[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú umræða sem farið hefur fram undanfarið um rétt eða réttleysi samkynhneigðra til að ganga í hjónaband hefur varla farið fram hjá mörgum.

Sú umræða sem farið hefur fram undanfarið um rétt eða réttleysi samkynhneigðra til að ganga í hjónaband hefur varla farið fram hjá mörgum. Prédikun og ummæli biskups þjóðkirkjunnar á nýársdag setti af stað skriðu greinaskrifa, viðtala í ljósvakamiðlum og skoðanaskipta í heitum pottum víðs vegar um landið. Varla líður sá dagur að ekki sé að finna lesefni um málefnið í dagblöðum og oftast fleiri greinar en eina. Á ritvöllinn geysast guðspekingar, rithöfundar, þingmenn, prestar, leikmenn, sagnfræðingar, kynjafræðingar, bókmenntafræðingar og aðrir fræðingar, hommar og lesbíur og sýnist sitt hverjum. Enda virðist umræðan koma við eitthvað djúpstætt innra með okkur - hvort sem það er sú bjargfasta trú og skoðun að hjónabandið geti einungis verið sáttmáli milli karls og konu eða þörfin fyrir fullkomið jafnrétti samkynhneigðum til handa.

Upphaf alls þessa má rekja til lagafrumvarps sem ríkisstjórnin kynnti í nóvember síðastliðnum. Gangi það eftir verður samkynhneigðum pörum heimilað að ættleiða börn og lesbísk pör fá að gangast undir tæknifrjóvgun hérlendis. Þessu fylgir að samkynhneigðum foreldrum verður gert kleift að nýta sér fæðingar- og foreldraorlof. Þá hljóta samkynhneigð pör sama rétt og gagnkynhneigð til að fá óvígða sambúð sína skráða í þjóðskrá auk þess sem skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar þeirra verða rýmkuð.

Frumvarpið fékk ekki einasta góðar viðtökur þingmanna heldur var fögnuður samkynhneigðra mikill yfir þessum væntanlegu breytingum. Þó var bent á að það eina sem vantaði í frumvarpið væri að veita trúfélögum lagaheimild til að gefa samkynhneigð pör saman.

Farið með gát

Allt frá því að lög um staðfesta samvist samkynhneigðra voru samþykkt árið 1996 hafa prestar veitt hommum og lesbíum sambandsblessun í Guðs húsi. Þetta hefur þó ekki verið lögformlegur gjörningur, líkt og þegar kona og karl eru gefin saman fyrir augliti drottins og því hafa samkynhneigð pör ávallt þurft að fá samvist sína staðfesta að auki hjá sýslumanni. Við blessunarathöfn samkynhneigðra í kirkjum landsins hefur ekki verið notast við opinbert ritual, sem hliðstætt væri hefðbundnu hjónavígsluformi enda er að þessu leyti ekki eining innan kirkjunnar um þá kenningu og guðfræði sem liggur því að baki. Því fellur blessunarathöfn samkynhneigðra undir sálgæslustarf presta.

Eftir að ríkisstjórnin lagði frumvarp sitt fram kynnti Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður breytingartillögu þess efnis að trúfélögum og vígslumönnum þeirra yrði veitt heimild til þess að gefa saman samkynhneigð pör sem óskuðu eftir slíku. Það var þó ekki fyrr en eftir nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups og ummæla hans í fréttaviðtali í kjölfarið sem umræðan varð jafn áköf og undanfarnar vikur.

Í ávarpinu gerði biskup málefni samkynhneigðra að umfjöllunarefni sínu og sagði ýmsa kalla eftir nýrri skilgreiningu á hjúskap og hjónabandi. "Til þessa hefur hjónaband talist vera sáttmáli eins karls og einnar konu," sagði hann. "Er það í samhljóm við grundvallarforsendu sem kristin trú og siður hefur byggt á frá öndverðu, og er sameiginleg öllum helstu trúarbrögðum heims. Enda í samhljómi við lífsins lög. Þessari forsendu getur íslenska ríkið breytt og komið til móts við margvíslegar þarfir, hvatir og hneigðir, og afnumið alla meinbugi." Og síðar sagði biskup: "Ég treysti Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að fara hér með gát, og leyfa hjónabandinu að njóta vafans."

Þau ummæli biskups sem hafa farið hvað mest fyrir brjóst þeirra sem vilja heimila trúfélögum að gefa saman samkynhneigða, lét hann hins vegar falla í viðtali á fréttastöðinni NFS í kjölfar prédikunarinnar þar sem hann sagði: "Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við allavega köstum því ekki á sorphauginn alveg án þess að hugsa okkar gang."

Með og á móti

Alda mótmæla hefur risið upp gegn þessum ummælum biskups sem og nýársprédikun hans. Menn hafa sagt að eigi að fylgja einum bókstaf Ritningarinnar í þaula þurfi að gera það við þá alla en þekkt sé að kirkjan endurskoði skilning sinn á þeim í takt við breyttar aðstæður. Bent hefur verið á að skv. könnun sem Gallup gerði um mitt ár 2004 vilja 87% þjóðarinnar leyfa samkynhneigðum að giftast og tæp 70% að þeir fái að gera það í kirkju. Aðrir hafa spurt hvers vegna kirkjan sé tilbúin að skíra, ferma og jarða samkynhneigða fyrst hún vilji ekki vígja þá í hjónaband.

Þeir sem hafa talað gegn hjónabandi samkynhneigðra hafa vísað til orða Biblíunnar sjálfrar, þar sem kveðið er á um að maður skuli bindast konu þannig að þau verði einn maður. Aðrir segja að verði heimildin veitt myndi það óeðlilegan þrýsting á kirkjuna og óttast að það geti ollið klofningi innan kirkjudeilda. Eins hefur verið nefnt að hjónabandið sé hinn ævaforni rammi utan um æxlunarhlutverk mannsins. Þá er ótalin yfirlýsing ýmissa trúfélaga og einstaklinga þar sem eindregnum stuðningi er lýst við málflutning biskups og andstöðu við frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Rökin með og á móti eru mun fleiri en á meðan kirkjan og samfélagið ræða málin í þaula bíða þeir sem málið varðar - samkynhneigðir sjálfir og fjölskyldur þeirra - spenntir eftir niðurstöðunni. | ben@mbl.is

Þar til dauðinn skilur að

Í notalegri kjallaraíbúð í miðbænum búa Grétar Einarsson og Óskar Ástþórsson sem hafa verið saman í um þrjú ár. Grétar starfar í bókaverslun en Óskar er leikskólakennari og eins og mörg önnur pör dreymir þá um að stofna fjölskyldu í framtíðinni.

"Við byrjuðum saman sex mánuðum eftir að við kynntumst og fluttum saman sex mánuðum síðar," segir Óskar. "Svo trúlofuðum við okkur fyrir um ári." Grétar kinkar kolli. "Reyndar gerðum við það á helgum stað, í Montserrat-klaustrinu á Spáni," segir hann. "Þar er pílagrímavegur út í pínulitla kapellu sem er afdrep fyrir munkana. Inn af henni er rósagarður þar sem við settum upp hringana þannig að það var ákaflega trúarleg umgjörð."

Grétar nefnir þetta ekki að ástæðulausu því kristin trú er honum mikilvægur áttaviti í lífinu. "Ég reyni að vera eins virkur í mínu trúfélagi og ég get og er m.a. sjálfboðaliði í minni kirkju. Einnig er ég í starfshópi biskups um samkynhneigða og kirkjuna." Þá sækir Grétar "messurnar stíft" eins og maður hans orðar það, fer í kirkju tvisvar í viku og tekur virkan þátt í Áhugahópi samkynhneigðra um trúarlíf, ÁST. "Trúarlífið skiptir mjög miklu máli í mínu daglega lífi," heldur Grétar áfram. "Óskari finnst líka mikilvægt að fylgja kristnu siðferði þannig að við fylgjumst að í þessum efnum."

Ekki búið að hafna okkur | Því lætur nærri að umræðan undanfarnar vikur um kirkjulega giftingu samkynhneigðra snertir þá enda segjast þeir einfaldlega vera að "bíða eftir kirkjunni" með að ganga að eiga hvor annan. "Ég lít á það sem mannréttindi að fá að gifta mig í kirkju," segir Óskar. "Við erum öll manneskjur og eigum öll sama rétt." Unnusti hans tekur við orðinu. "Hjónabandið er ákveðið innsigli. Með því er maður að festa allt sitt líf við ákveðna manneskju. Ef maður er trúaður skiptir öllu, öllu máli að játa það fyrir Guði."

Hann bætir því við að í raun sé gifting í kirkju ekkert annað en blessun sambandsins enda sé skrifað undir pappírana eftir athöfnina. "Lúther tekur skýrt fram að hjónaband sé veraldlegur gjörningur. Það hefur með löggjafann að gera - ekki kirkjuna. Hennar hlutverk er hins vegar að blessa." Þar sem kirkjan hefur um nokkurn tíma blessað sambönd samkynhneigðra segir hann þetta því að stórum hluta spurningu um orðanotkun. "Ég tala alltaf um Óskar sem manninn minn og ég er maðurinn hans. Í Bretlandi er talað um "partner" en það er málhefð á Íslandi að tala um hjón. Hvaða annað íslenska orð getur komið þarna í staðinn? Sambýlingar? Vinir? Félagar?"

Þeir leggja áherslu á að kirkjan hafi ekki tekið afstöðu í málinu, þrátt fyrir prédikun biskups á nýársdag. "Biskupinn er æðsti yfirmaður kirkjunnar og hefur sem slíkur mikið að segja. Auðvitað sárnaði manni orð hans en þarna var hann ekki að tala fyrir hönd allra presta né allrar kirkjunnar," segir Óskar. "Hann var kannski að taka af skarið hvað sig varðar og það má segja að hann hafi komið út úr skápnum með skoðun sína." Grétar tekur undir þetta. "Hann hefur sagt að það þurfi samtal innan kirkjunnar um þessi mál og það samtal er nú í gangi. Stundum finnst mér að það gleymist. Það er svo langur vegur frá því að kirkjan sé búin að hafna okkur."

"Mér finnst samkynhneigðir svolítið fljótir á sér að segja sig úr þjóðkirkjunni í stað þess að bíða og ræða málin," heldur Óskar áfram og Grétar er sammála. "Hvað með okkur hin sem erum í kirkjunni? Ég sé ekki að slíkt sé stuðningur við okkur og þann fjölda fólks sem er okkur hliðhollur. Ég hefði haldið að nú væri tækifæri fyrir samkynhneigða innan kirkjunnar að standa upp og minna á sig. Við erum líka hluti af kirkjunni og mörg okkar vilja vera það áfram." Unnusti hans heldur áfram: "Í rauninni er hægt að líkja þessu við hjónabandið. Ef upp koma vandamál í hjónabandi sestu niður og reynir að leysa þau. Þú bara ferð ekkert burt heldur reynir að ræða málin og komast að niðurstöðu."

Saman í 50 ár | Óskar og Grétar fagna frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem m.a. gerir þeim kleift að ættleiða börn. "Ég er menntaður leikskólakennari og hef líka kennt í grunnskólanum," segir Óskar. "Þegar við Grétar byrjuðum saman sagði ég honum að ég hefði áhuga á að ættleiða börn. Hann var svolítið tvístígandi í fyrstu en núna erum við alveg ákveðnir í því að ættleiða þegar þetta gengur í gegn." "Og þá viljum við auðvitað að barnið fái kristilegt uppeldi," bætir Grétar við. "Hins vegar er útilokað að óska eftir því að barnið manns fái kirkjulegt uppeldi og gangi í sunnudagaskóla hjá trúfélagi sem ekki samþykkir sambúð foreldra þess."

Íslenskt samfélag finnst þeim þó komið langt á veg með að vinna á fordómum gegn samkynhneigðum og í því skipti máli að samkynhneigðir þori almennt að vera þeir sjálfir. "Við höldumst t.d. alltaf í hendur þegar við erum úti að ganga," segir Óskar. "Okkur finnst sjálfsagt að fólk sjái að við erum tveir einstaklingar sem erum ástfangnir af hvor öðrum." Grétar segir ímynd samkynhneigðra einnig hafa breyst. "Í dag eru umtöluðustu hommapörin eða lesbíupörin þau sem eru búin að vera saman lengi og eru með fjölskyldu eða við það að stofna til hennar."

Væntanlega verður það einnig hlutskipti Óskars og Grétars og þeir hafa tímann fyrir sér, ef marka má eigin fyrirheit. "Við erum búnir að ákveða að vera saman í fimmtíu ár þannig að við eigum 47 ár eftir," segir Grétar og hlær. "Nei, ætli við verðum ekki bara saman þar til dauðinn skilur að. Í hittifyrra var ég á ráðstefnu kristilegra trúarhópa samkynhneigðra. Þar kynntist ég hollensku pari, gömlum mönnum sem voru yfir sjötíu ára, og annar var farinn að ganga við staf. Þeir áttu 35 ára samband að baki, kaþólskir og búnir að lifa tímana tvenna. Þá allt í einu sá ég í þeim mig og Óskar einhvern tímann í fjarlægri framtíð, annar í göngugrind og hinn með staf að styðja hvor annan."

Allir þræðir sameinast

Hann Aron Logi litli er eins og önnur ellefu mánaða börn. Hann er forvitinn um flest sem fyrir augu ber, slefar duglega vegna tanntöku sem nú stendur sem hæst, er farinn að ganga meðfram borðum og stólum og er svo ljónheppinn að vera búinn að fá dagmömmupláss þegar fæðingarorlofi mömmu lýkur. Eini munurinn er sá að mamman sú er bara ein af tveimur sem Aron Logi hefur átt frá upphafi.

"Við fórum í tæknifrjóvgun til Danmerkur 2004 sem gekk í fyrstu tilraun og það kom okkur ánægjulega á óvart því við höfðum búið okkur undir að þurfa að fara nokkrum sinnum út," segir önnur mæðranna, Margrét Guðjónsdóttir kirkjuvörður. Kona hennar, Íris Dögg Jónsdóttir, kennari og blóðmóðir drengsins, tekur undir þetta. "Sama sumar giftum við okkur og keyptum íbúð sem auðvitað tók í fjárhagslega. Því var mjög gott að þetta tókst strax og að við þyrftum ekki að fara aftur út."

Íris og Margrét kynntust í Gay Pride-göngunni árið 2001 þegar þær tóku þátt í atriði þar sem hópur lesbía steig línudans. "Ég var nýflutt heim frá Danmörku eftir fimm ár þar í landi svo við þekktumst ekkert," segir Íris. "Hins vegar vorum við á svipuðum stað í lífinu; við vorum komnar út úr skápnum fyrir löngu, áttum báðar sambönd að baki, vorum á svipuðum aldri og tilbúnar í alvöru samband og fjölskyldu."

Þær létu þó nægja að flytja saman til að byrja með. "Þegar við ætluðum að skrá okkur í sambúð var okkur sagt að við gætum það ekki heldur yrðum við að staðfesta samvist okkar. Við vorum ekki tilbúnar til þess enda bara nýbyrjaðar saman," segir Margrét og Íris tekur undir. "Við vildum einfaldlega sameina lögheimili okkar eins og pör gera og þar sem ég var nýbyrjuð í námi hefði verið hagstætt að Magga notaði skattkortið mitt."

Engar prinsessur | Í Kennaraháskólanum sá Íris að "nánast önnur hvor stúlka var ólétt" meðan á náminu stóð. "Smám saman fór ég að gæla við þá hugmynd að kannski væri ágætt að vera heima með barnið á meðan ég kláraði skólann. Til hvers að bíða?"

"Svo leiddi eitt af öðru," heldur Margrét áfram. "Þegar við vorum búnar að taka ákvörðunina um barnið fannst okkur rétt að gifta okkur." Íris útskýrir þetta betur. "Við áttum von á barni og vorum að kaupa okkur íbúð en höfðum engin réttindi gagnvart hvor annarri, hvorki erfðaleg né önnur. Ég er ekki viss um að við hefðum drifið í þessu þetta sumar ef þetta allt hefði ekki komið til. En við hefðum gert það einhvern daginn og jafnvel beðið eftir því að hægt væri að giftast í kirkju."

Í staðinn gáfu tveir fulltrúar sýslumanns þær saman heima hjá þeim að viðstöddum um 30 gestum. "Við vorum nú ekki mjög ánægðar með þá athöfn," segir Margrét. "Hún var þurr og ópersónuleg og án alls undirbúnings. Fulltrúarnir gátu ekki komið á þeim tíma sem hentaði fyrir veisluna og því þurftum við að biðja gestina um að koma aftur síðar um daginn til að fagna með okkur. En þótt við höfum ekki verið ánægðar með athöfnina sem slíka létum við það ekki eyðileggja daginn. Minningin er æðisleg fyrir það."

Við skipulagningu dagsins veltu þær fyrir sér að óska eftir blessun í kirkju að auki. "Blessunarathöfnin var hins vegar flokkuð undir sáluhjálp sem okkur fannst svolítið neikvætt," segir Íris. "Og ef við hefðum farið í kirkju hefði dagurinn orðið þrískiptur svo við féllum fljótlega frá því. Hins vegar fékk öll fjölskyldan blessun prests við ákaflega fallega athöfn þegar Aron Logi var skírður og það skipti okkur miklu máli."

Að þeirra mati snýst kirkjubrúðkaup ekki um þann meinta draum allra stúlkna að fá að vera prinsessur í einn dag. "Mér finnst kirkjubrúðkaup einfaldlega vera hefð og athöfnin falleg en hún hefur kannski ekki mikið trúarlegt gildi fyrir mig," segir Íris. "Í raun er hjónabandið ekkert annað en skuldbinding. Maður er tilbúinn til að bindast, deila lífi og sálum og fléttast saman þannig að allir þræðir beggja sameinist í sambandinu. Við sem erum samkynhneigð eigum náttúrlega að fá að staðfesta heitin í kirkju eins og aðrir - annað eru skilaboð um að við séum ekki jafngild öðrum."

Sýnileikinn mikilvægur | Það kom hinum verðandi mæðrum á óvart að uppgötva að þrátt fyrir staðfesta samvist þyrfti Margrét að ganga í gegnum ættleiðingarferli til að fá stöðu sem foreldri barnsins. "Ef gagnkynhneigt par sem er skráð í sambúð þarf að fá gjafasæði og konan eignast barn í kjölfarið verður maðurinn sjálfkrafa hitt foreldrið, jafnvel þótt þau séu ekki gift," segir hún. "Þótt við Íris höfðum staðfest samvist okkar þurfti ég samt sem áður að sækja um ættleiðingu. Ég gat ekki tekið fæðingarorlof um leið og barnið fæddist heldur þurfti að bíða eftir því að ættleiðingin gengi í gegn. Og til að ættleiða barnið þurfti ég að fara í læknisskoðun og fá sálfræðing og manneskju frá barnaverndarnefnd í heimsókn auk ýmissa funda þannig að þetta var heilmikið ferli." Á þær runnu tvær grímur þegar í ljós kom að forsenda fyrir ættleiðingu væri að þær væru búnar að búa saman í fimm ár. "Við kærðum þann úrskurð út frá jafnréttissjónarmiðum því ef Magga hefði verið karlmaður hefði þetta gengið sjálfkrafa í gegn," segir Íris. "Og með aðstoð félagsráðgjafans hjá Samtökunum '78 fékkst þessu breytt þannig að tveggja og hálfs árs sambúð var talin nægileg. Í kjölfarið gekk ættleiðingin eftir, þegar Aron Logi var orðinn fimm, sex mánaða." Þær segjast ekki síst hafa verið að hugsa um hag drengsins. "Ef ég hefði dáið hefðu barnayfirvöld getað tekið hann," segir Íris og Margrét kinkar kolli. "Þau hefðu átt meira tilkall til hans en ég."

Þegar Íris og Margrét réðust í hið stóra verkefni sem foreldrahlutverkið er höfðu þær ekki margar fyrirmyndir úr hópi samkynhneigðra. Í dag eiga hins vegar nokkur lesbíupör börn á svipuðu reki og Aron Logi. "Það er mjög mikilvægt að þessir foreldrar séu sýnilegir," segir Íris. "Því fleiri - því auðveldara verður þetta fyrir börnin. Við eigum ekki að vera í felum því þá eru börnin okkar í felum og það er hvorki gott fyrir börnin né fjölskylduna. Mér finnst líka mikilvægt að Aron Logi fái systkini sem er getið við svipaðar aðstæður." En hvenær stendur svo til að fjölga mannkyninu enn frekar? "Kannski eftir tvö, þrjú ár," segja þær brosandi og líta á soninn. "Við höfum nóg að gera í bili."

Rændir sjálfselskunni

Fimm strákar aka á bílaleigubíl milli staða í Evrópu og tékka sig inn í næsta lausa pláss á hóteli. Brandararnir fjúka óspart og óvæntum ævintýrum er tekið fagnandi. Þetta er ekki lýsing á menntskælingum í útskriftarferð heldur sambýlismönnunum Árna Einarssyni hóteleiganda og Ómari Ellertssyni blómaskreytingarmanni og sonum þeirra þremur sem skelltu sér saman í ferðalag um Ítalíu í fyrrasumar.

"Við ákváðum að sameina fjölskyldur okkar með því að bjóða strákunum í þessa ferð," segir Árni. "Þegar við tékkuðum okkur inn á hótel var það sem fjölskylda og við mættum hvergi hroka eða leiðindum. Það þótti alveg sjálfsagt að við tveir ættum þessa þrjá stráka og satt að segja var ég ákaflega hreykinn. Síðan hefur mikilvægi þessa ferðalags fyrir okkur vaxið í minningunni."

Árni eignaðist hinn tæplega tvítuga Hákon með sambýliskonu sinni áður en hann kom út úr skápnum fyrir 15 árum. Ómar á hins vegar tvo syni, Jón Óla sem er 13 ára og Ellert Björn sem er 11, með fyrrverandi eiginkonu sinni. Tækifæri piltanna til að kynnast hafa ekki verið á hverju strái þar sem synir Ómars eru búsettir í Þýskalandi og því var kominn tími til að bæta úr því. "Þetta var mjög skemmtilegt - ég sé bara eftir því að við vorum ekki lengur," segir Hákon, sem er viðstaddur viðtalið. Ómar samsinnir þessu. "Strákarnir mínir töluðu líka um að það hafi verið mjög gaman að kynnast Hákoni því þeir þekktu hann ekkert fyrir."

Óvígða sambúðin gleymdist | Tvö ár eru síðan Árni og Ómar fluttu saman en þeir segjast ekki vera áhugasamir eða uppteknir af því að gifta sig. "Ég var það ekki heldur þegar ég bjó með barnsmóður minni," segir Árni. "Við erum kynslóðin sem fékk löggjöfina um óvígða sambúð og í mínu tilfelli dugði hún ágætlega. Ég hugsa nú samt að það hafi verið í bakhöfðinu á manni að einhvern tímann gæti komið að því - þetta er svo rík hefð. En ef menn ætla sér beinlínis að brjóta gegn henni fylgdi ágætis réttarbót óvígðu sambúðinni. Þegar lög um staðfesta samvist samkynhneigðra voru samþykkt árið 1996 hugsaði enginn út í að langsamlega flest gagnkynhneigð pör byrja að minnsta kosti á því að skrá sig í óvígða sambúð. Þegar hommar og lesbíur ætluðu að gera það sama kom í ljós að það væri ekki hægt. Við höfðum ekki þann möguleika, sem ég held að hafi verið hrein yfirsjón."

"Ég kvæntist hins vegar á sínum tíma og sumir geta ekki hugsað sér neitt annað en að gifta sig í kirkju," segir Ómar. "Synir mínir eru líka skírðir í kirkju og annar þeirra er að fara að staðfesta skírn sína í ár. Það er því óneitanlega hálfskrýtin tilfinning hvernig allt virðist vera frosið í samskiptum kirkjunnar og samkynhneigðra um þessar mundir."

Árni tekur undir þetta "Auðvitað má segja að orð biskups á nýársdag hafi verið svolítil olía á eldinn. Hann særði marga með orðum sínum en hann særði líka marga til baráttu, einnig þá sem létu sig málið kannski litlu skipta í upphafi."

Hann bendir á að bæði hann og Hákon sonur hans séu skírðir innan kirkjunnar. "Svo kemur að því að kirkjan hefur ekkert á móti því að hola mér niður í jörðina, ef ég á annað borð kæri mig um hennar þjónustu í þeim efnum. En ef ég óskaði að fá að vígjast einhverjum sem ég elska í kirkju er hún ófáanleg til að uppfylla þá ósk. Hún er líka ófáanleg að veita öðrum kost á að uppfylla hana og það er nú eiginlega enn merkilegra."

Málið snýst ekki um að orðið hjónaband feli í sér sáttmála karls og konu að mati Árna. "Ég vil geta kynnt Ómar sem manninn minn eða kærasta en ég er ekki að sækjast eftir því að mitt samband sé kallað hjónaband. Miklu frekar vildi ég hafa okkar eigið orð og ef það þarf að búa til nýtt hugtak þá gerum við það. Þeir sem eru trúaðir vilja einfaldlega fá sama rétt og aðrir til að vígjast maka sínum í guðshúsi fyrir augliti Drottins og það er ákaflega undarlegt að þeim sé neitað um það."

Göptu yfir trúlofuninni | Þeir segja fyrirliggjandi frumvarp ríkisstjórnarinnar um réttindi samkynhneigðra geysilega mikilvægt. "Breytingartillagan um vígslu samkynhneigðra ætti líka að ná fram að ganga. Við skulum afgreiða þetta í eitt skipti fyrir öll svo þetta sé ekki hangandi yfir okkur lengur. Gefum trúfélögunum þetta leyfi og þegar þau eru tilbúin nýta þau sér það," segir Árni og Ómar kinkar kolli: "Kannski er kirkjan ekki tilbúin til að gangast undir þessa breytingu heldur einhver smærri trúfélög."

Hákon glottir þegar hann er spurður að því hvað honum finnist um það að pabbi hans megi ekki gifta sig í kirkju. "Ég veit það nú ekki, ég hef ekki séð að það hafi háð honum mikið að fara ekki í kirkju," segir hann. "Mamma og fósturpabbi minn hafa heldur ekki farið í kirkju til að gifta sig og það er ekki mikil trúrækni í fjölskyldunni." Árni skellihlær: "Hann er sá fyrsti í fjölskyldunni í langan tíma sem trúlofar sig og uppskar þau viðbrögð okkar foreldranna að við göptum enda barðist okkar kynslóð fyrir óvígðu sambúðinni." Ómar segist nokkuð viss um að umræðan snerti sína drengi lítið. "Þeir vita örugglega ekki einu sinni af henni enda búsettir erlendis."

En hvað þá um þær breytingar sem eru í farvatninu varðandi möguleika samkynhneigðra á að stofna til fjölskyldu? "Að eignast barn er eitt það mikilvægasta sem hefur komið fyrir í mínu lífi," segir Árni. "Við það er maður rændur sjálfselskunni og ég held að það sé svo mikilvægt að sem flestir fái að upplifa það sem vilja." Ómar er sama sinnis. "Maður fer að hugsa allt öðruvísi - forgangsröðunin og hugarfarið gjörbreytist, ekki síst þegar maður hefur ekki þurft að hugsa um neitt annað en sjálfan sig." Árni bendir á að þó að samkynhneigðum verði nú mögulegt að eignast börn verði það langt frá því að vera einfalt mál. "Þeir þurfa að biðja um einhvers konar hjálp, í hvaða formi sem hún er, og það er erfið ákvörðun að mörgu leyti. Þess vegna held ég að hommar og lesbíur sem taka þá ákvörðun að eignast barn ætli sér í alvöru að sýna hvað í sér býr við foreldrahlutverkið."

Með pomp og prakt

Þegar Hanna María Karlsdóttir leikkona og Sigurborg Daðadóttir dýralæknir gengu að eiga hvor aðra ákváðu þær að gera það með stæl. Eftir að fulltrúi sýslumanns hafði staðfest samvist þeirra á túninu á Árbæjarsafni var gengið til kirkju þar sem séra Cecil Haraldsson blessaði samband þeirra í viðurvist fleiri vina og ættingja en kirkjan náði að hýsa. Að því er þær best vita urðu þær þar með fyrstar samkynhneigðra para til að hljóta kirkjulega blessun sambands síns. Og í veislunni samglöddust þeim hvorki meira né minna en 370 gestir.

"Aðalástæðan fyrir því að við ákváðum að gifta okkur voru réttindin sem hjónabandið veitir," segir Sigurborg. "Til dæmis erfðarétturinn, lífeyrisréttindi, allur réttur í sambandi við fráfall eða stórslys, s.s. líffæragjafir eða umgengni við maka á sjúkrahúsi." Hanna kinkar kolli. "Við höfum heyrt af stúlku sem missti konuna sína til margra ára. Hún hafði engan lagalegan rétt og fékk ekki einu sinni að sjá líkið eða vera við kistulagninguna." Þær segja það því hafa verið einfalda ákvörðun að gifta sig. "Hins vegar setti ég það sem skilyrði að við myndum gifta okkur í kirkju," heldur Hanna áfram. "Ég er alin upp við trú og það er eitthvað sem ég get ekki kastað frá mér. Í framhaldinu fórum við að velta því fyrir okkur hvernig við gætum komið slíku kirkjubrúðkaupi fyrir."

Þetta var árið 1997, aðeins ári eftir að lög um staðfesta samvist samkynhneigðra voru samþykkt. "Þá höfðu nokkrir prestar sagst tilbúnir að blessa samkynhneigða, þar á meðal Cecil Haraldsson, þáverandi sóknarprestur í Fríkirkjunni, sem ég tilheyri," segir Sigurborg. "Við leituðum til hans og hann tók okkur mjög vel en hins vegar fannst honum spurning hvaða kirkja yrði fyrir valinu. Hann var nokkuð viss um að hann fengi samþykki fyrir því að nota Fríkirkjuna en grunaði að safnaðarnefndin myndi klofna í afstöðu sinni til málsins. Því ráðlagði hann okkur að láta ekki steyta á þessu."

Aukið sjálfsöryggi | Þær fóru að ráðum hans því eins og Hanna orðar það hefði "verið frekar óþægilegt að vita að það væri ófriður í kringum þennan stærsta dag í lífi manns". Árbæjarsafnskirkja varð svo fyrir valinu enda engin sóknarnefnd þar. "Það skyggði þó á að gestirnir komust ekki allir í kirkjuna heldur urðu margir að standa fyrir utan," segir Hanna og Sigurborg heldur áfram: "Við eigum marga vini og stórar fjölskyldur og þótti mjög leiðinlegt að þurfa að velja hverjir fengju að vera viðstaddir athöfnina. Sem betur fer var gott veður svo gestum okkar varð ekki meint af útiverunni."

Þær segja það hafa verið mikilvægt fyrir sig að brúðkaupið færi fram með pomp og prakt. "Enda er brúðkaupið sú athöfn þar sem samfélagið samþykkir parið og viðurkennir að nú sé það orðið hjón," segir Sigurborg. "Svo var það ekki bara mikill styrkur fyrir okkur að gera þetta með þessum hætti heldur einnig fyrir nánustu fjölskyldu." Hanna tekur undir þetta. "Þarna hittu vandamenn vini okkar, t.d. þáverandi borgarstjóra, þjóðleikhússtjóra og margar fleiri þjóðþekktar persónur sem var þeim mikill stuðningur. Við urðum varar við aukið sjálfsöryggi okkar nánustu."

Fimmtán ár eru síðan Sigurborg og Hanna María byrjuðu saman. Þær efast ekki um að giftingin hafi haft mikið að segja fyrir samband þeirra. "Maður rýkur ekkert í burtu ef upp koma erfiðleikar," segir Sigurborg. "Samfélagið er búið að viðurkenna okkur sem hjón og ef við flytjum í sundur verðum við að gefa skýringu á því. Ég skildi t.d. eftir tólf ára sambúð og enginn spurði hvernig mér liði, það var engin hluttekning. Fólk leit svo á að ég byggi bara með "vinkonu" minni þótt allir hafi vitað hvers kyns var."

Dæminu snúið við | Frumvarp ríkisstjórnarinnar um réttarstöðu samkynhneigðra segja þær þó gífurlegt framfararskref. "Í raun hefur það meiri réttindi í för með sér en maður hefði nokkurn tíma vonað að næðu fram á meðan við lifðum enda hafa miklar breytingar orðið á ótrúlega stuttum tíma." Þær segja að lagabreyting eins og sú sem nú er á döfinni hefði breytt miklu fyrir sig hefði hún komið fram fyrr. "Við værum sjálfsagt með fimmtán ára ungling núna og jafnvel tvo eða þrjá krakka. En þó að það sé of seint fyrir okkur samgleðjumst við að sjálfsögðu hinum sem fá að njóta þessara breytinga."

Sigurborg fagnar því að með frumvarpinu hljóti samkynhneigðir jöfn réttindi á við aðra að undanskildum réttinum til að hljóta hjónavígslu í kirkju. "Hins vegar er þjóðin og Alþingi í raun tilbúin til að ganga skrefið til fulls. Af hverju ekki að klára þetta bara núna og verða fyrst í heiminum til að ná fram fullkomnu jafnrétti? Kirkjan segir að með því að heimila trúfélögum að gefa saman samkynhneigða sé hún þvinguð til að gera það en það er ekki rétt. Með því er einungis verið að opna fyrir þann möguleika. Þjóðkirkjan þarf ekki að gera það frekar en hún vill og ef henni finnst svona erfitt að gefa samkynhneigða saman verður bara að virða það. Ekki viljum við að menn séu þvingaðir til einhvers sem er þeim á móti skapi enda búið að þvinga okkur það mikið í gegn um tíðina að við vitum hvað það er sárt." Hún stingur upp á lausn sem fæli í sér að snúa dæminu við. "Í Þýskalandi þurfa allir sem gifta sig að fara til sýslumanns eða borgardómara - það er hin lögformlega athöfn. Síðan fær fólk kirkjulega vígslu ef það vill. Ef sú leið yrði farin hér næðist fullkomið jafnrétti því þannig gifta samkynhneigðir á Íslandi sig í dag."

Þeim finnst eðlilegt að nota sömu hugtök um samvistir samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. "Það þýðir ekkert að segja að við séum í staðfestri samvist því fólk skilur það ekki. Við segjum einfaldlega að við séum hjónur eða hjón. Þetta orð er m.a.s. hvorugkynsorð þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að það gangi fyrir alla."

En hvers vegna þessi barátta? Geta samkynhneigðir ekki bara gert eins og þær Hanna og Sigurborg; farið til sýslumanns og fengið kirkjulega blessun eftir á?

"Við erum alltaf að berjast fyrir jafnrétti," svarar Sigurborg. "Og fyrir fólk sem er trúað skiptir miklu máli að það standi jafnfætis öðrum að þessu leyti." "Eða eins og blessuð Biblían segir," bætir Hanna við, "þá eru allir menn jafnir fyrir Guði."

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur