ÞRÍR átján ára piltar voru teknir með hálft kíló af kókaíni í Leifsstöð á fimmtudag og voru úrskurðaðir í viku gæsluvarðhald á föstudag að kröfu sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem rannsakar málið.

ÞRÍR átján ára piltar voru teknir með hálft kíló af kókaíni í Leifsstöð á fimmtudag og voru úrskurðaðir í viku gæsluvarðhald á föstudag að kröfu sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem rannsakar málið. Þetta er með stærstu kókaínmálum sem upp hafa komið í Leifsstöð á liðnum árum og vekur athygli í ljósi svo ungs aldurs smyglaranna með annað eins magn fíkniefna á sér. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði þá við komuna til landsins og kom þá í ljós að þeir höfðu falið efnin innanklæða.

Hreinleiki kókaínsins hefur ekki verið mældur en ætla má að götuverðmæti þess geti numið allt að 20 milljónum króna.

Piltarnir, sem allir eru íslenskir, eiga nokkurn sakaferil að baki.

Málið telst með stærstu kókaínmálum sem upp hafa komið í Leifsstöð. Svo tekin séu dæmi af stærstu málum liðinna ára voru 1,5 kg tekin af manni árið 2002 og árið 2004 var 1 kg tekið af öðrum sem jafnframt reyndi að smygla öðru eins af amfetamíni. Þá voru 400 g af kókaíni tekin af manni árið 2003.