Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er vel tækjum búið og hefur fundið nokkrar loðnutorfur.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er vel tækjum búið og hefur fundið nokkrar loðnutorfur. — Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson
Eftir Kristin Benediktsson um borð í Árna Friðrikssyni RE 200 RANNSÓKNASKIPIÐ Árni Friðriksson RE 200 hefur orðið vart við peðrur, litlar torfur, af loðnu austan við Hvalbakssvæðið og er mikið af þorski og öðru lífi undir torfunum.
Eftir Kristin Benediktsson um borð í Árna Friðrikssyni RE 200

RANNSÓKNASKIPIÐ Árni Friðriksson RE 200 hefur orðið vart við peðrur, litlar torfur, af loðnu austan við Hvalbakssvæðið og er mikið af þorski og öðru lífi undir torfunum. Bjartur NS frá Neskaupstað var á ferðinni nær landinu og lét vita af loðnu á grunnslóðinni en svo virðist sem lítill kraftur sé í loðnugöngunni enn sem komið er, að sögn Sveins Sveinbjörnssonar fiskifræðings, sem sat í gær morgunvaktina í Bergmálinu, stjórnstöð leitarinnar um borð í skipinu.

Nokkrar eru norsk-íslenskar

Laust upp úr miðnætti aðfaranótt laugardags varð vart við nokkrar torfur, þar af eina áberandi stærsta, 23 mílur austur af Litladýpi, sem gengur út úr Fætinum. Flottrollið var sett út og tekið hal fyrir sýni og reyndist þetta stór og falleg síld, sem nú er í rannsókn í rannsóknastofu skipsins, þar sem hún er aldurs- og kyngreind og síðan er skoðað sérstaklega hvort síldin er úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Anna Heiða Ólafsdóttir líffræðingur og Leifur Aðalsteinsson rannsóknarmaður fundu nokkrar síldar úr norsk-íslenska stofninum í sýnaúrtakinu sem komið var nálægt hrygningu og sagði Anna Heiða að það væri ekki óalgengt að finna einstakar síldar innan um íslensku sumargotssíldina.

Í morgunsárið í gær, laugardag, var skipið statt suðaustur af Litladýpi þar sem lóðar á loðnu sem verður tekið sýni úr auk þess sem Sveinn vill láta toga eftir þorski nær botninum undir loðnutorfunum til að sjá og rannsaka lífið sem sést á dýptarmælinum. Sónartæki er sett á lánsflottrollið frá Faxa RE og eru sendingarnar frá sónarnum vistaðar inn á tölvu til að vinna úr seinna.

Guðmundur VE kastaði í fyrrinótt á Rauðatorginu, þar sem Árni Friðriksson RE fann loðnuna á föstudagsmorgun. Þar er loðnan unnin um borð þar sem skipið hefur leitarkvóta. Áta mældist 10% í loðnunni á svæðinu svo hún var vinnsluhæf fyrir markað sem leyfir meiri slaka eins og sá rússneski. Loðnan er að síga upp í kantinn austur af landinu, en krafturinn í loðnugöngunni er enginn ennþá.