REKSTRARUMHVERFI íslensks hátækniiðnaðar hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, meðal annars vegna hás gengis íslensku krónunnar.

REKSTRARUMHVERFI íslensks hátækniiðnaðar hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu, meðal annars vegna hás gengis íslensku krónunnar. Meðal þeirra sem hafa lagt orð í belg er Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, en hann skrifaði grein á vef sambandsins. Þar segir m.a.:

"Íslenskir ráðamenn virðast einhverra hluta vegna aldrei hafa ráðið við jafnan stíganda í atvinnulífi. Ákvarðanir þeirra hafa alltaf komið í risastökkum, og allt veður á súðum um skamman tíma og svo koma timburmenn og erfið tímabil. Síðutogarar inn á hvern fjörð á örskömmum tíma. Frystihús í hvert þorp og stærri hafnir. Næsta skeið var skuttogaravæðing allra útgerðarstaða. Enn þurfti að stækka allar hafnir. Álver hafa svo verið sú lausn sem stjórnmálamenn sjá þessa dagana og það á að gerast á örfáum árum og stefnt að því að hún verði um þriðjungur af efnahagsstarfseminni í landinu. Þetta er atvinnusköpun íslenskra stjórnmálamanna, stór skref og svo langt kaffihlé með tilheyrandi niðursveiflum og vandræðum. Verkalýðshreyfingin hefur margoft varað við að svona stórtæk stökk geri stjórn efnahagsmála nánast óframkvæmanlega. Auk þess að ruðningsáhrifin geti orðið til mikils skaða þegar til lengri tíma sé litið. Stóriðja er ekki að skapa mörg störf miðað við fjárfestingu."

Fjölbreytni íslensks atvinnulífs fer minnkandi að sögn Guðmundar og sést það meðal annars á miklum innflutningi erlends vinnuafls.

Styðja betur við námið

"Þenslan vex hratt, vextir að hækka og gengi íslensku krónunnar komið í methæðir. Óvandaðir menn reyna að nýta sér ástandið með því að flytja inn bláfátæka verkamenn og hafa af þeim drjúgan hluta af launum þeirra og búa ómanneskjulega að þeim. Þessir menn eru að vinna stórkostleg skemmdarverk á íslenskum vinnumarkaði. Til þess að verja gerðir sínar reyna þeir með hjálp einkennilegra lögmanna að snúa hlutunum á haus að segja að verkalýðshreyfingin sé haldin fordómum gagnvart erlendu launafólki. Maður hefði einhvern veginn haldið að það væri öfugt, verkalýðshreyfingin er að reyna að verja þessa ólánsömu menn og bæta hag þeirra. Það hefur reyndar ætíð loðað við okkur Íslendinga, að nánast útilokað er að fjalla um nokkurt mál með málefnalegum hætti.

Aðrar þjóðir og þá kannski sérstaklega ákveðin svæði, ganga langt fram í því að laða til sín hátæknifyrirtæki og skapa þeim aðlaðandi umhverfi. Þetta vantar hér á landi. Íslensk stjórnvöld verða að taka frumkvæði og taka á þessu verkefni af metnaði. Íslendingar hafa varið svipuðu hlutfalli og aðrar þjóðir í rannsóknir. En þær raddir eru að verða sífellt háværari t.d. meðal hinna Norðurlandanna, að ef þau ætli sér að viðhalda því atvinnu- og efnahagsástandi sem þar ríki, verði að auka rannsóknarfé og styðja betur við hátækniiðnaðinn. Einnig verðum við að styðja enn betur við háskólana og starfstengt framhaldsnám. T.d. ræða Danir það nú að stighækka á næstu árum það hlutfall sem rennur til rannsókna og nær tvöfalda það árið 2015 frá því sem það var árið 2004," segir Guðmundur og heldur áfram:

"Við höfum undanfarið verið að horfa á eftir góðum fyrirtækjum sem eiga langa sögu í íslensku atvinnulífi. Þar voru að verki frumkvöðlar sem með mörgum góðum starfsmönnum hafa á undanförnum árum lagt á sig aukna vinnu og lægri laun til þess að komast í gegnum byrjunarerfiðleika fyrirtækjanna. Þessi fyrirtæki vilja vera áfram hérna, en ástandið í dag er orðið þeim óbærilegt. Það má skilja orð iðnaðarráðherra á undanförnum dögum þannig að stjórnvöld ætli sér að leysa þennan vanda með því að bæta við einu eða tveimur álverum á næstu árum. Maður þorir varla að hugsa til þess ástands sem verður hér þegar þessi stóru verkefni eru skyndilega búin. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld verða að taka höndum saman og grípa til skynsamlegra ráðstafana. Stóriðjustefnan getur verið góð svo langt sem hún nær, en við verðum að gæta vel að okkur og hugsa um atvinnulífið með víðtækari hætti en nú er gert.

Vaxandi fjöldi rafiðnaðarmanna er að horfa á eftir störfum sínum erlendis. Þeir hafa tekið þátt í að byggja þessi fyrirtæki upp. Rafiðnaðargeirinn og samtök rafiðnaðarmanna hafa varið hundruðum milljónum króna á hverju ári til þess að bæta menntunarstig íslenskra rafiðnaðarmanna. Í þessu fólki er fólginn gífurlegur auður fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta fólk skiptir sköpum í að skapa íslenskum fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi. En nú stendur það í vaxandi mæli frammi fyrir því að verða að velja á milli atvinnuleysis, lágt launaðra starfa, eða fylgja fyrirtækjunum utan, eins og mörgum þeirra stendur til boða. Rafiðnaðarsamband Íslands og félagsmenn þess hafa miklar áhyggjur af þessari þróun, það er verið að eyðileggja áratuga gífurlega verðmætt uppbyggingarstarf."