Bergman ku hafa verið eyðilagður yfir hvarfi fyrstu kvikmyndatökuvélarinnar sinnar.
Bergman ku hafa verið eyðilagður yfir hvarfi fyrstu kvikmyndatökuvélarinnar sinnar.
FYRSTA kvikmyndatökuvél sænska kvikmyndagerðarmannsins Ingmars Bergmans er komin í leitirnar eftir umfangsmikla leit.

FYRSTA kvikmyndatökuvél sænska kvikmyndagerðarmannsins Ingmars Bergmans er komin í leitirnar eftir umfangsmikla leit. Undanfarna daga var talið að vélinni hefði verið stolið úr utanríkisráðuneytinu í Svíþjóð, en vél þessi skipar veigamikinn sess í farandsýningu um kvikmyndaleikstjórann, sem síðast var sett upp í Reykjavík.

Vélin vakti áhugann

Um er að ræða fyrstu kvikmyndatökuvél Ingmars Bergmans. Upphaflega fékk Dag bróðir hans hana í jólagjöf, en sagt er að Ingmar hafi skipt við hann á vélinni og hundrað tindátum, lokað sig inni í fataskáp með tækið og þar með hafi vaknað brennandi áhugi hans á kvikmyndum og kvikmyndagerð.

Á síðustu árum hefur kvikmyndatökuvél þessi verið hornsteinn í yfirlitssýningu um kvikmyndaleikstjórann, "Áður en Ingmar varð Bergman", sem ferðast hefur um Evrópu. Síðast var sýningin sett upp í Norræna húsinu í Reykjavík, þar sem hún var opnuð 10. september síðastliðinn. Eftir sýninguna var vélin send í sérstökum öryggispósti til utanríkisráðuneytisins í Svíþjóð. Sökum mikilvægis vélarinnar var hún ekki send með hinum hlutunum á sýningunni í hefðbundnari sendingu, heldur tekin úr og send með öryggispósti utanríkisráðuneytisins. Þegar senda átti vélina áfram til Búkarest var hún sem sagt horfin og var Ingmar Bergman sagður eyðilagður yfir hvarfi vélarinnar í sænskum fjölmiðlum.

Eftir hvarfið hófst umfangsmikil leit að vélinni, sem að lokum fannst á lager Sænsku stofnunarinnar, opinberrar skrifstofu sem hefur það að markmiði að miðla þekkingu um Svíþjóð um allan heim, í gær.