"Þótt það sé ekki algildur mælikvarði á menntun höfðu meðaleinkunnir á samræmdum prófum á Suðurlandi verið slakar.

"Þótt það sé ekki algildur mælikvarði á menntun höfðu meðaleinkunnir á samræmdum prófum á Suðurlandi verið slakar. Þetta var meðal annars ástæða þess að við fórum að velta fyrir okkur þeim þáttum sem taldir eru skipta máli í tengslum við skólagöngu barna og hvað hægt væri að gera varðandi þá," segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Hann fluttist búferlum frá Reykjavík til Reykjanesbæjar fyrir tæpum fjórum árum og tók við stjórn bæjarins. Árni er jafnframt formaður fræðsluráðs í Reykjanesbæ.

"Jákvætt viðhorf foreldra skiptir miklu í skólastarfinu. Ákveðið var að leita leiða til að efla foreldrasamstarf og meðal annars útvega foreldrafélögunum launaðan starfsmann. Við vildum líka reyna að efla áhuga foreldranna á skólunum. Allt er auðvitað annmörkum háð en ég vona að hópur foreldra, sem hingað til hefur kannski lítið fylgst með skólamálum og jafnvel óttast skólann af eigin reynslu, sé farinn að líta menntun barna sinna jákvæðari augum. Það hlýtur sömuleiðis að hafa áhrif að kennaramenntað fólk sinni nemendum. Við ákváðum að reyna að fjölga réttindakennurum og höfum á þremur árum farið úr 69% upp í 80%. Gert er ráð fyrir að hlutfall menntaðra kennara fari yfir 90% næsta haust. Aðstaða í skóla og hollur matur hljóta líka að skipta máli varðandi námsárangur. Ákveðið var að leggja áherslu á heilbrigða fæðu, greiða hana niður og gera öllum þannig kleift að nýta sér hádegismat í skólamötuneytum."

Tækifæri í Reykjanesbæ

"Ef við viljum vera fjölskyldusamfélag hljótum við að leggja áherslu á að börn og foreldrar ljúki verkefnum sínum á sama tíma, þannig að eftir vinnu hefjist ekki nýr kafli sem felst í að þeysast með krakkana í íþróttir, tónlist og annað. Það er ekkert síður þægilegt og mikilvægt fyrir börnin að fá tíma með foreldrunum. Ef við meinum eitthvað með fjölskylduvænu samfélagi hljótum við að ætlast til þess að fjölskyldan geti einhvern tímann verið saman," segir Árni.

Spurður hvernig gengið hafi að samhæfa skóla og frístundir segir hann það hafa tekist ótrúlega vel. "Íþróttafélögin tvö í bænum tóku til dæmis mjög vel í hugmyndina. Hún þýddi náttúrlega að færa varð til æfingar þannig að yngstu börnin gengju fyrir á daginn."

Árni segir stærð bæjarins vissulega auðvelda verkefni sem þetta. "Jú, bæði er þetta viðráðanleg stærð og hitt er að í þessu samfélagi sá maður kannski ákveðin tækifæri til að styrkja menntunarþáttinn enn frekar en ella. Það má segja að Reykjanesbær sé í grunninn sjávarútvegssamfélag en hér er líka veitt margvísleg þjónusta fyrir varnarliðið og flugvöllinn. Í sjálfu sér hefur ekki verið lögð megináhersla hér á menntun heldur vinnu. Það var því ánægjulegt og þarft að takast á við skólamálin."

Að sögn Árna komu hugmyndirnar víða að. "Ég er ekki fyrir það að merkja hugmyndir einstaklingum. Þetta eru verkefni sem við höfum mörg hver verið með í kollinum og hér hafa fjölmargir lagt hönd á plóg."