Þessa dagana mætti ætla að stór hluti þjóðarinnar læsi Biblíuna spjaldanna á milli til að hafa alls konar tilvitnanir úr henni á hraðbergi í eldheitum umræðum í kjölfar nýársávarps biskups þar sem hann gerði málefni samkynhneigðra að umtalsefni.

Þessa dagana mætti ætla að stór hluti þjóðarinnar læsi Biblíuna spjaldanna á milli til að hafa alls konar tilvitnanir úr henni á hraðbergi í eldheitum umræðum í kjölfar nýársávarps biskups þar sem hann gerði málefni samkynhneigðra að umtalsefni. Eins og margir hafa bent á má finna þess stað í hinni helgu bók að hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni sé Guði ekki þóknanlegt, en orð biskups um slíkan ráðahag vöktu einmitt mestu deilurnar. Þótt kirkjan sé í eðli sínu íhaldssöm hefur hún endurskoðað gildismat sitt og skilning á bókstafnum í aldanna rás. Ef hún hefði í engu kvikað og til dæmis ríghaldið í hin karllægu viðhorf sem eru svo áberandi í Biblíunni er allt eins líklegt að þorri kvenna væri orðinn trúleysingjar. Og hjónavígslur í kirkju liðin tíð, því tæpast myndu konur játa því að vera manni sínum undirgefnar eins og prestar spurðu verðandi brúðir áður fyrr. Fólk leggur mismikið upp úr hjónaböndum, flestir vilja samt hafa val, þótt svokölluð staðfest sambúð og ýmsir lögformlegir gjörningar tryggi þeim sömu réttindi og væru þeir í hjónabandi. Samkynhneigðir hafa ekki þetta val og þar af leiðandi ekki sömu réttindi og aðrir í hinni ríkisreknu þjóðkirkju. Í Tímaritinu í dag reifar Bergþóra Njála Guðmundsdóttir hvað lagafrumvarp sem ríkisstjórnin kynnti í nóvember sl. felur í sér um réttindi samkynhneigðra og hver þróunin hefur verið á undanförnum árum. Einnig ræðir hún við fjögur samkynhneigð pör, sem hafa mismunandi skoðanir á mikilvægi hjónabandsins sem slíks en telja það sjálfsögð mannréttindi að fá að giftast ástvini sínum í kirkju. Kirkjan sé fyrir alla - ekki bara suma - og allir séu jafnir fyrir Guði. Stendur það ekki annars einhvers staðar í Biblíunni ásamt heilmiklu um kristilegan kærleika og umburðarlyndi? | vjon@mbl.is