Úr myndbandi Ingileifar Thorlacius.
Úr myndbandi Ingileifar Thorlacius.
Sýningunni lýkur í dag.

SÝNINGU systranna Áslaugar og Ingileifar Thorlacius í Gallerí + mætti lýsa sem lágstemmdri og innilegri. Innileikinn felst í því persónulega sambandi sem greina má á milli listamannanna og verkanna. Áhorfandinn hins vegar gæti upplifað sig örlítið utangátta þar sem framsetning verkanna er á hlédrægari nótunum og engar vísanir í texta um hugmyndafræðilegt inntak þeirra. Þó þarf ekki nema örlítið ímyndunarafl til að tengja fagurfræði myndverkanna og framsetningu verkanna við pólitíska og heimspekilega umræðu samtímans um náttúrusiðfræði og samspil menningar og náttúru.

Áslaug sýnir ljósmyndir, vatnslitamyndir og blýantsteikningu af íslenskum blómum. Ljósmyndirnar eru hefðbundnar og sýna smávaxinn gróður í sínu náttúrulega umhverfi en hinar sýna blómin aðgreind frá umhverfinu og aðskilin frá rótfestunni að hætti skýringamynda í gömlum grasafræðibókum. Um leið vegur listræn útfærsla jurtanna þyngra en raunsæ eftirlíking þeirra. Roðafífill, Melasól, Krossmaðra og fleiri jurtir eru málaðar í afar gagnsæjum og fölum litum og draga fram örþunna og brothætta áferð sem miðla tilfinningunni fyrir hinu hverfula andartaki þegar uppslitið blóm er dáið á meðan það virðist enn lifandi.

Myndband Ingileifar af kúrandi hundi sem hringar sig saman í stól hefur yfir sér eitthvað af þeim sama dapurleika varnarleysis sem finna má í fölnandi blómamyndum Áslaugar. Um leið og hlýlegt heimilisumhverfið og notaleg dægurlög útvarpsins skapa kunnuglega sviðsmynd afslöppunar og öryggis er maður ekki viss um hvort gól hundsins með sumum lögunum eru skemmtileg tilraun hans til að taka þátt í söngmenningu mannsins eða hvort þau eru ámátleg og sprottin upp úr leiðindum.

Verk Ingileifar og Áslaugar kallast á ef verkin eru lesin á þessum nótum og sýningin hefur víðari skírskotanir en í fljótu bragði virðist. Hún heldur áfram að virka innra með áhorfandanum sem fagurfræðileg eða tilfinningaleg rökræða frá því sjónarhorni sem gefið er í sýningunni. Sýningin er einhvernveginn eins og viðfangsefni hennar bæði góð og vond á svolítið sérstakan hátt, og er það helsta aðal hennar. Það hefði þó ekki eyðilagt fyrir þótt nöfn blómanna á myndum Áslaugar væru tengd hverri mynd fyrir sig og myndband Ingileifar virðist óþarflega langdregið, en þessi atriði í framsetningunni er partur af viðmóti sýningarinnar gagnvart áhorfandanum.

Þóra Þórisdóttir