Mikið verður um dýrðir á 900 ára afmæli Hóla, sem haldið verður á þessu ári, og nær afmælisdagskráin yfir allt árið með ráðstefnum, sýningum, tónleikum og fjölskrúðugu helgihaldi.

Mikið verður um dýrðir á 900 ára afmæli Hóla, sem haldið verður á þessu ári, og nær afmælisdagskráin yfir allt árið með ráðstefnum, sýningum, tónleikum og fjölskrúðugu helgihaldi.

Hólahátíð

Hólahátíð verður hápunkturinn á afmælisdagskránni, en hún er verður11. til 13. ágúst. Hún hefst á föstudagskvöldi með sögusýningu í Reiðhöllinni. Uppistaðan verður flutningur karlakórsins Heimis í Skagafirði á tónlist sem spannar sögu Hóla í níu aldir og er hún sett saman af Smára Ólafssyni, sem er sérfræðingur í kirkjutónlistarsögu. Þá verða helstu biskupar aldanna leiddir fram og segja þeir söguna milli tónlistaratriða, en utan um það heldur Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri.

Á laugardeginum verða farnar fjórar pílagrímagöngur, þrjár heim að Hólum yfir Heljardalsheiði, Hjaltadalsheiði og frá Flugumýri, svokallaða biskupaleið. Stefnt verður heim að dómkirkjunni á Hólum og síðan veittur beini um kvöldið. Fjórða gangan verður helgiganga í Gvendarskál í Hólabyrðu, sem kennd er við Guðmund góða. Þar gekk hann til bæna við mikið altari sem hann helgaði og er ævinlega sungin messa þar á Hólahátíð. Síðan verður samkoma í kirkjunni þegar göngumenn koma til byggða og grillveisla um kvöldið. Á laugardeginum verður einnig opnuð handverkssýning með vinnustofu Norðmanna og Íslendinga, sem sýna tré- og járnsmíði frá miðöldum svipað því sem finna má í Auðunarstofu.

Á sunnudeginum verður hátíðarmessa með fjölmörgum boðsgestum og verða í þeim hópi íslenskir sem erlendir biskupar. Síðar um daginn verður hátíðarsamkoma í reiðhöllinni vegna þess mikla mannfjölda sem gert er ráð fyrir á staðnum og verður fjölmargt á boðstólum. Hægt er að fylgjast með afmælisdagskránni á vefsíðunni holar.is.

Önnur dagskrá

Skólaráðstefna verður haldin í lok apríl þar sem fjallað verður um stöðu framhalds- og háskólastigs á Íslandi, sögu, samtíð og framtíðarsýn.

Sýning tengd fornleifarannsóknum á Hólum verður opnuð í Safnahúsinu á Sauðárkróki í vor.

Húsasögusýning verður opnuð í nýja bæ í júní og tjaldasýning í íþróttasal. Einnig verður haldin alþjóðleg ráðstefna um dýrlinga í júní. Tónleikar verða um hverja helgi yfir sumarið.

Alþjóðleg ráðstefna fornleifafræði verður í ágúst og ráðstefna um Arngrím lærða í október.