NÝ FRIÐLÝSING fyrir friðlandið Surtsey leggst ekki illa í útvegsbændur í Vestmannaeyjum, en ábendingar þeirra voru teknar til greina í mótun þess.

NÝ FRIÐLÝSING fyrir friðlandið Surtsey leggst ekki illa í útvegsbændur í Vestmannaeyjum, en ábendingar þeirra voru teknar til greina í mótun þess. Upphaflega var gert ráð fyrir töluverðri skerðingu á áður nýttum togslóðum Eyjamanna, en fallið var frá henni í lokatillögunni.

Magnús Kristinsson, útvegsbóndi í Vestmannaeyjum, segist ánægður með að tillit hafi verið tekið til ábendinga útvegsbænda og skerðing á hagsmunum þeirra sé sáralítil. "Þetta svæði verður uppeldisstöð fiskjar og við fáum að njóta þess fiskjar sem þar elst upp og syndir út," segir Magnús. "Almennt snertir þessi friðun ekki togslóðir heldur snurvoðarslóðir, en Vestmannaeyingar leggja ekki áherslu á slíka útgerð."

Í kjölfar stækkunar friðlandsins í og við Surtsey verður einungis leyfilegt að veiða með handfærum og línu en bann er lagt við veiðum með veiðarfærum sem dregin eru eftir botninum á rúmlega 46 ferkílómetra svæði innan friðlandsins.