. febrúar næstkomandi. Hann segir ráðninguna ekki hafa átt sér langan aðdraganda. "Í síðustu viku var ég kallaður á fund eigenda Blaðsins og spurður að því hvort ég vildi taka þetta starf að mér. Þetta kom satt að segja eins og þruma úr heiðskíru lofti og ég bað um umhugsunarfrest. Ég hugsaði málið í sólarhring og bað svo um fund með eigendunum," segir Ásgeir. Á þeim fundi hafi hann lýst því hvernig hann sæi fyrir sér að hægt væri að þróa Blaðið, tæki hann við ritstjórn þess. "Ég bað þá að hugsa málið í tvo til þrjá daga. Það var gert og svo náðist samkomulag um að ég tæki við ritstjórastöðunni," segir Ásgeir.

Spurður um hið nýja starf á Blaðinu segir Ásgeir að hann sjái þar ýmsa möguleika. Nýtt skeið sé að hefjast í sögu Blaðsins, einkum vegna tveggja þátta. Annars vegar sé fyrirhugað að hefja aldreifingu á Blaðinu að morgni dags en stefnt sé að því að það verði síðar á árinu. Hins vegar hyggist Blaðið taka í notkun miðlægt ritstjórnar- og framleiðslukerfi, sem muni breyta miklu.

Markmiðið að skapa Blaðinu sérstöðu á blaðamarkaði

Ásgeir segir að ýmsar breytingar þurfi að gera hjá Blaðinu, meðal annars á útliti, framsetningu og á samsetningu þess. Sumar þessar breytingar sé hægt að gera á tiltölulega skömmum tíma, en lengri tíma taki að vinna að öðrum.

"Markmiðið verður að skapa Blaðinu ákveðna sérstöðu á blaðamarkaði. Sú sérstaða mun fyrst og fremst felast í því að Blaðið verður í morgundreifingu en það verður verulega frábrugðið Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Það stendur ekki til að búa til nýtt Morgunblað, það verður allt annar tónn í Blaðinu," segir hann.

Ásgeir kveðst hlakka til að takast á við nýja starfið. "Það erfiðasta við þetta verður að yfirgefa Morgunblaðið, sem er frábær vinnustaður. Ég hef unnið hérna í bráðum 20 ár og á marga góða og dýrmæta vini á blaðinu," segir Ásgeir. "Mér fannst hins vegar rétt að taka þessu tækifæri," bætir hann við.

Ásgeir hóf störf á Morgunblaðinu árið 1986. Hann var löngum umsjónarmaður erlendra frétta en var ráðinn fréttastjóri erlendu fréttadeildarinnar 1994. Þar starfaði hann til ársins 1997 en þá hélt til náms og starfa á Spáni um eins árs skeið.

Eftir heimkomuna hóf hann aftur störf á ritstjórn Morgunblaðsins. Þá sá Ásgeir meðal annars um heilsuumfjöllun blaðsins, skrifaði fréttaskýringar af erlendum vettvangi og um íslensk öryggis- og varnarmál. Auk þess skrifaði hann marga Viðhorfsdálka í blaðið.

Árið 2001 tók hann aftur við fréttastjórastarfi á erlendu deildinni og hefur gegnt því síðan.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.