[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríska söngkonan Rosanne Cash hefur fetað í fótspor föður síns en þó farið eigin leiðir. Hún sendir frá sér nýja plötu á morgun þar sem hún minnist látinna foreldra.

Það er ekki tekið út með sældinni að eiga fræga foreldra, síst ef frægð foreldranna stafar af listsköpun og barnið hyggst leggja á sömu braut. Tónlistarhæfileikar ganga nefnilega ekki alltaf í erfðir, sjaldnast reyndar finnst manni á þeim fjölmörgu listamönnum sem reynt hafa að komast áfram á nafninu, þótt vitanlega séu dæmi um að tónlistargáfan berist á milli ættliða.

Rosanne Cash er einmitt gott dæmi um það hvernig barni getur tekist að marka sér eigin braut, nánast þrátt fyrir ætternið, frekar en fyrir það, því hún hefur síst staðið í skugga föður síns; frekar verið sjálfstæður og merkilegur listamaður sem farið hefur eigin leiðir. Á morgun kemur út ný plata hennar, Black Cadillac , sem samin er og tekin upp við venju fremur erfiðar aðstæður því á einu ári missti hún þrenna foreldra sína; stjúpa hennar, June Carter Cash, lést í maí 2003, faðir hennar, Johnny Cash, fjórum mánuðum síðar, og síðan móðir hennar, Vivian Liberto Cash Distin, í maí á síðasta ári.

Sem unglingur virtist Rosanne Cash lítinn áhuga hafa á tónlist, eða í það minnsta lítinn áhuga á að gerast tónlistarmaður. Foreldrar hennar skildu 1966 og hún ólst upp hjá móður sinni í Los Angeles, fékk strangt kaþólskt uppeldi að því er hún segir sjálf. Fjórtán ára var hún farin að fikta við fíkniefni en hélst þó í skóla þar til hún varð átján ára og réð sig í vinnu hjá föður sínu sem aðstoðarkona í tónleikaferð. Hún vann svo um tíma hjá plötufyrirtæki í Lundúnum en sneri síðan heim til Bandaríkjanna og lagði stund á leiklist og ensk fræði. Um það leyti var tónlistin farin að toga í hana og fyrsta breiðskífan kom út ekki löngu síðar, Right or Wrong .

Á næstu árum gekk henni flest í haginn í tónlistinni, kom til að mynda ellefu lögum á toppinn á sveitatónlistarlistanum vestanhafs og fékk að auki Grammy-verðlaun. Ekki var einkalífið eins dægilegt, því þó hún hefði fundið sér eiginmann þegar hún hljóðritaði fyrstu plötuna þá varð hann snemma neyslufélagi og lífið á köflum býsna skrautlegt. Á endanum náði hún áttum, fór í meðferð og skildi við manninn, sveitatónlistarmanninn Rodney Crowell.

Erfiðleikarnir innblástur

Erfiðleikarnir verða Rosanne Cash oft að innblæstri og sín bestu verk semur hún oft eftir dapra daga. Þannig var King's Record Shop , sem er ein af hennar bestu plötum að marga mati, að stórum hluta spegilmynd af erfiðleikunum sem hún gekk þá í gegnum með Crowell, og næsta plata, Interios , sem er líklega hennar besta verk, fjallar að stórum hluta um skilnaðinn, það hvernig hjónabandið leystist upp og ekkert dregið undan.

Eftir þetta fjarlægðist Rosanne Cash sveitatónlistina, en hún hafði reyndar aldrei verið mjög heittrúuð í kántrýfræðunum heldur leyft andanum að ráða ferðinni. Hún skipti líka um útgáfu, fór frá Columbia til Capitol, og virtist vera í þann mund að ryðja nýjar brautir þegar hún neyddist til að hætta að syngja vegna vandræða með raddböndin. Það liðu því sjö ár frá fyrstu plötunni fyrir Capitol, 10 Song Demo , sem kom út 1996, þar til næsta plata, Rules of Travel , kom út 2003.

Ekki má þó skilja það sem svo að hún hafi setið auðum höndum, hún tók sér tíma í barnauppeldi, eignaðist son 1998 og átti þrjár dætur fyrir, skrifaði talsvert af smásögum og eina barnabók.

Ekki minningarplata

Þó dauðinn sé ekki langt undan á Black Cadillac segist Cash ekki hafa beinlínis samið plötuna til að takast á við sorgina þó lagasmíðarnar hafi verið henni fró. Hún leggur og áherslu á að platan sé ekki minningarplata nema að því leyti að henni lýkur með 71 sekúndu þögn, en öll voru þau 71 árs er þau létust, June Carter Cash, Johnny Cash og Vivian Liberto Cash Distin.

Ekki vantar þó tilvísanirnar á skífunni, til að mynda hefst hún með því að Johnny Cash segir "Rosanne, c'mon" og í laginu "Black Cadillac" má heyra tilvísun í lagið "Ring of Fire" eftir June Carter Cash sem Johnny Cash gerði vinsælt á sjöunda áratugnum. Annað lag, "Like Fugitives", er beinlínis samið um móður hennar, "I Was Watching You" er um tilhugalíf foreldra hennar og svo má telja. Segir sitt um tilfinningarnar sem hún lagði í verkið að hún segist vera gersamlega þurrausin hugmyndum, hefur ekki samið neitt frá því lagasmíðum fyrir plötuna lauk.