Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein
STEFÁN Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkur, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann segir að miklar rangfærslur hafi komið fram í umræðunni um tónlistarnám í Reykjavík.

STEFÁN Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkur, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann segir að miklar rangfærslur hafi komið fram í umræðunni um tónlistarnám í Reykjavík. Undanfarið hafi umfjöllun átt sér stað um að tónlistarskólanemar séu að hrekjast frá námi og vill Stefán Jón ítreka að engir reykvískir nemendur séu í þeim hópi en Reykjavíkurborg hefur greitt með öllum nemendum sem hafa verið samþykktir í tónlistarskóla og falla undir aldursreglur samkvæmt útreikningi sem tekur mið af kennslukostnaði á hvern nemanda, þar á meðal í framhaldsskólum.

Umdeilt aldurshámark

Aldurshámark í tónlistarskólum hefur verið umdeilt en ekki er greitt fyrir nemendur eldri en 25 ára í hljóðfæranámi og 27 ára í söngnámi. Stefán Jón segir að þessi regla spari ekki peninga en gæti hugsanlega hvatt tónlistarnemendur til að sýna fram á meiri námsframvindu þegar vitað er að námið verði dýrara þegar ákveðnum aldri er náð.

Fram kemur að aldursmörkin hafi verið sett í maí síðastliðnum og þá hafi þeir nemendur sem hafi verið yfir aldursmarkinu og í fullu námi fengið frest fram að hausti árið 2007.

Samkomulag hefur ekki náðst á milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu vegna nemenda í framhaldsskólum en engu að síður greiðir Reykjavíkurborg enn um sinn að fullu með nemendum sem hafa lögheimili í Reykjavík. Þetta eigi ekki við fjölda annarra sveitarfélaga og því hefur nemendum frá þessum sveitarfélögum verið vísað frá námi. Reykjavíkurborg hafi reynt að leysa úr árekstrarmálum við ríkið án þess að það bitni á nemendum en það hafi önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ekki gert.

Stefán Jón tekur fram að stjórnendur tónlistarskólanna hafi verið boðaðir á fundi með menntasviði Reykjavíkurborgar þar sem drög að reglum um þjónustusamninga voru kynnt og óskað eftir athugasemdum, sem tillit hafi verið tekið til. Að auki hafi skólarnir átt fulltrúa í þeim starfshópum sem komu að samningu reglnanna og tekið tillit til margra ábendinga.

Mestu niðurgreiðslurnar

Í Reykjavík er skráð 3.261 nemendagildi í tónlistarskólum, þ.e. nemar með lögheimili í Reykjavík 1. október 2005. Bak við þessi nemendagildi eru 3.052 einstaklingar og sé framlag borgarinnar vegna þessara einstaklinga um 680 milljónir króna. Því séu niðurgreiðslur með hverjum nemanda meiri en í nokkurri annarri grein þar sem ekki er um lögbundna þjónustu að ræða. Borgin greiði á bilinu 200-500 þúsund með hverjum nemanda eftir námi og námsstigi.