HÆTTA!-hópurinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er yfirlýsingum iðnaðarráðherra um stækkun álversins í Straumsvík og byggingu álvera á Suðurnesjum og á Norðurlandi án nokkurs samráðs við fólkið í landinu.

HÆTTA!-hópurinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem mótmælt er yfirlýsingum iðnaðarráðherra um stækkun álversins í Straumsvík og byggingu álvera á Suðurnesjum og á Norðurlandi án nokkurs samráðs við fólkið í landinu. Í yfirlýsingunni segir að þótt annað sé gefið í skyn séu slíkar hugmyndir ávísun á meiri virkjanaframkvæmdir en áður hafi þekkst hérlendis, að Kárahnjúkavirkjun meðtalinni, og kallar á að helstu fallvötn landsins verði virkjuð.

Hópurinn krefst þess að stjórnvöld upplýsi almenning strax að fullu um það hvaða virkjanir er fyrirhugað að ráðast í vegna fyrirhugaðra framkvæmda og geri skýra grein fyrir efnahagslegum, náttúrufarslegum og þjóðfélagslegum afleiðingum þeirra áður en lengra er haldið. Nú þegar fari 70% allrar raforku í stóriðju. Verði Kárahnjúkavirkjun tekin í notkun fari hlutfallið í 80% og með þeim framkvæmdum sem nú eru boðaðar fari það yfir 90%. Undarlegt sé að í landi sem er kynnt erlendis sem náttúruperla norðursins skuli framtíðarhugsun stjórnvalda einskorðast við álver og stóriðjuframkvæmdir. Spyr hópurinn hvort Ísland hafi hag af því að fórna náttúru landsins fyrir raforkuna og selja síðan 90% hennar undir kostnaðarverði, "raunar á lægsta verði í Evrópu og þótt víðar væri leitað", segir í yfirlýsingunni.

Þá segir í yfirlýsingunni að staðreyndir hafi verið þaggaðar niður og hagfræðilegum og náttúrufræðilegum niðurstöðum stungið undir stól í umræðum um virkjanamál. Skýr undiralda sé þó að myndast fyrir náttúruvernd og tími til kominn að leyfa Íslendingum að taka upplýstar ákvarðanir um málin.