Jakob Björnsson og Gunnar Rafn Sveinbjörnsson voru ánægðir með niðurstöðu nefndarinnar.
Jakob Björnsson og Gunnar Rafn Sveinbjörnsson voru ánægðir með niðurstöðu nefndarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.
Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is

LEIKSKÓLAKENNARAR hækka að meðaltali um 12% í launum og verða kjör þeirra jöfnuð við þær hækkanir sem aðrir háskólamenntaðir starfsmenn fengu í kjarasamningum Reykjavíkurborgar við Eflingu og Stafsmannafélag Reykjavíkurborgar á dögunum. Þetta var samþykkt á fundi Launanefndar sveitarfélaga laust fyrir hádegi í gær.

Hækkunin felst í blöndu af launaflokkahækkunum og eingreiðslum á tiltekin störf og gilda viðbæturnar frá 1. janúar 2006. Með þessari ákvörðun hefur Launanefndin heimilað sveitarfélögum að hækka leikskólakennara í launum samkvæmt ofangreindum forsendum. Hér er þó ekki um að ræða breytingu á kjarasamningum. Heimildin gildir til 30. september næstkomandi þegar samningar leikskólakennara losna og segir Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkur, að þessar hækkanir séu upplegg í nýja samninga í haust.

Stefán Jón segist sem formaður menntaráðs mjög ánægður með þessa niðurstöðu. Markmiðið hafi verið að jafna kjörin og bæta úr þeirri óánægju sem skapast hafi í kjölfar fyrrnefndra samninga Reykjavíkurborgar. "Við komum verulega til móts við leikskólakennara og við náðum því grundvallarmarkmiði að leikskólakennarar verði að minnsta kosti jafnir í launum á við annað háskólamenntað starfsfólk," sagði Stefán Jón og bætti við að borgin myndi strax ganga í málið.

Gunnar Rafn Sveinbjörnsson, formaður LN, segir nefndarmenn hafa lagt hart að sér og unnið vel saman til að ná skjótri og góðri niðurstöðu. Þar með hafi verið bundinn endi á óþægilega biðstöðu og það andrúmsloft sem hún leiddi af sér í samfélaginu. "Það ber að þakka þeim sem hér áttu hlut að máli," segir Gunnar Rafn að lokum.

Þegar Morgunblaðið fór í prentun var nefndin að vinna í málefnum annarra viðsemjenda sinna og var búist við að hún skilaði niðurstöðum sínum síðdegis.

Leiðrétting 30. janúar - Gunnar Rafn er Sigurbjörnsson

ÞAU leiðu mistök urðu við vinnslu fréttar um hækkanir til leikskólakennara í Morgunblaðinu í gær að Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, formaður launanefndar sveitarfélaga, var rangfeðraður og sagður Sveinbjörnsson. Morgunblaðið biðst velvirðingar á þeirri handvömm.